28. nóvember 2007 | Innlendar fréttir | 940 orð | 3 myndir

Bilið milli ríkra og fátækra landa breikkar

*Ísland í efsta sæti á lífskjaralista SÞ *Ábyrgð okkar mikil, segir ráðherra

Ábyrgð Flóð og þurrkar – uppskerubrestur og hungur. Þetta eru meðal áhrifa loftslagsbreytinga nú þegar. Þjóðir heims þurfa allar að aðlagast breyttum aðstæðum og gera áætlanir til að bregðast við yfirvofandi vá.
Ábyrgð Flóð og þurrkar – uppskerubrestur og hungur. Þetta eru meðal áhrifa loftslagsbreytinga nú þegar. Þjóðir heims þurfa allar að aðlagast breyttum aðstæðum og gera áætlanir til að bregðast við yfirvofandi vá. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is Á Loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí nú í desember gefst ríkjum heims fágætt tækifæri til að stilla saman strengi sína og hefja víðtækar samningaviðræður um hnattræna lausn á þessum hnattræna vanda.
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

Á Loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí nú í desember gefst ríkjum heims fágætt tækifæri til að stilla saman strengi sína og hefja víðtækar samningaviðræður um hnattræna lausn á þessum hnattræna vanda. Þar má enginn ganga úr skaftinu. Og allra síst ríkið á toppnum, Ísland. Okkar hlutskipti hlýtur að vera að bretta upp ermarnar og bjóða fram krafta okkar til lausnar á vandanum. Við erum einn tíuþúsundasti af loftslagsvandanum en við gætum verið miklu stærri hluti af lausninni. Við höfum gnótt þekkingar á nýtingu á vatnsorku og jarðvarma og getum verið leiðandi á heimsvísu hvað jarðhitann varðar. Við getum verið í fremstu röð ríkja heims í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.“ Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra m.a. í gær er kynntar voru í Háskóla Íslands niðurstöður Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem nú er helguð baráttunni við loftslagsbreytingar. Samkvæmt skýrslunni er Ísland efst á lífsgæðalista SÞ af 175 þjóðum, en undanfarin sex ár hafa Norðmenn trónað á toppnum. Lífsgæðalistinn er metinn út frá mörgum þáttum, m.a. lífslíkum, meðaltekjum, læsi og menntun.

„Þessi forréttindi leggja okkur ríkar skyldur á herðar og undirstrika nauðsyn þess að við öxlum ábyrgð okkar í samfélagi þjóðanna,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.

Sextán lönd verr sett nú

Í skýrslunni er sýnt fram á þann sláandi mun sem er á lífsgæðum fólks í hinum vestræna heimi og fátækari löndum. Og sá munur er að aukast. Í flestum ríkjum hafa lífsgæði batnað, en í 16 löndum, öllum sunnan Sahara í Afríku, hafa lífsgæði versnað frá árinu 1990. Í þremur þeirra eru lífsgæðin verri en þau voru árið 1975. Bágur efnahagur spilar þar inn í en hörmulegar afleiðingar HIV-sýkinga og alnæmis eru helsta skýringin.

Í tíu fátækustu löndunum samkvæmt listanum munu tvö af hverjum fimm börnum ekki ná fertugu en níu af hverjum tíu börnum í ríkustu löndunum ná sextugu.

Það er í þessum fátækustu ríkjum heims sem áhrifa loftslagsbreytinga gætir helst. Það helgast m.a. af því að þau hafa ekki burði til að aðlagast breyttum aðstæðum. Til þess þarf fjármagn, sem eingöngu ríkari löndin búa yfir. Í borgum eins og London og Los Angeles kann að skapast flóðahætta þegar sjávarmál hækkar vegna loftslagsbreytinga en íbúar þeirra eru verndaðir með margbrotnum flóðvarnarkerfum. Öðru máli gegnir þegar hlýnun jarðar breytir veðurmynstri yfir norðausturhorni Afríku, þá bregst uppskera, fólk sveltur og konur og ungar stúlkur eyða fleiri klukkustundum í að afla vatns.

„Fátækustu ríki heims þurfa aðstoð til að bregðast við og aðlagast loftlagsbreytingum, og er nauðsynlegt að tekið sé mið af þeirri þörf í alþjóðlegri þróunarsamvinnu,“ sagði utanríkisráðherra. Sagði hún þetta endurspeglast í þróunarsamvinnu Íslands sem byggðist m.a. á sjálfbærri þróun, þ.m.t. baráttu við loftslagsbreytingar. „Öll aðstoð Íslendinga við uppbyggingu á nýtingu jarðhita í þróunarlöndunum er gott dæmi um slíkt,“ benti ráðherrann á. „Einnig er það sláandi að sjá hversu víða er pottur brotinn varðandi jafnrétti kynjanna og er greinileg fylgni milli aukins jafnréttis kynjanna og bættra lífskjara,“ sagði Ingibjörg um niðurstöður skýrslunnar. „Er þetta enn ein staðfesting þess að aðstoð við konur í þróunarríkjum hefur hvarvetna margfeldisáhrif fyrir samfélagið.“

15% íbúa ábyrg fyrir 50% mengunar

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að ábyrgð ríku þjóðanna er mikil. Þar búa 15% jarðarbúa sem bera ábyrgð á um helmingi alls útblásturs gróðurhúsalofttegunda. En líkt og Daniel Coppard, einn höfunda skýrslunnar, sem kynnti hana á Íslandi í gær, segir þá eru þetta þjóðirnar sem hafa fjármagnið og tæknina til að bregðast við.

Gögnin sem skýrslan byggist á eru frá árinu 2005. Samkvæmt þeim er útblástur koltvíoxíðs (CO2) 7,6 tonn á hvern Íslending. Í máli utanríkisráðherra kom m.a. fram að losunin er um 17 tonn á hvern Íslending í dag. Þá er losun á hvern íbúa í Bandaríkjunum fimm sinnum meiri en í Kína og meira en 15 sinnum meiri en í Indlandi. Í Eþíópíu er meðallosun á íbúa 0,1 tonn af CO2 samanborið við 20 tonn í Kanada.

„Ef litið er til þeirrar mengunar sem við hvert og eitt skiljum eftir okkur þá erum við í hópi þeirra þjóða sem mest menga,“ sagði Ingibjörg um stöðu Íslands. „Okkar góðu lífskjörum fylgir fórnarkostnaður. Við höfum hins vegar allar forsendur til að draga úr þessum kostnaði og við eigum að leggja metnað okkar í að vera ekki aðeins öðrum þjóðum fyrirmynd í góðum lífskjörum heldur líka í lífsháttum sem leitt geta af sér aukin loftslagsgæði.“

Hægt að grípa inn í

Loftslagsbreytingar eru einmitt það sem ræður úrslitum um þróun lífskjara á okkar tímum, sagði Coppard. Fyrstu hættumerkin væru þegar sýnileg. Víða í þróunarríkjunum eru milljónir af fátækasta fólki heims þegar knúnar til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga, s.s. flóð, þurrka, uppskerubrest og vatnsskort.

Mörk hættulegra loftslagsbreytinga eru samkvæmt skýrslunni um 2°C hækkun frá iðnbyltingu. Hitastig jarðar hefur þegar hækkað um 0,7° og hækkar með vaxandi hraða. Ef heimurinn grípur nú þegar til aðgerða verður mögulegt – með naumindum – að halda hitastigi hnattarins á 21. öldinni innan við hættumörkin, sagði Coppard. En þegar komið er yfir þau mun hættan á víðtækri afturför í þróun lífskjara og óafturkræfum vistfræðilegum slysum aukast verulega. „Við höfum enn tækifæri, en tíminn er að renna út,“ sagði Coppard og benti á að næsti áratugur réði úrslitum.

Kolefnisáætlun SÞ gerir ráð fyrir að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um helming til 2050 miðað við árið 1990. Auðugu ríkin þurfa að draga úr losun um minnst 80%, með 30% minnkun um 2020.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. að loftslagsbreytingar krefjist brýnna aðgerða nú þegar til að bregðast við hættu sem ógnar tveimur hópum sem lítið láta til sín heyra: hinum fátæku í heiminum og komandi kynslóðum. Heiminn skortir hvorki fjármagn né tækniþekkingu til að bregðast við.

„Hættulegar loftslagsbreytingar eru stórslys sem hægt er að komast hjá í framtíðinni,“ sagði Coppard.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.