Skert þjónusta? Tillögur hafa komið fram um að leggja niður miðstöð heilsuverndar barna.
Skert þjónusta? Tillögur hafa komið fram um að leggja niður miðstöð heilsuverndar barna. — Morgunblaðið/Golli
ÚTLIT er fyrir að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verði rekin með 140 milljóna króna halla á árinu. Bætist það við 81 milljónar króna halla á síðasta ári og eldri uppsafnaðan halla stofnananna sem mynduðu stofnunina.
ÚTLIT er fyrir að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verði rekin með 140 milljóna króna halla á árinu. Bætist það við 81 milljónar króna halla á síðasta ári og eldri uppsafnaðan halla stofnananna sem mynduðu stofnunina. Fulltrúar stjórnarflokkanna felldu tillögu stjórnarandstöðunnar um 400 milljóna kr. aukaframlag á fjáraukalögum til að mæta þessum halla. Heilsugæslan á í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um fjárhagsvandann en undirbýr um leið tillögur að sparnaði með niðurskurði þjónustu.

Stofnanirnar sem mynduðu heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu höfðu safnað upp 300 milljóna króna yfirdráttarskuld hjá ríkissjóði á árinu 2003 og fyrr. Að sögn Guðmundar Einarssonar forstjóra skiluðu stofnanirnar afgangi á árunum 2004 og 2005 þannig að eldri skuldin minnkaði um 100 milljónir. Hins vegar sló aftur í bakseglin þegar leið á síðasta ár þannig að 81 milljónar kr. halli varð á rekstrinum. Guðmundur segir að kostnaður við flutning miðlægrar þjónustu úr Heilsuverndarstöðinni í húsnæði í Mjódd hafi orðið meiri en reiknað var með. Þá hafi starfsemin sjálf orðið dýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir, meðal annars vegna þess að dreifa hafi þurft á heilsugæslustöðvarnar hluta mæðraverndar sem áður var miðlæg. Þá segir Guðmundur að í upphafi þessa árs hafi verið ljóst að fjárveitingar dygðu ekki fyrir rekstrinum og þar gæti munað 140 milljónum kr. Er nú svo komið að Heilsugæslustöðin skuldar birgjum um 300 milljónir kr. Viðræður hafa verið við stjórnvöld um þennan vanda með hléum allt árið en niðurstaða liggur ekki fyrir, að sögn Guðmundar.

„Okkur fannst við ekki geta beðið lengur með að undirbúa niðurskurð, ef í ljós kæmi að ekki yrði um aðrar leiðir að ræða,“ segir Guðmundur þegar hann er spurður um tillögur að niðurskurði sem sagt var frá í fréttum útvarpsins um helgina. Þar kom fram að yfirlæknar á heilsugæslustöðvunum hefðu lagt til að skorið yrði niður í heimahjúkrun og að skólaheilsugæsla yrði lögð niður ásamt miðstöð heilsuverndar barna, mæðravernd og miðstöð sóttvarna. Með því yrði hægt að minnka útgjöld um 550 milljónir kr. Guðmundur tekur fram að þetta séu ekki tillögur framkvæmdastjórnar heilsugæslunnar heldur ein af mörgum hugmyndum sem væru til umræðu innan stofnunarinnar.

Tillögur um fjárveitingar

Jón Bjarnason, fulltrúi VG í fjárlaganefnd, segir það vonbrigði að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi skuli hafa fellt tillögur stjórnarandstöðunnar um að bæta upp ólíðandi hallarekstur undanfarinna ára og boðar tillögur um auknar fjárveitingar við fjárlagagerð. Jón setur fjárhagsvanda Heilsugæslunnar í Reykjavík í samhengi við hugmyndir heilbrigðisráðherra um endurskoðun á heilbrigðiskerfinu þar sem gert sé ráð fyrir einkavæðingu.

Í hnotskurn
» Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu var stofnuð í byrjun árs 2006 með sameiningu heilsugæsluþjónustu á öllu svæðinu.
» Útlit er fyrir samtals 220 milljóna króna halla á rekstrinum á árunum 2006 og 2007. Einnig er ójafnaður halli frá fyrri árum, samtals um 200 milljónir kr.