8. desember 2007 | Minningargreinar | 4588 orð | 1 mynd

Birgir Guðlaugsson

Birgir Guðlaugsson byggingameistari fæddist á Siglufirði 28. apríl 1941. Hann lést þar 26. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðlaugur Gottskálksson, smiður og verkamaður á Siglufirði, f. 1.10. 1900, d. 6.2. 1977, og kona hans Þóra María Amelía Björnsdóttir, f. 4.11. 1897, d. 27.3. 1976. Systkini Birgis eru Regína, f. 1928, Helena, f. 1932, Sonja, f. 1936 og Birgitta, f. 1945.

Birgir kvæntist 28.4. 1963 Erlu Svanbergsdóttur frá Ísafirði, dóttur Svanbergs Sveinssonar, f. 29.3. 1907, d. 4.1. 2002, og Þorbjargar Kristjánsdóttur, f. 10.4. 1910, d. 28.2. 1984. Þau Birgir eignuðust þrjú börn. 1) Birgitta, f. 27.9. 1963, læknir í Svíþjóð, gift Jóni Rafni Péturssyni, f. 14.5. 1962 og er sonur þeirra Pétur Rafn, f. 8.3. 1988. 2) Bryndís , f. 7.10. 1965, lyfjafræðingur, býr með Árna Magnússyni, f. 24.12. 1962. 3) Guðlaugur, f. 6.8. 1970, sjúkraþjálfari, sambýliskona Berglind Grétarsdóttir, f. 25.2. 1972. Börn Guðlaugs með fyrri eiginkonu, Önnu Rós Jensdóttur, eru Ástrós Erla, f. 1.6. 1998, og Birgir, f. 5.7. 2001.

Birgir lauk grunnskólanámi á Siglufirði og hóf nám í trésmíði hjá Þórarni Vilbergssyni og lauk því 1962. Með Þórarni stofnaði hann byggingafyrirtækið Berg og rak það fyrst ásamt Þórarni en síðan einn. Fyrirtæki Birgis hefur unnið að fjölda bygginga á Siglufirði, lögreglustöðvar, ráðhúss og sjúkrahúss og margir hafa lært til smíða hjá Birgi Guðlaugssyni.

Bátahúsið í síldarminjasafninu er verk Birgis og safnaðarheimilið á Siglufirði sömuleiðis. Atvinnumál og velferð á Siglufirði voru áhugamál hans og sat hann í bæjarstjórn um hríð fyrir Alþýðuflokkinn. Hann starfaði líka að velferðarmálum með Kiwanishreyfingunni. Þá var hann ötull liðsmaður íþróttafélaga á Siglufirði. Sjálfur var hann afreksmaður á skíðum á yngri árum og vann fjölda verðlauna á landsmótum. Hann lék bæði blak og knattspyrnu og í Vasagönguna sænsku fór hann um sextugt.

Hann iðkaði fjallgöngur og var liðtækur skákmaður.

Útför Birgis verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi.

Nú þegar jarðnesk tilvera þín hefur runnið sitt skeið langar mig að líta yfir farinn veg og minnast liðinna stunda. Fyrir mér varst þú ekki eingöngu frábær faðir heldur stórkostlegur maður. Kosti þína kann ég ekki að telja alla, en læt mér nægja að staldra við ótrúlegt þolgæði, óbilandi jákvæðni, manngæsku, hreysti, réttsýni, að ógleymdri stakri ósérhlífni í öllum þeim verkefnum sem þú tókst þér fyrir hendur. Ekkert verkefni var óleysanlegt, hugsun lausnamiðuð og hindrunum rutt úr vegi. Í norðan stórhríð og byl þar sem gluggar brotnuðu og þakplötur flugu, varstu mættur fyrstur manna til að lagfæra það sem hægt var. Nú til dags er fólki tíðrætt um andlega og líkamlega orku til daglegra athafna. Guð má vita hvaðan þú fékkst þína orku og andlegan styrk, en öðru eins hef ég ekki kynnst á lífsleiðinni. Fátt kom þér úr jafnvægi, ef nokkuð. Geðslag þitt er fáum gefið. Með eljusemi, dugnaði, gleði og kímnigáfu hreifst þú fólk með þér meðan þú lifðir. Síðustu dagar hafa ríkulega staðfest hversu marga strengi þú snertir í hjörtum fólks á Siglufirði og víðar. Heilbrigt líferni var þitt val og staðfesta í því tilliti öðrum hvatning og fyrirmynd.

Efst í huga mér er þakklæti þér til handa fyrir að vera alltaf til staðar fyrir okkur systkinin og barnabörn þín. Öll sú viska sem af vörum þínum hnaut verður okkur leiðarljós í lífinu um ókomin ár. Takk fyrir allar samverustundirnar, skíðaferðirnar, fjallgöngurnar, sögurnar, yfirvegunina, væntumþykjuna og hlýjuna er frá þér streymdi. Það veit ég að Guð launar þér ríkulega á nýju tilverustigi fyrir allt það sem þú gafst samferðafólki í hinu jarðneska lífi.

Þú varst engill í mannsmynd.

Þinn

Guðlaugur Birgisson.

Elsku tengdapabbi minn Birgir. Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir tæpum tólf árum. Mér er minnisstæður fyrsti fundurinn okkar, þar sem þú heilsaðir mér svo fallega, faðmaðir mig, og sagðir; „Vertu velkomin í fjölskylduna.“ Þetta varð til þess að það upphófst við okkar allra fyrstu kynni traust og tenging sem hefur alla tíð verið á milli okkar síðan. Nú þegar ég kveð þig, elsku Birgir minn, langar mig til að rifja upp nokkrar gullnar minningar. Við áttum sameiginlegt áhugamál sem var hönnun og arkitektúr. Við gátum skeggrætt fram og til baka um það. Eins og þegar þú smíðaðir sólpallana í garðinn okkar í Ásbúðinni var ekki svo lítið búið að liggja yfir blöðunum. Tröppurnar sem þú smíðaðir svo fagurlega, með litlu fjölunum framan á (sennilega 100 talsins) gerðir þú fyrir mig, þó seinlegt hafi verið. Þá sagðir þú: „Hvað gerir maður ekki fyrir þig, þú ert nú einu sinni uppáhalds tengdadóttir mín!“ sem var náttúrlega brandarinn þar sem þú átti bara eina tengdadóttur. Ég er svo þakklát fyrir stundirnar sem við áttum við borðstofuborðið heima. Þú hafðir svo mikla unun af því að segja sögur. Hve þú ljómaðir er þú sagðir frá öllum smáatriðunum. Þú hafðir svo skemmtilega frásagnargáfu. Svona varstu alltaf svo jákvæður, eljusamur, þolinmóður og úrræðagóður maður, hjartahlýr og vildir allt fyrir alla gera. Það var ekkert sem var þér óyfirstíganlegt, þú leist á hlutina sem verkefni sem þyrfti að leysa. Kærleikur þinn og ömmu gagnvart börnunum ykkar, og barnabörnum var óendanlegur. Þið keyrðuð frá Siglufirði hvern mánuð til að heimsækja okkur og knúsa litlu krílin ykkar sem nú sárt sakna afa síns. Stóru börnin mín minnast góðs afa líka. Er mér ljúft að minnast þess hversu fallega þú komst ávallt fram við þau, þó ekki hafi þau verið þér blóðskyld. Styrkur sá er þú og amma veittuð mér, er leiðir okkar Gulla skildu fyrir tveimur árum, var mér afar kærkominn. Fallegu orðin og kveðjurnar sem ég fékk er mér ómetanlegt að eiga í dag. Æðruleysi þitt í veikindum þínum var aðdáunarvert. Þú barðist hetjulegri baráttu, allt til síðasta dags. Ég spurði mig oft af því hvaðan þessi kraftur og styrkur kæmi hjá þér. Mér fannst svo yndislegt að þú last í litlu Vonarbókinni hvern dag.

Í hjarta mínu er nú staður sem þú munt alltaf eiga. Fallegur staður sem er fullur af ást, kærleika og hlýju til þín, elsku hjartans Birgir minn. Þú varst fyrirmynd mín og verður það áfram um ókomna tíð. Mundu að ég mun alltaf elska þig – alla leið til stjarnanna og aftur til baka. Ég á eftir að sakna þín en mun hugga mig og ylja við yndislegar minningar um þig. Ég mun gæta litlu gullmolanna þinna eins og þú kallaðir börnin okkar, og halda heiðri þínum á lofti um ókomin ár. Hvíl í friði, elsku tengdapabbi minn. Þín Anna Rós

Elsku Erla mín, Birgitta, Binna, Gulli, Pétur Rafn, og aðrir ástvinir. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megi Guð gefa ykkur styrk og styðja. Ég trúi því að afa líði vel núna þar sem hann er staddur. Minning um yndislegan mann mun lifa í hjörtum okkar.

Þín

Anna Rós.

Elsku afi minn. Núna ertu dáinn. Manstu þegar við fórum upp í fjall í berjamó þar sem við tíndum bláber og borðuðum svo með rjóma heima og þér fannst það svo gott og ömmu líka. Manstu þegar við fórum í sund saman, við fórum í leiki í sundlauginni og vorum að kasta á milli okkar. Ég fór svo stundum með ykkur ömmu í blak, þar sem ég fékk að horfa á ykkur. Ég man þegar við fórum í fjöruna og tíndum kuðunga og skeljar og þú byggðir með mér kastala. Við kveiktum líka risastórt bál og Edda vinkona mín fékk að fara með okkur. Svo fórum við líka að veiða stundum á bryggjunni. Einu sinni þegar við vorum nývöknuð þá fórum við út í garð í snjóhúsið sem þú bjóst til fyrir okkur og fengum okkur heitt kakó. Þú bjóst til marga kubba úr snjónum og staflaðir þeim saman svo úr varð snjóhús. Ég man svo eftir þegar þú sagðir mér söguna af Loðinbarða, Grýlu og Búkollu og þá sofnaði ég eiginlega bara á fimm mínútum. Afi náði aldrei að klára söguna því ég var alltaf steinsofnuð áður. Ég fékk alltaf að sofa á milli ömmu og afa og það var svo þægilegt. Þegar ég vaknaði á nóttunni þá gaf afi mér hrísmjólk. Hann var rosalega góður við mig hann afi minn. Þegar ég fékk að fara með ykkur á Sigló stoppuðum við alltaf í Staðarskála. Mér fannst svo gaman þegar þú gafst mér kubbana úr vinnuskúrnum og ég mátti teikna á þá eða smíða úr þeim. Þú hjálpaðir mér að smíða rúm úr þeim og ég man þegar afi tálgaði nafnið mitt, Ástrós, í spýtuna. Það var svo flott. Ég man líka þegar ég nuddaði afa og honum leið mjög vel, hann sagði mér að nudda dálítið fast á einum stað, amma kom og sprautaði köldu kremi á bakið á afa og afi sagði mér að drífa mig að nudda því inn í húðina. Afi borgaði mér 200 krónur fyrir nuddið. Ég var mjög þakklát fyrir.

Kæri afi, þú munt alltaf eiga allt í okkur. Þú hefur hugsað svo vel um ömmu mína og verndað hana. Takk fyrir alla samveruna sem við áttum, afi minn, og takk fyrir að vera svona góður við alla. Ég vona að þér líði núna vel. Kær kveðja frá ástarrósinni þinni

Ástrós Erla.

Elsku afi. Ég trúi því varla ennþá að þú sért farinn. En ég vona að þú sért á betri stað núna og þér líði vel. Þú þurftir ekki að þjást lengur, sem er blessun.

Þegar ég hugsa um allar góðu stundirnar sem við áttum saman þá koma margar minningar upp í hugann á mér. Snjóhúsið sem þú bjóst til á Sigló þegar ég var 10 ára er flottasta snjóhús sem ég hef séð. Síðan kom amma með heitt kakó og smákökur og við áttum góða stund saman. Allar fjallgöngurnar og fjöruferðirnar voru frábærar. Einna helst er mér þó í huga daginn sem við áttum saman í fyrrasumar þegar þú fórst með mér og Siggeiri um allan Siglufjörð. Sýndir okkur öll fjöllin sem þú hefur gengið upp á, fórum í skógræktina og í síldarminjasafnið o.m.fl. Það var yndislegur dagur. Þú hefur kennt mér svo margt í gegnum árin, sem ég mun aldrei gleyma, og mun taka með mér inn í framtíðina.

Núna ertu farinn úr þessu lífi og kominn á betri stað. En þú verður alltaf til í mínu hjarta. Elska þig, þín

Lilja Björk.

Elsku afi.

Ég hef saknað þín mikið. Ég man eftir öllum sögunum sem þú sagðir mér fyrir svefninn. Svo fórum við oft á gervigrasið í fótbolta. Það var gaman. Alltaf þegar við horfðum á fótboltann í sjónvarpinu héldum við með Liverpool og vorum glaðir þegar þeir skoruðu. Einu sinni veiddum við fisk á Sigló og fengum verðlaun. Ég var líka oft með þér á vinnubílnum á Sigló og fórum við alltaf á verkstæðið.

Það var líka gaman að fylgjast með þér smíða, þá fékk ég að negla með þér.

Takk, afi, fyrir að hafa verið svona góður við mig.

Þinn 6 ára afastrákur

Birgir Guðlaugsson.

Með örfáum orðum viljum við kveðja þig, elsku besti bróðir okkar. Margs er að minnast og minningarnar fylla hugann og ylja okkur um hjartarætur. En fyrst og fremst finnst okkur þú vera besti bróðir í heimi. Gleðigjafi mömmu og pabba. Þú varst alltaf svo traustur og góður með þitt kærleiksríka hjarta. Alltaf áttir þú smátíma aflögu ef leitað var til þín, og aldrei voru vandamálin svo stór að ekki væri hægt að leysa þau. Það er því ekki nema eðlilegt í ljósi þess hvernig þú varst, að öllum börnunum í fjölskyldunni þætti vænt um þig og voru þau að ræða það núna að þú værir kominn til guðs og englarnir væru líka örugglega að passa, þig því þú hefðir verið svo góður maður.

Þú varst stoltur af fjölskyldunni þinni og ekki síst barnabörnunum sem voru þér einstakir gleðigjafar. Eiginkonan þín, hún Erla Svanbergsdóttir, er ein af þessum hetjum, eins og við töluðum um síðast þegar við hittumst og þú brostir og sagðir, já ég hefði ekki getað fengið hana betri. Á hún því allan heiður og þakkir skildar fyrir dugnaðinn, þrautseigjuna og æðruleysið sem hún sýndi allan tímann sem þú háðir baráttuna við veikindi þín, – allt til hinstu stundar.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Biggi bróðir, far þú í friði og góður guð varðveiti þig og styrki og umvefji kærleika sínum Erlu, Birgittu, Bryndísi, Guðlaug og fjölskyldur þeirra og allra sem eiga um sárt að binda. Góður guð varðveiti minningu þína. Þínar systur,

Regín, Helena, Sonja,

Marzelia Birgitta

og fjölskyldur.

Mig langar að minnast æskuvinar míns Birgis eða Bigga. eins og hann var kallaður. Hann var öflugur skíðamaður. lagði áherslur á norrænar greinar. varð síðar margfaldur Íslandsmeistari á gönguskíðum og stökki. Birgir var 3 árum eldri en ég og minnist ég þess að hann var að hvetja okkur strákana til að vera með á skíðunum. Fyrstu árin vorum við vinirnir við skíðaiðkun á Siglufirði en síðar fórum við að taka þátt í mótum í öðrum landshlutum. Ég minnist fyrstu áætluðu ferðar minnar til Reykjavíkur sem var með Bigga og öðrum skíðamönnum á Íslandsmótið 1958. Stökkkeppnin var á Kolviðarhólspallinum og á mótið komu bestu stökkmenn landsins, ég var of ungur til að taka þátt í mótinu en boðið að vera undanfari á stökkpallinn fyrir keppendur. Ekki varð úr þessari ferð minni þá, því nokkrum dögum áður brotnaði ég í leikfimistíma í skólanum. En síðar áttum við Birgir eftir að upplifa mörg ævintýri í skíðaferðum saman. Við Birgir unnum að því að bæta okkur af lífi og sál til að verða betri skíðamenn.

Sumrin á Siglufirði iðuðu af lífi og mikið af aðkomufólki. Á veturna var staðurinn einangraður, mikil snjóþyngsli og erfiðar samgöngur um bæinn. Engin göng komin og farið yfir Siglufjarðarskarð sem oft var illfært . Við tókum m.a. að okkur að leita uppi bilaðar rafmagnslínur sem ekki var óalgengt eftir óveður yfir bæinn og rafmagnsleysi. Rafmagnslínur til Siglufjarðar lágu frá Skeiðsfossvirkjun í Fljótum til Siglufjarðar. Þetta var góð æfing fyrir okkur á gönguskíðunum að ganga upp Siglufjarðarskarð, yfir í Fljótin og aftur heim.

Í byrjun árs 1961 fórum við saman til Lillehammer í Noregi í nokkrar vikur til að æfa okkur á gönguskíðum og stökki. Þetta var skemmtilegur tími. Gönguskíði frá því snemma að morgni, stökk æft eftir hádegi og oft ganga um kvöldmat. Þetta var ævintýri líkast. Við fórum víða og tókum þátt í skíðamótum.

Síðsumars 1963 bauð Skíðasamband Íslands göngu- og svigmönnum upp í Kerlingarfjöll til alhliða styrktar- og þolæfinga. Þetta var liður í undirbúningi í þátttöku Íslendinga á Vetrarólympíuleikana í Innsbruck 1964. Til undirbúnings á vali þátttakenda á leikana sjálfa voru síðan haldin úrtökumót. Birgir og ég vorum síðar valdir sem þátttakendur á gönguskíðum á leikana 1964. Ótal minningarbrot hafa komið í hugann þegar ég minnist áranna á Siglufirði og míns besta vinar og félaga á Siglufirði.

Áður en við héldum til Noregs hafði Biggi kynnst ungri stúlku frá Ísafirði sem átti hug hans allan. Bjuggu þau allan sinn búskap á Siglufirði í sínu fallega húsi. Eignuðust 2 dætur og einn son sem er á aldur við syni okkar. Á árum áður fórum við með börnin til ömmu og afa í vetrar- og sumarferðir. Tókst vinskapur með Gulla syni þeirra og okkar sonum og hefur sú vinátta haldist alla tíð. Síðast þegar ég talaði við Bigga í símann var hann kominn til Siglufirði úr sinni síðustu ferð frá Reykjavík úr læknismeðferð. Í samtalinu sagði hann við mig að fyrra bragði að batinn væri hægur.

Erla mín, Birgitta, Bryndís og Gulli, við Eygló og börnin sendum ykkur innilega samúðarkveðju. Blessuð sé minning kærs vinar.

Þórhallur Sveinsson.

Í litlum samfélögum eins og heimabæ mínum Siglufirði er einn af höfuðkostunum að allir þekkja alla, og að fólk er meðvitað um samborgara sína. Það tekur þátt í gleði þeirra og sorgum, sigrum og ósigrum. Þannig hefur mér verið kunnugt um veikindi vinar míns, Birgis Guðlaugssonar byggingameistara, og ég hef fylgst náið með líðan hans og baráttu í veikindunum. Ég hafði því grun um hvaða tíðindi væri verið að færa mér þegar hringt var til mín úr símanúmeri Birgis og eiginkonu hans Erlu. Ég horfði smástund á símanúmerið og bjó mig undir slæm tíðindi og tilfinning mín reyndist því miður rétt, systir Birgis, Regína, tilkynnti mér andlát hans.

Allir Siglfirðingar, hvar sem þeir búa í heiminum, þekktu Birgi vel og eingöngu af góðu einu. Sumir þekktu hann af afrekum hans á íþróttasviðinu en Birgir var til fjölmargra ára einn af bestu skíðagöngu- og skíðastökksmönnum landsins. Margir þekktu hann einnig af félagsmálastörfum hans.

Birgi kynntist ég fyrst sem samstarfsmanni þegar ég var íþróttafulltrúi á Siglufirði. Þar áttum við samvinnu m.a. í uppbyggingu íþróttamannvirkja og við skipulagningu og stjórnun móta. Sem strákpatti leit ég upp til Birgis sem hins unga fjölhæfa og geðprúða íþróttamanns og þeirri skoðun minni deildu fjölmargir unglingar. Hann var góð fyrirmynd í einu og öllu. Birgir náði langt í skíðaiðkun sinni og vann marga titla fyrir Siglufjörð á skíðamótum landsins. Hann lét ekki skíðin ein duga en var einnig vel liðtækur í knattspyrnu. Birgir var því í íþróttum allt árið, og alla sína ævi. Ég átti þess kost, þrátt fyrir nokkurn aldursmun, að vera með Birgi í einni íþróttagrein, það er í öldungablaki, og áttum við þar margar góðar stundir og tókum þátt í fjölmörgum mótum. Birgir var ævinlega hrókur alls fagnaðar og var meðal annars falið að stýra að minnsta kosti tveimur mörg hundruð manna öldungamótum heima á Siglufirði og veita öðrum góð ráð um framkvæmd slíkra móta.

Góð íþrótt er gulli betri og heilbrigð sál í hraustum líkama voru, að mér fannst, einkunnarorð Birgis. Framtakssemi, góð skipulagning og glaðværð fylgdu Birgi í öllum störfum hans. Hann var gull af manni. Hinir mörgu kostir hans nýttust líka vel við rekstur fyrirtækis hans, en Birgir hefur í tugi ára rekið stærsta byggingafyrirtæki okkar Siglfirðinga og byggt tugi húsa og mannvirkja í bænum með sínum góðu starfsmönnum.

Birgir var mjög virkur í félagslífi Siglufjarðar og starfaði í fjölmörgum félögum og valdist oft til forystu í þeim. Oft dáðist ég að störfum hans og þeim tíma sem hann lagði í þau vel studdur af eiginkonu sinni, Erlu Svanbergsdóttur, sem alltaf var traustur bakhjarl hans.

Birgir var mikill jafnaðarmaður og vel vinnandi í okkar röðum. Ég átti því láni að fagna að eiga þau hjón að sem ötula stuðningsmenn ekki aðeins í prófkjörum og kosningum, heldur einnig sem álitsgjafa og ráðgjafa. Fyrir þetta þakka ég sérstaklega. Við Birgir ræddum oft um þá óheillavænlegu þróun sem hefur orðið víða á landsbyggðinni, fækkun atvinnutækifæra og fækkun íbúa, og alveg sérstaklega tókum við út fyrir þá miklu fækkun sem orðið hefur í okkar fallega heimabæ, Siglufirði. Fráfall Birgis skilur þar eftir sig vandfyllt skarð.

Við hjónin færum Birgi kærar þakkir fyrir allar okkar ánægjustundir og mikinn stuðning og hvatningu í gegnum árin.

Eftirlifandi eiginkonu hans og börnum þeirra hjóna svo og öllum ættingjum færum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Birgis Guðlaugssonar. Ljúf er minning um góðan og traustan vin.

Kristján L. Möller.

Siglufjörður hefur nú misst einn af sínum bestu sonum, bærinn okkar var hljóður þegar fánar voru dregnir í hálfa stöng er fréttist af andláti þínu.

Í litlum kaupstað verða einstaklingarnir meira áberandi þar sem nálægðin er og hver og einn fylgist með nágranna sínum, högum hans og líðan.

Það var erfitt að sjá þig berjast við illvígan ólæknandi sjúkdóm.

Þú varst oft fremstur í flokki þeirra vösku drengja sem fóru frá Siglufirði til að etja kappi á skíðamótum á vegum Skíðafélags Siglufjarðar og knattspyrnuleikjum víða um land á vegum KS. Þú varst margfaldur Íslandsmeistari á skíðalandsmótum og hélst á lofti nafni Siglufjarðar.

Eftir eitt slíkt mót á Ísafirði komstu með eignkonu þína Erlu Svanbergsdóttur. Hjónaband ykkar var farsælt og áttuð þið barnaláni að fagna.

Strákarnir okkar, Gulli og Sveinn, fylgdust að í íþróttum og deildu herbergi í heimavist þegar þeir voru í Menntaskólanum á Akureyri.

Þú lærðir trésmíði hjá Þórarni Vilbergssyni og eignaðist síðar Byggingafélagið Berg með honum. Ég man að leiðir okkar lágu saman við byggingu Ráðhússins, þá sá ég strax á vinnubrögðum þínum að þú varst á réttri leið.

Síðasta verk okkar hjá Raflýsingu var að leggja rafmagn í húsið ykkar á Hlíðarvegi 43, þar sem heimili ykkar stóð alla tíð og síðasta verk þitt sem tengdist mér var að byggja hús fyrir starfsemi Rarik á Siglufirði 30 árum seinna.

Þessi tími spannar nánast alla starfsævi þína, þar sem verk þín er að líta hvarvetna í Siglufirði og bera vitni um hagleik þinn og hæfileika.

Það var eftirtektarvert hvað þér hélst vel á starfsmönnum og hvað var góður starfsandi hjá ykkur. Ég harma að þér tókst ekki að ljúka viðbyggingu Heilsugæslu Siglufjarðar, sú bygging verður viðbót við þær byggingar sem þú hefir staðið fyrir og munu halda á lofti nafni þínu.

Eins og ég sagði áður hefur Siglufjörður misst einn af sínum ástsælustu sonum sem bærinn okkar mátti síst við að missa.

Hans er nú sárt saknað.

Elsku Erla,við Auður sendum þér, börnunum og öðrum aðstandendum innlegar samúðarkveðjur og biðjum góðan guð að styrkja ykkur.

Auður og Sverrir Sveinsson.

Það er verðugt rannsóknarefni að kanna hvernig á því stendur að slíkur fjöldi fólks, sem búið hefur á Siglufirði á árunum 1940–1960, hefur orðið krabbameini að bráð.

Þegar maður elst upp með svo traustum og sterkum persónuleika eins og Biggi var, þá heldur maður að það sé ekkert óvenjulegt. Við vorum ákaflega samrýmdir og góðir vinir frá fyrstu barnæsku fram á síðasta dag. Þrátt fyrir fjarvistir og á löngum drjúgan spöl á milli vina bar aldrei á skugga eða tómlæti. Þessi vinátta var alla tíð einlæg, sterk og fölskvalaus eins og Biggi sjálfur.

Báðir lékum við saman knattspyrnu frá yngstu aldursflokkum KS upp í meistaraflokk. Sögurnar af þeirri samveru voru jafnan rifjaðar upp þegar við hittumst og þar naut sín hnyttin frásagnargáfa Bigga til fullnustu.

Ógleymanleg eru öll þau skipti sem við lékum á móti sterkari liðum á suðurmarkið á gamla vellinum á Siglufirði. Vinstra megin á norðurhelmingi malarvallarins var oft stór pollur sem myndaðist um leið og eitthvað rigndi. Þegar sókn mótherjanna tók að þyngjast um of plataði Biggi þá út í pollinn. Enginn kunni að nýta sér tregðulögmál boltans í vatninu eins og hann. Hinir fræknustu knattspyrnumenn, sem sóttu okkur heim, urðu allir að láta í minni pokann þegar Biggi var búinn að taka með þeim nokkra snúninga í pollinum.

Biggi og Erla kona hans voru lengst af duglegust að mæta í morgunsund, en það ásamt öllum fjallgöngunum hefur sennilega gert að þau hjón hafa haldist ótrúlega ungleg alla tíð. Ímyndir hreysti og æsku.

Sú umhyggja verður seint fullþökkuð sem þau hjón sýndu öldruðum foreldrum mínum heima á Siglufirði með tíðum heimsóknum og ætíð réttandi hjálparhönd. Það var sama umhyggjan og þau sýndu þegar við Bigga heimsóttum Siglufjörð. Þar var alltaf opið hús og málin rædd í þaula langt fram eftir nóttu.

Við Biggi vorum samherjar í pólitíkinni. Við vorum aðeins smápjakkar þegar við fórum saman á fyrstu fundina þar sem stórkarlar í stjórnmálunum leiddu saman hesta sína. Og það var fjörugt landslagið á Siglufirði í þeim efnum í þá daga. Ætíð fannst okkur kratarnir bera af í þeim leik og þurfti mikið til að sannfæra okkur um eitthvað annað. Þegar ég var sjálfur farinn að taka þátt í landsmálunum, þá var enginn traustari stuðningsmaður til en Biggi Guðlaugs. Sjálfur tók hann þátt í bæjarpólitíkinni eins og hann mátti vera að. Nú er skarð fyrir skildi þegar Biggi hverfur úr bæjarlífinu, hvernig sem á það er litið.

Eins og ég sagði í upphafi glapti nálægðin sýn. Síðan á æsku- og unglingsárunum hef ég kynnst fjölda fólks um víða veröld og stundað íþróttir í Þýskalandi og víðar. Í samanburðinum við allt þetta fólk finnst mér sífellt meira til Bigga koma. Guðirnir höfðu gefið honum hæfileika af rausn þeirra sem elska. Ókosturinn er að guðirnir taka þá allt of fljótt til sín aftur. Þeir sem guðirnir elska, deyja ungir. Í lok ljóðsins „Einstakur“ eftir Terry Fernandez eru orð sem passa svo vel við Bigga vin minn:

„Einstakur“ á við þá

sem eru dáðir og dýrmætir

og hverra skarð verður aldrei fyllt.

„Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.

Elsku Erla, Birgitta, Bryndís og Guðlaugur. Hugur okkar Biggu og Öggu og alls fermingarárgangsins 1941 er hjá ykkur og fjölskyldum ykkar þessa dagana. Við vitum, að Biggi er á besta stað og við elskum hann öll, ekki síður en guðirnir.

Jón Sæmundur.

Kveðja frá félögum í Blakklúbbnum Hyrnunni

Hann var einn af frumkvöðlunum í öldungablaki á Íslandi. Allt frá árinu 1971 tók hann þátt ásamt félögum sínum á Siglufirði, í þessari íþrótt sem vaxið hefur stöðugt undanfarna áratugi.

Rólegur, sama hvað gekk á og það var oft ekkert lítið, enda Hyrnumenn þekktir fyrir flest annað en lognmollu. En Birgir var sá sem náði mönnum niður á jörðina af rósemi og yfirvegun en þó með brosglampa í augum.

Það er stórt skarð hoggið í hópinn, skarð sem aldrei verður fyllt. Við félagarnir í Hyrnunni munum af alefli halda á lofti minningu góðs félaga, minningu sem er og verður jákvæð og hlý.

Við sendum Erlu, eiginkonu Birgis og fjölskyldu innilegar kveðjur, hugur okkar er með þeim.

Fyrir hönd Hyrnumanna,

Sigurður Jóhannesson.

Bognar aldrei – brotnar í

bylnum stóra seinast.

Þessar línur úr kvæði Stephans G. Stephanssonar, Greniskógurinn, koma mér í hug þegar ég minnist æskuvinar míns, Birgis Guðlaugssonar. Við vorum sessunautar síðustu 2 veturna í Barnaskóla Siglufjarðar og þá lærðum við þetta magnaða kvæði og ég er ekki frá því að við hefðum viljað gera lokaorð þess að einkunnarorðum okkar í lífinu.

Þegar leið að próflestri á þessum árum lásum við stundum saman undir próf eða kennslustundir. Oftast fór ég til hans og sátum við þá á efri hæðinni á heimili hans og komum okkur notalega fyrir undir brattri súðinni. Við slógum ekki slöku við lesturinn en gáfum okkur einnig tíma til að taka eina og eina skák eða tala um eitthvað skemmtilegt. Ekki spillti það ánægjunni þegar Þóra, móðir Birgis, birtist með einhverja góða hressingu handa okkur og spjallaði hún þá gjarnan við okkur um leið. Mér fannst ég alltaf fullorðnast ofurlítið eftir slíkar samræður.

Síðar á ævinni var ég svo heppinn að eiga við hann gott og gefandi samstarf við ýmis verk, svo sem innréttingu á Safnaðarheimili Siglufjarðarkirkju, byggingu sýsluskrifstofu á Siglufirði og nú síðast endurbætur og viðbyggingu við Heilbrigðisstofnunina á Siglufirði. Ætíð var faglegur metnaður og vandvirkni í fyrirrúmi hjá honum og lærði ég mikið af samvinnunni við hann. Eftir að fermingarárgangurinn okkar tók upp á því að hittast reglulega til þess að rækta æskuvináttuna var Birgir þar fremstur í flokki. Það var alltaf gott að vera í návist hans og alla tíð dáðist ég að því hve vel hann var af guði gerður og vandfundið var betra dæmi um hraustan og heilbrigðan mann. Því var erfitt að trúa því að hann hefði ekki betur í baráttunni við hinn erfiða sjúkdóm sem hann barðist við af miklu æðruleysi. Hann bognaði ekki í þeirri glímu en varð um síðir að lúta í lægra fyrir þeim stóra byl sem fellir okkur öll að lokum. Eftir sitjum við með trega í hjarta en erum jafnframt full af þakklæti fyrir að hafa átt þennan góða dreng að vini.

Hugurinn er hjá Erlu og fjölskyldunni allri. Missir þeirra er mikill og við Maggý biðjum þeim blessunar í sorg þeirra.

Helgi Hafliðason

Hinsta kveðja

Kæri afi.

Þín er saknað ólýsanlega mikið og ég get ekki hugsað mér sársaukann sem þú þurftir að fara í gegnum. En ég er stoltur af þér fyrir hörkuna og er þakklátur fyrir að þú þyrftir ekki að kveljast þegar þú fórst inn í hinn eilífa draum. Þú varst svo hraustur og gast lagað allt. Ég sakna þín mikið. Hvíldu í friði, elsku afi.

Kveðja,

Bergþór Dagur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.