Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: "Við eigum að leyfa okkur þann munað að kenna á íslensku og leyfa okkur það ómak að hugsa á íslensku."

Árið 1995 ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert og var hann haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti árið 1996.

Menntamálaráðuneytið hefur síðan árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það í góðu samstarfi við skóla, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga, enda virðist dagur íslenskrar tungu hafa náð fótfestu í samfélaginu.

Hátíðardagskráin hefur í gegnum árin verið haldinn víðs vegar um landið en að þessu sinni verður hún haldin í Reykjavík.

Það setur mark sitt á hátíðarhöldin að þessu sinni að í dag er 200 ár liðin frá fæðingu Fjölnismannsins, skáldsins og náttúrufræðingsins Jónasar Hallgrímssonar. Þess hefur verið minnst með ýmsum hætti undanfarið ár. Dagskrá afmælishátíðarinnar, sem skipulögð var af sérstakri verkefnisstjórn undir forystu Halldórs Blöndals, hefur verið umfangsmikil og Jónasar verið minnst með ýmsum hætti jafnt hér á Íslandi sem í Danmörku og á slóðum Vestur-Íslendinga í Winnipeg í Kanada. Dagskrá afmælishátíðarinnar lýkur formlega í kvöld með veglegri hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu sem sýnd verður beint í Ríkissjónvarpinu.

Það er mikilvægt að við sem þjóð endurnýjum stöðugt kynni okkar af Jónasi. Í barnæsku lærðum við flest að meta skáldið Jónas, léttar og grípandi skemmtivísur jafnt sem magnþrungin ættjarðarljóð og annan skáldskap. Seinna komumst við að því að hann átti sér fleiri hliðar, meðal annars sem náttúrufræðingur, þýðandi, nýyrðasmiður og fræðimaður, auk þeirra persónulegu gilda sem hann hafði til að bera.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á tveimur vefsíðum um Jónas Hallgrímsson. Annars vegar síðu sem opnuð var á fæðingardegi hans, 16. nóvember á síðasta ári, (www.jonashallgrimsson.is) en þar er að finna margskipta efnisflokka sem ná yfir fjölbreytt og kraftmikið lífsstarf, sem hefur haldið nafni hans á lofti, og við getum aðeins harmað að hafi ekki orðið lengra, en Jónas Hallgrímsson lést í Kaupmannahöfn árið 1845, aðeins 37 ára gamall. Hins vegar hinn aðgengilega og skemmtilega vef jonas.ms.is sem Mjólkursamsalan hefur látið hanna og opnaður var fyrr í vikunni. Þá var í gær opnuð í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu sýningin Ferðalok um manninn, skáldið og náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson. Er hún sú þriðja í röð sýninga sem settar hafa verið upp um Jónas á afmælisárinu, en einnig hafa verið haldnar sýningar í Amtsbókasafninu á Akureyri og á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn.

Staða íslenskunnar er sem betur fer sterk og okkur hefur gengið betur en mörgum öðrum þjóðum að viðhalda sérkennum tungu okkar. Víða eru þó blikur á lofti.

Þegar Jónas Hallgrímsson var í Bessastaðaskóla var sótt að íslenskunni. Nú er enn sótt að íslenskunni úr öllum áttum og af enn meira afli. Því er í dag brýnna en nokkru sinni fyrr að slá varðborg um íslenska tungu, ekki til að meina henni að breytast og verða fyrir eðlilegum áhrifum sem endurspegla nýja tíma, heldur til að berjast gegn þeim ósið að snúa öllum heitum upp á enska tungu, kvikmyndum, verslunum og auglýsingum. Við eigum að leyfa okkur þann munað að kenna á íslensku og leyfa okkur það ómak að hugsa á íslensku.

Í stefnuskrá íslenskrar málnefndar fyrir árin 2006–2010 kemur fram að nefndin hyggst leggja til að íslenska verði lögfest sem opinbert tungumál á Íslandi. Ég hef lýst því yfir að ég telji rétt að ganga lengra en nefndin leggur til og það sé skynsamlegt og æskilegt að tryggja stöðu íslenskunnar með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá. Staða íslenskunnar verður hins vegar ekki aðeins tryggð með lögum.

Það er áhyggjuefni að orðaforði ungmenna virðist fara þverrandi og það sama má segja um bókalestur. Okkur sem þjóð ber skylda til að halda vöku okkar og hlúa að því fjöreggi sem íslenskan er. Skólakerfið ber ríka ábyrgð í því sambandi, en ábyrgðin liggur og verður að liggja víðar: Hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum, hjá fjölmiðlum, fjölskyldum og einstaklingum. Við megum ekki hopa undan ágangi enskunnar. Tungan er grunnurinn að tilvist íslenskrar þjóðar, sjálfsmynd okkar og sérstöðu.

Þótt dagurinn í dag sé helgaður sérstaklega íslenskri tungu verða allir dagar að vera dagar íslenskrar tungu, einungis þannig tryggjum við stöðu íslenskunnar.

Höfundur er menntamálaráðherra.