Fyrirmenn við greftrun beina Jónasar Frá vinstri má þekkja m.a. Gizur Bergsteinsson (annan frá vinstri) hæstaréttardómara, Sigurð Hlíðar dýralækni og Ólaf Thors forsætisráðherra. Hempuklæddu mennirnir fyrir miðri mynd eru séra Bjarni Jónsson, Sigurgeir Sigurðsson biskup, og séra Hálfdan Helgason, sóknarprestur á Mosfelli. Milli séra Bjarna og Sigurgeirs biskups má greina Jónas Jónsson frá Hriflu. Frakkaklæddi maðurinn með hattinn í hendinni er Sigurður Pétursson gerlafræðingur.
Fyrirmenn við greftrun beina Jónasar Frá vinstri má þekkja m.a. Gizur Bergsteinsson (annan frá vinstri) hæstaréttardómara, Sigurð Hlíðar dýralækni og Ólaf Thors forsætisráðherra. Hempuklæddu mennirnir fyrir miðri mynd eru séra Bjarni Jónsson, Sigurgeir Sigurðsson biskup, og séra Hálfdan Helgason, sóknarprestur á Mosfelli. Milli séra Bjarna og Sigurgeirs biskups má greina Jónas Jónsson frá Hriflu. Frakkaklæddi maðurinn með hattinn í hendinni er Sigurður Pétursson gerlafræðingur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BEIN Jónasar Hallgrímssonar voru flutt til Íslands frá Assistentskirkjugarðinum í Kaupmannahöfn árið 1946. Það var iðnjöfur úr Mosfellssveit, Sigurjón Pétursson, forstjóri Álafoss, sem stóð fyrir því að fá bein Jónasar flutt heim.

BEIN Jónasar Hallgrímssonar voru flutt til Íslands frá Assistentskirkjugarðinum í Kaupmannahöfn árið 1946. Það var iðnjöfur úr Mosfellssveit, Sigurjón Pétursson, forstjóri Álafoss, sem stóð fyrir því að fá bein Jónasar flutt heim. Sigurjón var mikill áhugamaður um Jónas og vildi hann grafa Jónas norður í Öxnadal, þaðan sem Jónas er ættaður.

Sigurjón borgaði heimflutninginn

Var Sigurjón búinn að standa í miklum rökræðum við fyrirmenn í ríkisstjórn, m.a. Ólaf Thors, þáverandi forsætisráðherra, og Jónas frá Hriflu, sem átti sæti í Þingvallanefnd. Ríkið taldi bein Jónasar vera þjóðareign og að bein hans skyldu grafin í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, við hlið Einars Benediktssonar. En ríkið virtist ekki hafa peninga til að borga fyrir uppgröft beina Jónasar og flutning þeirra heim. Sigurjón greiddi fyrir meirihlutann, m.a. greiddi hann undir þjóðminjavörð, Matthías Þórðarson, svo hann kæmist út og gæti byrjað uppgröftinn. Það tók dágóðan tíma því Matthías þurfti að grafa fyrst upp þá sem lágu ofan á Jónasi. Það voru hjón, sem voru jarðsett um aldamótin 1900 og feðgar jarðsettir 1875. En Jónas dó árið 1845, 26. maí í Kaupmannahöfn.

Loks þegar bein Jónasar komu með Brúarfossi til landsins í október 1946 voru alþingismenn, þ.m.t. þeir sem Sigurjón hafði staðið í deilum við, fastir inni á þingi að setja lög um Keflavíkurflugvöll.

Flutti beinin norður

Sigurjón nýtti sér tækifærið, fyrst enginn úr Þingvallanefnd eða frá ríkinu var til að taka á móti beinunum, og ók beint norður í land með líkamsleifarnar. Hann ætlaði sér að láta grafa Jónas fyrir norðan, en varð ekki að ósk sinni. Prestar fyrir norðan neituðu að jarðsyngja hann, skv. fyrirskipunum að sunnan.

Að endingu stóð kista Jónasar í kirkjunni að Bakka í um viku áður en henni var ekið suður og var svo loks grafin í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum hinn 16. nóvember 1946, en Jónas hafði fæðst 16. nóvember og er sá dagur nú dagur íslenskrar tungu.

Ferðalok eftir Jón Karl Helgason, en hann ritaði þessa skýrslu þegar bein Jónasar voru grafin upp aftur og send út til Danmerkur til DNA-greiningar. Efasemdir höfðu þá verið uppi um hvort beinin væru í raun Jónasar.

Stytta af Jónasi eftir Einar Jónsson var afhjúpuð 1907 í Hljómskálagarðinum.

Athöfnin á Þingvöllum við jarðsetningu beina Jónasar fór þannig fram að fyrstir báru kistuna úr kirkju stjórnmálamenn með Ólaf Thors forsætisráðherra og Jónas Jónsson frá Hriflu fremsta en síðan tóku við rithöfundar og náttúruvísindamenn sem báru hana upp að grafreitnum, þar sem Einar skáld Benediktsson lá fyrir.

Að lokum er rétt að geta þess að Þór Guðjónsson,fyrrverandi veiðimálastjóri, var yngstur burðarmannana og er líklega sá eini sem enn er á lífi. Hann veitti Morgunblaðinu ómetanlega aðstoð við að bera kennsl á menn á myndunum.

VEFVARP mbl.is
Útför Jónasar