Hrikaleg gljúfur Allt er stórt í Ameríku og landslagið í Colorado-þjóðgarðinum var engin undantekning þar sem gljúfrin voru djúp og breið.
Hrikaleg gljúfur Allt er stórt í Ameríku og landslagið í Colorado-þjóðgarðinum var engin undantekning þar sem gljúfrin voru djúp og breið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þau keyrðu í gegnum fimm ríki í Bandaríkjunum og skoðuðu fjölmarga þjóðgarða. Kristín Heiða Kristinsdóttir hitti fjölskyldu sem leggur meira upp úr ferðalögum en steinsteypu.

Á síðasta ári vorum við mikið að velta fyrir okkur að skipta um húsnæði og reyna að komast í sérbýli, en eftir að hafa skoðað töluvert og reiknað enn meira, varð niðurstaðan sú að fórnarkostnaðurinn væri of mikill. Við tókum því meðvitaða ákvörðun um að flytja ekki en leggjast frekar í ferðalög," segja þau Bergdís Kjartansdóttir og Þórður Kristjánsson sem fóru í fyrsta langa ferðalagið sitt í sumar sem leið en það var mánaðarferð um Suðvestur-Bandaríkin. Þau lögðu að fótum sér fimm ríki, átta þjóðgarða og rúma 4.000 kílómetra.

"Dætur okkar tvær voru með í för og tengdasonur og þetta var frábær ferð í alla staði. Það var gaman að vera öll saman á þessum þvælingi. Við Þórður og Þórdís yngri dóttir okkar byrjuðum á því að fljúga frá Íslandi til Denver í Colorado og dvöldum í tæpa viku hjá bróður mínum sem þar býr," segir Bergdís og bætir við að þangað hafi eldri dóttirin Bylgja og tengdasonurinn Erik komið frá San Francisco á bílaleigubílnum, en þau höfðu flogið út á undan þeim. "Við keyrðum svo fimm saman til vesturstrandarinnar og það tók tvær vikur. Á leiðinni var ótal margt að sjá en við völdum að keyra eftir sveitavegum en ekki hraðbrautum. Við byrjuðum á að keyra til Moab í Utah þar sem við fórum meðal annars í siglingu um flúðir Colorado-árinnar en það reyndist minna fjör en við áttum von á og var hálfgert flúðaflan, en vissulega var náttúran stórbrotin þó að siglingin hafi verið með rólegra móti. Við heimsóttum marga þjóðgarða á þessari löngu leið og þeir voru hver öðrum fegurri, Arches, Canyonlands, Capitol Reef, Bryce Canyon, Lake Powell, Zion og Yosemite National Park. Við skoðuðum líka Grand Canyon sem var kannski ekki eins stórbrotið og við héldum en engu að síður merkilegt."

Skiptu stundum upp hópnum

Eftir að hafa komið við í Las Vegas lá leiðin til San Diego og síðan fóru þau í rólegheitum norður eftir strönd Kaliforníu með stoppi í Los Angeles, Santa Barbara, Big Sur, Monterey og Carmel. "Við enduðum ferðalagið á því að vera viku í San Francisco þar sem Bylgja og Erik voru í íbúðaskiptum við vini sína."

Þau segja landslagið hafa verið magnað á þeirri leið sem þau keyrðu. "Við héldum að þarna væru bara steppur og auðn, en það var öðru nær. Gróðurinn var mikill og trén uxu út úr sprungum í fjöllunum og þau voru himinhá. Náttúran einkenndist af gulum og rauðum litum ævafornra jarðlaga og sorfins sandsteins. Við vorum ekki alltaf sammála um hvað ætti að skoða eða gera, þannig að við skiptum stundum liði, sumir fóru í skoðunarferðir meðan aðrir lágu í leti. En þetta gekk á allan hátt upp og friðurinn hélst allan tímann. Bandaríkjamenn mega eiga það að þeir eru mjög skipulagðir og allt stenst hjá þeim."

Bandaríkjamenn komu á óvart

Mest af tímanum voru þau hátt uppi í fjöllum og hitinn var því sjaldnast óbærilegur. "Eina nóttina sváfum við í rúmlega 30 gráða hita og reykjarmekki frá skógareldum í Zion og það var vissulega erfið nótt. Annars kólnaði yfirleitt vel á nóttunni og þá komu íslensku svefnpokarnir sér vel, en við vorum með tjald með okkur og gistum oftast á tjaldstæðum þar sem við höfðum pantað stæði með góðum fyrirvara. Við gistum líka stundum á mótelum eða leigðum okkur hús sem var ágæt tilbreyting frá tjaldinu. Þeir Bandaríkjamenn sem við hittum voru mjög hjálplegir, indælir, vel menntaðir og á móti stríðinu í Írak. Þetta kom okkur svolítið á óvart því við vorum stútfull af fordómum um að þeir væru leiðinlegir og illa upplýstir."

Þau hafa þegar lagt á ráðin um næsta ferðalag sem verður til Andalúsíu í vor. "Þórdís ætlar í málaskóla á Spáni með vinkonu sinni og við ætlum að sækja þær þegar námsdvölinni lýkur og hefja ferðalagið. Síðan stefnum við að því fara til Suður-Ameríku á þarnæsta ári. Við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa valið ferðalög fram yfir steinsteypu. Ef við hefðum keypt okkur raðhús hefðum við þurft að borga 20 milljónir á milli og afborganir af þeim á mánuði eru um 100 þúsund. Það má ferðast heilmikið fyrir rúma milljón á ári."

khk@mbl.is