FULLTRÚARÁÐ Framsóknarflokksins í Reykjavík keypti föt fyrir 1.290 þúsund fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Frá þessu var greint í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi.

FULLTRÚARÁÐ Framsóknarflokksins í Reykjavík keypti föt fyrir 1.290 þúsund fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Frá þessu var greint í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi. Flestir reikninganna eru merktir upphafsstöfum Björns Inga Hrafnssonar, oddvita flokksins.

Reikningar eru frá fataverslununum Herragarðinum og Hugo Boss, en þeir voru gefnir út á tímabilinu 28. mars til 23. maí 2006. Allir eru reikningarnir gefnir út á fulltrúaráð framsóknarfélaganna í Reykjavík, en flestir eru merktir upphafsstöfum Björns Inga Hrafnssonar (BIH). Óskar Bergsson er einnig á meðal þeirra sem kvittað hafa fyrir reikningana ásamt Rúnari Hreinssyni, kosningastjóra flokksins.

Samtals hljóða reikningarnir upp á 1.290 þúsund krónur. Flokkurinn fékk hins vegar 25% afslátt og greiddi því 967.730 þúsund fyrir fatnaðinn. Reikningarnir sem birtir voru í sjónvarpinu sýna að flokkurinn keypti fimm jakkaföt, 26 skyrtur, 21 bindi, tíu peysur, fjögur skópör, fjögur belti, fernar gallabuxur, níu stuttermaboli, nítján sokkapör, tvo ermahnappa, frakka, leðurjakka, útijakka, langermabol, buxur og stakan jakka.

„Það hefur verið hugsað um samræmingu í klæðaburði og hvað hverjum fari best,“ segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. „Þetta er bara hluti af pólitík sem er að verða um allan heim og þetta hefur borist hér heim og hefur sjálfsagt viðgengist hjá þeim sem stjórna kosningabaráttu að ná fötum á afslætti í gegnum síðustu ár. Ég þekki það ekki nákvæmlega en ég afneita því auðvitað ekki heldur.“ Guðni segir að sjóðir Framsóknarflokksins hafi ekki verið notaðir til slíkra kaupa og hafi forystumenn flokksins ekki tekið þátt í þeim. Nær lagi sé að kosningastjórnir á hverjum stað fjalli um þessi mál.

„Ég vil taka það skýrt fram að þau átök sem hafa orðið á milli þeirra fornu vina, Guðjóns Ólafs og Björns Inga, snúast auðvitað ekkert um pólitík,“ segir Guðni. „Umræðan fór út fyrir þau mörk og inn á persónulega hluti, þar gengu miklar ásakanir og slíka umræðu vil ég ekki hafa í mínum flokki. Við þurfum auðvitað að leysa okkar mál eins og aðrir ef það kemur upp óeining og barátta á milli félaga. Þá verðum við að gera það upp innan flokksins.“

Aðrir veita ekki fatastyrki

„Við leggjum ekki út fyrir persónulegum kostnaði frambjóðenda og mér vitanlega hefur það aldrei verið gert,“ segir Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.

Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að engar reglur gildi um fatastyrki til flokksmanna. Þessi mál hafi komið upp fyrr á árum í sambandi við myndatökur, sjónvarpsauglýsingar eða blaðaauglýsingar, og þá hafi verið litið til þess hvort um verulega íþyngjandi kostnað hafi verið að ræða fyrir viðkomandi. Hafi svo verið hafi flokkurinn tekið þátt í kostnaðinum að einhverju leyti en ekki hafi verið um mikinn kostnað að ræða.

Drífa Snædal, framkvæmdastýra VG, segist ekki vita til þess að VG hafi veitt fatastyrki enda væri erfitt að réttlæta það fyrir félögum að félagsgjöld væru notuð til fatakaupa.

Magnús Reynir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segir að engir fatastyrkir séu veittir til fulltrúa flokksins.

Ekkert óeðlilegt

BJÖRN Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að ekkert óeðlilegt hafi verið við kaup á fatnaði sem komu til í tengslum við borgarstjórnarkosningar 2006.

„Í fyrsta lagi var því haldið fram að við hefðum keypt föt á kostnað flokksins og síðan hefur auðvitað komið í ljós að þetta er allt saman alrangt. Efstu frambjóðendur fengu styrktaraðila til þess að hjálpa sér með fatakaup fyrir kosningabaráttuna eins og upplýst hefur verið að tíðkist hjá öðrum flokkum, einhverjum öðrum flokkum, og í einhverjum öðrum kosningum, allt í samræmi við reglur flokksins og samþykkt í kosningastjórn. Ég vil ekkert meira um það segja. Það er ekkert óeðlilegt við þetta.“

– Hvað viltu segja um þau orð að þetta séu óeðlilega háar upphæðir?

„Það sem einum finnst há upphæð finnst öðrum eitthvað minna. Það er ekki bara einn frambjóðandi sem fékk þetta og safnast þegar saman kemur. Svona er þetta allavegana.“

– Telur þú að orrahríðin sem verið hefur kringum Framsóknarflokkinn og beinst hefur gegn þér hafi verið meðal þess sem reið baggamuninn svo að Ólafur ákvað að stíga þetta skref?

„Ég veit það ekki. Þú getur spurt Guðjón Ólaf Jónsson um það.“