Oft engin laun Sameinuðu þjóðirnar telja að einn aðallykillinn að öryggi í Kongó sé agaður og góður her. Kongósku stjórnarhermennirnir eru hinsvegar illa launaðir og illa þjálfaðir. Þeir betla af almenningi smápening, sígarettur og annað, og stundum ráðast þeir á fólk með ofbeldi. Langflest mannréttindabrot sem Kongóbúar þurfa að þola í dag eru framin af eigin hermönnum. Greinahöfundur og kongóskir hermenn.
Oft engin laun Sameinuðu þjóðirnar telja að einn aðallykillinn að öryggi í Kongó sé agaður og góður her. Kongósku stjórnarhermennirnir eru hinsvegar illa launaðir og illa þjálfaðir. Þeir betla af almenningi smápening, sígarettur og annað, og stundum ráðast þeir á fólk með ofbeldi. Langflest mannréttindabrot sem Kongóbúar þurfa að þola í dag eru framin af eigin hermönnum. Greinahöfundur og kongóskir hermenn. — Ljósmynd/Páll Ásgeir Davíðsson
Af hverju er jafn erfitt og raun ber vitni að hafa stjórn á Austur-Kongó? Hér er blóðug sagan rifjuð upp, staðreyndir skoðaðar og farið inn í frumskóginn.

Eftir Bergljótu Arnalds

b.arnalds@gmail.com

Því lengur sem ég bjó í Austur-Kongó þess betur fræddist ég um sögu þjóðarinnar, enda er nauðsynlegt að skoða aðeins bakgrunninn til að skilja stöðu fólksins í landinu. Sagan er margþætt og flókin, þótt grunntónninn hafi ávallt verið sá sami; ofbeldi, kúgun og græðgi.

Í grein sem þessari er eingöngu hægt að stikla á stóru til að fá léttskissaða mynd af stöðunni, en þótt aldrei verði hægt að gera svo flókinni sögu skil í litlum greinarstúf sem þessum, þá er nauðsynlegt að veita örlitla innsýn í þá arfleifð sem fólkið í landinu þarf að takast á við.

Upphaf sjálfstæðis

Eftir að Kongó fékk sjálfstæði frá Belgum árið 1960 tók við kongósk ríkisstjórn með Lumumba sem forsætisráðherra. Hann hafði leitt Kongó til sjálfstæðis og voru bundnar miklar vonir við að innlenda stjórnin myndi færa Kongó þá hagsæld sem nýfrelsuð þjóð þráði. En það var ólga í landinu. Ýmsum erlendum aðilum þótti Lumumba of vinhollur Sovétríkjunum og óttuðust þeir að kommúnisminn myndi ná sterkari ítökum í Afríku. Var Lumumba fljótt ráðinn af dögum eða aðeins ári eftir að Kongó hlaut sjálfstæði. Belgísk rannsóknarnefnd sem lauk störfum árið 2001 komst að því að morðið var framið með aðstoð belgískra yfirvalda og bæru þau siðferðislega ábyrgð á dauða hans.

Mikil átök voru í námuhéraðinu Katanga í austurhluta landsins og eftir blóðugt borgarastríð tók yfirmaður kongóska stjórnarhersins völdin árið 1965. Þetta var Mobutu Sese Seko. Hann gerði sig að einræðisherra og kom síðan á fót pólitísku flokkakerfi þar sem eingöngu flokkurinn hans hafði heimild til að starfa. Hann hóf strax aðför að andstæðingum sínum. Stóri fótboltaleikvangurinn, sem ég keyrði reglulega framhjá á ferðum mínum í höfuðborginni, er nefndur Le Stade des Martyrs eða ‘Völlur píslavottanna' til minningar um andstæðinga Mobutu sem teknir voru af lífi fyrir framan fjölda áhorfenda í upphafi á valdatíð hans.

Mobutu var mikill þjóðernissinni og þótt hann hyglaði mest sér og sínum þá leitaðist hann við að vekja samkennd og stolt á meðal landsmanna. Hann endurnefndi landið og kallaði það Zaire, en Mobutu vildi afmá allt sem tengdist nýlendustefnu Belga.

Bandaríkjamenn studdu Mobutu allt frá upphafi og til loka kalda stríðsins. Þeir jusu í hann peningum sem þeir sögðu að væru ætlaðir í hjálparstarf og til að viðhalda öryggi í landinu. Mobutu fór með féð eins og honum sýndist samtímis því sem hann mjólkaði landið í gríð og erg, og hagnaðist persónulega á auðæfum þess. Samkvæmt samtökunum Transparency International hafði hann þegar yfir lauk sankað að sér um 5 milljörðum dollara og telst hann þar með einn af þremur leiðtogum heims sem á undanförnum árum hafa sankað að sér hvað mestu fé á valdatíð sinni.

Byggði hallir fyrir forsetaembættið

Mobutu var einráður í Kongó í 32 ár. Hann gerði nánast ekkert til að stuðla að uppbyggingu og vexti í landinu á allri sinni stjórnartíð, til dæmis voru eingöngu örfáar opinberar byggingar byggðar undir stjórn hans og var meirihluti þeirra hallir fyrir forsetaembættið sjálft. Í lok kalda stríðsins hættu Bandaríkjamenn að styðja hann þar sem þeim stóð ekki lengur ógn af kommúnismanum, auk þess sem síversnandi ástand í landinu og tregða Mobutu við að heimila lýðræðisumbætur gerði Bandaríkjunum erfitt fyrir að réttlæta áframhaldandi peningaaustri í hann. Við það veiktist staða Mobutu mjög. Árið 1996 braust út uppreisn gegn honum í austurhluta landsins sem var leidd af Laurent-Désire Kabila sem fylkti liði með hjálp hermanna frá Rúanda og Úganda.

Kongóbúar voru þreyttir á Mobutu og spillingunni. Þeir vildu sjá breytingar og voru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum. Mér er minnisstætt þegar ég hitti Serge, dugmikinn mann sem rak endurhæfingarstöð fyrir barnahermenn í borginni Búkavú, sem er í austurhluta Kongó, og hann lýsti því fyrir mér þegar Kabila kom í bæinn árið 1996 eftir að hafa sigrast þar á hermönnum Mobutu og hvernig íbúarnir brugðust jákvætt við kröfu hans um að fá börn þeirra í baráttuna svo hrekja mætti Mobutu frá völdum. Það var einmitt í þessu stríði sem vopnaðir hópar í Kongó hófu notkun á börnum í tengslum við hernað.

Kabila vann sigur á mjög skömmum tíma. Her Mobutu gat litla mótspyrnu veitt enda hafði hann meiri æfingu í að hrella óvopnaða samborgara sína en að verja landið gegn árás utanaðkomandi hers. Í maí 1997, eða eingöngu átta mánuðum eftir að uppreisnin hófst, tóku menn Kabila og sveitir Rúanda og Úganda völd í höfuðborginni Kinshasa. Mobutu flúði með fullar hendur fjár til Marokkó þar sem hann lést stuttu síðar.

Zaire lagt niður

Kabila reyndist því miður jafn spilltur og Mobutu. Hann skipaði sjálfan sig strax sem forseta landsins, lagði niður nafnið Zaire og tók upp núverandi nafn þess la République démocratique du Congo.

Eftir sigurinn naut viðvera erlendra hermanna í landinu ekki mikilla vinsælda á meðal Kongóbúa. Kabila vildi vinna hylli landsmanna og sanna sjálfstæði sitt gagnvart bandamönnum sínum, Rúanda og Úganda. Skipaði hann því öllum embættismönnum og hermönnum þeirra að yfirgefa landið. Hvorki Rúanda né Úganda vildu draga hermenn sína til baka frá Kongó og voru fyrir því ýmsar ástæður, sem sýna glögglega hvernig óöryggi í landinu hefur bein áhrif á þróun mála í allri Mið-Afríku. Í kjölfarið á þjóðarmorðunum í Rúanda árið 1994 flúðu hútúar og þ.ám. fjölmargir fjöldamorðingjar inn í nærliggjandi skóga Kongó. Þar sem ríkisstjórn Kongó hafði hvorki bolmagn til að taka þá höndum né hrekja þá á brott þá gátu þeir komið sér upp þjálfunarbúðum og skipulagt árásir á tútsa í Kongó og Rúanda. Rúanda vildi því hafa sveitir í Kongó til að leita fjöldamorðingjana uppi og berjast gegn þeim. Stjórnvöld Úganda, sem líta á Rúanda sem keppinaut sinn, fannst ótækt að hermenn frá Rúanda gætu athafnað sig óhindrað í Kongó og vildu því hafa hersveitir til mótvægis.

Blóðdemantar

En það voru ekki bara sjónarmið um öryggi sem stýrðu áframhaldandi hersetu ríkjanna. Vegna stjórnleysisins í Kongó höfðu sveitir Úganda og Rúanda óheftan aðgang að gríðarlegum náttúruauðæfum sem þau gátu nýtt að vild, oft með því að nota vinnuafl Kongóbúa sem fengu lítið sem ekkert í sinn hlut. Á þeim tíma sem ríkin höfðu aðgang að austurhluta Kongó seldi Rúanda mikið magn af demöntum á alþjóðamarkaði þrátt fyrir að landið búi ekki yfir neinum demantanámum og Úganda var sömuleiðis einn stærsti útflytjandi á gulli í Mið-Afríku þrátt fyrir að hafa ekki eina einustu gullnámu.

Til að tryggja aðgang sinn að Kongó hófu Rúanda og Úganda annað stríð, sem síðar hefur verið kallað ‘Afríkustríðið mikla' (The Great War of Africa) eða ‘Heimsstyrjöld Afríku' (Africa's World War) því sífellt fleiri lönd drógust inn í þessa ógurlegu skálmöld sem dró nærri 4 milljónir manna til dauða.

Erfitt er að stöðva stríð sem þegar er hafið og hvað þá stríð sem margir hafa hag af. Þær gífurlegu náttúruauðlindir og það mikla landsvæði sem Kongó býr yfir freistar margra, og vopnasala var, og er enn, gífurleg. Byssueign þykir nánast sjálfsögð þótt fólk sé að drepast úr hungri.

Það er ekki fyrr en árið 2003 sem það tekst að semja um frið í Kongó og í október í fyrra aðstoðuðu Sameinuðu þjóðirnar við að skipuleggja fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í landinu í 40 ár. Joseph Kabila, sonur fyrrum uppreisnarmannsins sem hafði verið myrtur af lífverði sínum árið 2001, var nú kjörinn forseti landsins.

Frumskóginum stjórnað af stríðsherrum

Og þarna er ég í Kongó á ‘friðartímum'. Vörðurinn við húsið mitt í höfuðborginni er vopnaður, hermenn og lögregla út um allt að betla og múta, og þegar ég fer inn í frumskóginn í Kongó þá þarf ég 8 vopnaða menn með mér. Ekki út af górillunum eða hættulegum dýrum, heldur út af uppreisnarmönnum sem hafast við í skóginum. Já, því þótt kosningar séu nýafstaðnar og lýðræðisleg stjórn tekin við, þá hafa yfirvöld ekki stjórn á öllu landinu, sérstaklega austurhluta þess. Stórum hluta af frumskóginum er enn stjórnað af stríðsherrum sem ráða yfir mismiklum herafla og hafa ólík markmið. Stríðsherrarnir ráða yfir hluta af þjóðgarði Kongó og hafa átökin bitnað mikið á dýralífinu, þá sérstaklega sjaldgæfum dýrum sem reglulega er slátrað, eins og til dæmis górillum og fílum.

Robert, yfirmaður vopnuðu varðanna sem fylgdu mér inn í frumskóginn, sýndi mér herbergi fullt af höfuðkúpum fíla og gaf mér þá óhugnanlegu skýringu að að baki drápunum lægju úthugsuð hernaðarleg sjónarmið, ekki græðgi eða heimska mannsins eins og maður hefði fyrst haldið. Sjaldgæf dýr eru auðlind þar sem þau draga að ferðamenn og athygli erlendra aðila. Með því að drepa þau eru óvinir Kongó að hefta uppbyggingu og framtíð landsins. Á sumum svæðum er alveg búið að útrýma fílnum og eftir að ég flutti heim til Íslands hef ég fengið reglulegar fréttir af górilludrápum í austurhluta Kongó. Ríkið sjálft hefur engin tök á að verja friðaða náttúruna.

Risi á brauðfótum

Öflugasti stríðsherrann í austurhluta Kongó er án efa Nkunda og hefur hann fjölda hermanna á sínum snærum. Árið 2003 hertók hann til dæmis borgina Búkavú. Þar rændi hópur hans og ruplaði, og stundaði fjöldanauðganir. Nkunda er ásakaður af Alþjóðaglæpadómstólnum fyrir að nota börn sem hermenn, en talið er að 2% hermanna hans séu barnahermenn. Síðastliðið ár hafa hundruð þúsunda þurft að yfirgefa heimili sín af völdum manna hans og er ríkisstjórnin og Sameinuðu þjóðirnar að reyna að semja frið við Nkunda þessa dagana.

En af hverju gengur svona erfiðlega að hafa stjórn á öllu landinu?

Einhverju sinni þegar ég var að skipta um flugvél til að komast á milli staða þá benti einn friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna mér á að Kongó næði yfir álíka svæði og allt frá toppnum á Finnlandi að tánni á Ítalíu, og síðan vestur frá Lissabon í Portúgal austur til Moskvu í Rússlandi; að Kongó væri jafnstórt allri Vestur-Evrópu. Það er erfitt að hafa stjórn á svo stóru landi, þar sem vegalengdir eru gífurlegar, vegir margir hverjir í sundur, og samgöngur sum staðar engar. Landið er víða hæðótt og skógivaxið, og sjálft stjórnkerfið er rétt að hefja sig upp á brauðlappirnar. Það sem ógnar svo hvað mest friðnum eru auðæfin sjálf, sem aðrar þjóðir og utanaðkomandi aðilar girnast. Kongó liggur að níu öðrum ríkjum í Afríku sem mörg hver hafa hagnast af ástandinu í landinu. Á meðan ófriður ríkir í Kongó og yfirvöld þar eru veikburða hafa utanaðkomandi aðilar óheftan aðgang að auðlindum þess. Það var því og verður erfitt að halda friðinn.

Hverjir eru líklegastir til að ráðast á þig

Til að bæta gráu ofan á svart þá er kongóski herinn illa þjálfaður og á lágum launum. Hér áður fyrr fengu hermenn 10 dollara á mánuði í laun, í dag fá þeir 25 dollara á mánuði. Það er að segja ef yfirmaður þeirra lætur launin af hendi, því oft hirðir hann til sín launin sem ætluð eru undirmönnunum. Og hvað gerir maður sem klæddur er herbúningi og vopnaður byssu þegar hann horfir á börnin sín hungruð og fær engin laun? Ég upplifði það oft að vopnaðir hermenn komu að mér biðjandi um smápening, sígarettur eða einhvern greiða. Því miður eru hermenn oft aðgangsharðari en svo og nota það vald sem byssan gefur. Þeir ráðast með ofbeldi á þá sem minna mega sín og hafa af þeim eigur þeirra og annað sem þeir sækjast eftir. Þetta er stór þáttur í því að langflest mannréttindabrot sem Kongóbúar þurfa að þola í dag eru framin af eigin hermönnum.

Í dag er verið að reyna að koma á öruggara launakerfi og byggja upp herinn, en það er erfitt þegar þjóðfélagshjólið hefur verið drifið áfram af spillingu í margar kynslóðir og stjórnsýslukerfið hefur verið lamað í langan tíma. Og það er ekki síður erfitt að þjóðin er samansett úr mörgum ættbálkum og hópum sem sumir hverjir hafa barist innbyrðis eða kúgað hver annan. Erfitt er að fá stjórnarherinn til að starfa sem eina heild, þar sem allir hafa sömu stefnu og markmið. Ástandið er slíkt að það er ekki öruggt að vera á vappi í höfuðborginni að nóttu til. Það er ekki hægt að treysta á lögreglu og hermenn, þannig að þeir sem eiga að verja Kongóbúa eru sjálfir líklegastir til að ræna þá.

Leikföngin eru byssur

Einn myndlistarmaðurinn sem teiknaði í barnabókina Gralli Gormur og dýrin í Afríku , sem ég skrifaði þegar ég bjó í Kongó og kom út fyrir síðustu jól, er rétt rúmlega tvítugur og kemur frá austurhluta landsins. Þegar við vorum að vinna saman sagði hann mér frá því, að hann hefði aldrei átt leikföng sem barn, en frá 7 ára aldri hefði hann átt byssu. Margir vinir hans urðu barnahermenn og sjálfur var hann rændur úti á götu af uppreisnarmönnum. Sem krakki sá hann líkin á götunum og ein sterkasta myndin sem lifir í huga hans er af ungbarni að sjúga brjóst móður sinnar, sem lá látin í blóði sínu.

Paradís í eilífðinni

Upplifun mín á frumskóginum varð á margan hátt táknræn fyrir svo margt í Kongó. Ég fór að heimsækja villta górillufjölskyldu, sem vonandi er enn á lífi. Þetta var löng ganga inn í skóginn og alveg einstök upplifun á svo margan hátt. Til dæmis hjálpaði frumskógurinn mér að skynja tímann algerlega upp á nýtt. Þarna var náttúran í öllu sínu veldi, sterkari en ég hef nokkru sinni upplifað hana. Hún var allt í senn: Tröllvaxin og gróf, fínleg, falleg og fjölbreytt, lifandi og glöð, grimm og drepandi. Náttúra í sífelldri endurnýjun með sinni djúpu lykt sem fyllti vitin á þann hátt að lengi á eftir virtist öll önnur lykt vera hjóm eitt. Lykt sem er í senn sambland af magnþrunginni frjósemi og rotnun. Fallin laufblöð liggja innanum nýgræðinginn. Hér er ekkert haust, enginn vetur, ekkert vor bara eilíft sumar þar sem líf og dauði tvinnast saman í augnablikinu. Augnablik sem um leið virðist eilíft.

Þar sem ég andaði að mér þrunginni lykt frjóseminnar fann ég hvernig hitinn faðmaði mig þétt. Hitinn var djúpur, eins og hann hefði aldrei farið og myndi alltaf vera. Það kom mér enn á óvart hvað hann var þægilegur og mjúkur þar sem hann dvaldi í eilífðinni innan um trén og gróðurinn. Og hjartað fylltist af heitri ósk um að þessi paradísarveröld, sem hafði óvænt opnast fyrir mér, fengi að blómstra sem paradísarveröld, í friði.

Höfundur er rithöfundur.