29. desember 1993 | Minningargreinar | 769 orð

Guðlaugur Pálsson

Guðlaugur Pálsson

kaupmaður á Eyrarbakka ­ Minning

Fæddur 20. febrúar 1896

Dáinn 16. desember 1993

Þá er lokið löngum lífsferli og drengur góður fallinn í valinn hátt í 98 ára að aldri. Guðlaugur fæddist á Blönduósi, enda var móðir hans norðlenzk, Jóhanna Ingólfsdóttir, en faðir hans var Páll Halldórsson skósmiður, austfirzkur í föðurætt, en að móðerni af Rauðnefsstaðakyni á Rangárvöllum. Af Páli föður Guðlaugs er það að segja, að hann fór til Englands og stundaði þar sína iðn í áratugi. Hann gekk að eiga þarlenda konu, en fluttist svo að henni látinni heim til Íslands.

Þegar Guðlaugur var um það bil tveggja ára sendi móðirin hann austur á Eyrarbakka til uppeldis hjá ömmunni, Ingveldi Þorgilsdóttur, og dóttur hennar, Þorgerði Halldórsdóttur. Má þar einnig til nefna Pálínu dóttur Þorgerðar, en hún var fimm árum eldri en Guðlaugur.

Æskuárin átti Guðlaugur á Bakkanum og var þar í barnaskóla, en í nokkur sumur var hann í sveit í Þrándarholti í Gnúpverjahreppi og líkaði vistin vel. Átti hann sér góðar minningar frá gamalgrónu heimili systkina, er þar bjuggu. Einnig minntist hann stundum sumardvalar hjá Sigríði, föðursystur sinni, og Vigfúsi í Engey.

Á þessum árum voru skipakomur nokkuð tíðar til Eyrarbakka og þá ekki síður til Reykjavíkur. Við þau kynni vaknaði hugur Guðlaugs til sjómennsku og siglinga á millilandaskipum, en frændfólk og vinir munu hafa aftrað honum frá og talið hann af svo hættulegri atvinnugrein. Síðar á ævinni fékk hann að nokkru fullnægt ferðalöngun sinni í utanlandsferðum með einhverjum af börnum sínum og tengdabörnum.

Ungur að aldri lærði Guðlaugur skósmíði, en ekki varð það hans framtíðaratvinna, heldur hóf hann verzlunarstörf hjá Sigurði Guðmundssyni kaupmanni á Eyrarbakka. Samfara því tók Guðlaugur að sér póstferðir milli Selfoss og Bakkans. Voru þær ferðir ekki auðsóttar að vetrarlagi.

Nú kom að því, að Guðlaugur setti á stofn verzlun á eigin vegum. Var það 4. desember 1917, og þá verzlun rak hann til æviloka eða í 76 ár. Það eru varla mörg dæmi þess í heiminum, að sami maður standi "bak við diskinn" í svo langan tíma, enda hefur hann verið sæmdur Fálkaorðu, og kaupmannasamtök sunnanlands hafa kosið hann heiðurfélaga.

Talsvert var það breytilegt, hve umsvifin voru mikil í verzluninni, og fór það mjög eftir því, hvað keppinautarnir máttu sín. Þegar mest var um að vera, hafði Guðlaugur aðstoðarfólk í búðinni, en stundum var hann aðeins einn. Var til þess tekið, hve allt var snyrtilegt hjá honum og fallega raðað í hillur, hvaðeina á sínum stað.

Guðlaugur var vel vakandi fyrir þörfum og tilætlunum viðskiptavina sinna og taldi ekki eftir sér aukaspor í þeirra þágu. Þótti líka mörgum gott að koma í "Laugabúð", þó að ekki væri alltaf mikið verzlað, enda kaupmaður sjálfur léttur í máli, glaðsinna og greindur vel.

Ekki er ofsagt, að Guðlaugur hafi verið gæfumaður. Hann hlaut ágæta eiginkonu, Ingibjörgu Jónasdóttur, sem gegndi húsmóðurstörfum af mikilli prýði, og listfengilegar eru myndir hennar gerðar úr ýmsum fjörugróðri. Það var Guðlaugi mikið áfall, er hún andaðist 4. nóvember 1984. Þau hjón höfðu eignazt sex börn. Þau eru þessi: 1) Ingveldur bankastarfsmaður, var gift Geir Gunnarssyni ritstjóra. Þeirra börn fimm dætur. 2) Jónas, sem rekur eigið iðnfyrirtæki í Reykjavík. Kona hans er Oddný Sigríður Nicolaidóttir. Þau eiga fimm börn á lífi en misstu dreng. 3) Haukur söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, kvæntur Grímhildi Bragadóttur. Þau eiga tvo syni, og dóttur á Haukur frá fyrra hjónabandi. Er það Svanhildur sem alin er upp hjá Guðlaugi og Ingibjörgu. Eftir að Guðlaugur varð ekkjumaður annaðist Svanhildur vel um hann. 4) Páll vélsmiður, búsettur í Svíþjóð, kvæntur sænskri konu, Britlis að nafni. Páll á son hér á landi. 5) Steinunn, gift Magna R. Magnússyni kaupmanni hér í Reykjavík, eiga þrjú börn. 6) Guðleif, gift Leifi H. Magnússyni hljóðfærasmið. Þau eiga tvö börn, og að auki á Guðleif dóttur frá fyrra hjónabandi. Áður en Guðlaugur kvæntist eignaðist hann dóttur, Guðrúnu, sem gift er Magnúsi Vilhjálmssyni skipasmið. Þau eiga eina dóttur.

Eins og þessi upptalning ber með sér, hefur Guðlaugur lagt þjóðinni til drjúga viðbót í mannafla, en mest er um vert, að þetta er ágætisfólk og barnabörnin efnileg og ljúflingar.

Halldór Vigfússon.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.