[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í ár verða 40 ár liðin frá stúdentauppreisninni miklu í Frakklandi en með henni kom ný kynslóð fram á sjónarsviðið með kraftmeiri hætti en áður hafði þekkst.

Í ár verða 40 ár liðin frá stúdentauppreisninni miklu í Frakklandi en með henni kom ný kynslóð fram á sjónarsviðið með kraftmeiri hætti en áður hafði þekkst. Götur Parísar voru á valdi menntaæskunnar sem gagnrýndi ríkjandi samfélagshætti og krafðist þess að hafa meira um eigið líf og þjóðfélag að segja. Mótmælin vöktu heimsathygli og leiddu til þess að viðkomandi kynslóð hefur verið kennd við árið 1968 allar götur síðan. En hvaða baráttumál voru það sem fengu unga fólkið til að streyma út á göturnar og hvað varð til þess að það gerðist á þessum tíma? Til að fá svör við þeim spurningum er nauðsynlegt að grennslast fyrir um þá þætti sem mótuðu ungdóminn á þessum árum. Í þessari grein verður fjallað um aðdraganda æskulýðsbyltingarinnar sem braust upp á yfirborðið sumarið 1968.

Eftir Leif Reynisson

leifurr@hotmail.com

Á sjöunda áratugnum tóku stúdentar víða um heim að mótmæla ríkjandi samfélagsskipan. Greinileg viðhorfsbreyting var að eiga sér stað meðal unga fólksins. Á sjötta áratugnum virtust stúdentar í hinum vestræna heimi hafa hverfandi áhuga á pólitík. Samkvæmt franskri könnun frá 1957, sem náði til ungs fólks á aldrinum 15-29 ára, töldu 76% að þeirra eigin kynslóð yrði ekki mjög frábrugðin kynslóð foreldra sinna. Þegar sams konar könnun var gerð 1968 var annað upp á teningnum. Samkvæmt henni töldu 92% að þeirra eigin kynslóð yrði mjög frábrugðin kynslóð foreldranna. Sams konar viðhorf komu fram annars staðar – einkum á Vesturlöndum. Á þeim ellefu árum sem liðu á milli kannananna höfðu miklar breytingar átt sér stað.

Á sjöunda áratugnum kom æskan fram sem sjálfstæður samfélagshópur. Hröð þróun eftirstríðsáranna braust upp á yfirborðið á þessum tíma með meiri velmegun, fjölmennari árganga og almennari menntun en áður hafði þekkst. Auk þess sem árgangarnir urðu stærri lengdist æskan í báða enda. Kynþroskaaldurinn lækkaði, fleiri gengu menntaveginn og skólagangan lengdist. Unga fólkið hafði meiri peninga á milli handanna en áður sem og nægan frítíma til að koma þeim frá sér. Strax á sjötta áratugnum tók verslunarstéttin að biðla til ört vaxandi unglingamarkaðar sem varð til þess að unglingatíska tók að mótast. Almennari skólaganga og bættur fjárhagur jók sjálfstæði og samkennd æskunnar. Fyrir utan samveru í skólanum streymdi unga fólkið í bíóhúsin, fór á rúntinn og hlustaði á rokktónlist sem var fyrsti eiginlegi tjáningarmiðill þess. Heil kynslóð hópaðist saman en fjarlægðist um leið þá sem eldri voru.

Bandarísk menntaæska gerist gagnrýnin

Þrátt fyrir aukin lífsgæði fór unga fólkið að ókyrrast yfir ýmsu sem einkenndi samfélagið. Blökkumenn í Bandaríkjunum höfðu um árabil staðið í réttindabaráttu en sú mikla andstaða sem þeir mættu sýndi glögglega að Bandaríkin voru ekki það lýðræðisríki sem þau gáfu sig út fyrir að vera. Þá voru ýmsir farnir að gagnrýna kapítalismann fyrir að hafa leitt til taumlausrar efnishyggju og tilbúinna þarfa sem gerðu líf manna innantómt. Menntaæskan tók í auknum mæli að ásaka þá sem eldri voru um hugsjónaleysi, þröngsýni, tilfinningalega bælingu og taumlausa efnishyggju. Líf þeirra þótti sérlega óspennandi og firrt allri lífsnautn. Fullyrðingar um kúgun tóku nú æ oftar að skjóta upp kollinum en þar gat verið um að ræða allt það sem hugsanlega hefti frelsi einstaklingsins. Gerð var krafa til nýrrar tegundar einstaklingshyggju þar sem hver og einn fengi notið sín út frá eigin forsendum. Jafnframt var áhersla lögð á samfélagslegan þroska þar sem menn lifðu saman í sátt og samlyndi.

Upp úr 1960 fór bandarísk menntaæska að berjast fyrir lýðræðislegra samfélagi. Margir stúdentar tóku til dæmis þátt í réttindabaráttu blökkumanna sem staðið hafði yfir frá því á sjötta áratugnum. Upphaf baráttu æskunnar fyrir breyttu gildismati er gjarnan miðað við uppþotin við Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1964 þar sem stúdentar kröfðust tjáningarfrelsis og akademísks sjálfstæðis. Lög háskólans takmörkuðu rétt stúdenta til „stjórnmálabaráttu“ við ráðandi flokka, þ.e. demókrata og repúblikana. Þá gerði háskólinn kröfu til þess að stúdentar sværu skólanum hollustueið en sífellt fleiri voru þeirrar skoðunar að slíkt gengi í berhögg við akademískt frelsi. Menntaæskan var farin að finna til samstöðu með þeim sem nutu ekki eðlilegra lýðréttinda. Stúdentar kröfðust þess að fá að kynna málstað blökkumanna á háskólasvæðinu og tóku um leið að tileinka sér aðferðir þeirra í baráttu sinni gegn valdinu. Þeir settust niður á lykilstöðum (sú baráttuaðferð nefndist sit-in) á svæði Kaliforníuháskóla og neituðu að færa sig um set fyrr en háskólayfirvöld hefðu orðið að kröfum þeirra. Skólastjórnendur ákváðu í fyrstu að svara stúdentum af hörku en það hafði einungis meiri mótmæli í för með sér. Háskólanum var þá lokað um tíma en skömmu seinna fundu yfirvöld sig tilneydd til að gefa eftir.

Sigur stúdenta í Berkeley átti eftir að hafa mikil áhrif á æskuna víða um heim. Hún skynjaði aukin tækifæri til að gera sig gildandi í samfélaginu og reyna að breyta því til betri vegar. Unga fólkið gerðist meðvitaðra um samfélagsleg málefni og tók að láta til sín taka í auknum mæli. Eitt af þeim málum sem átti eftir að bera hvað hæst var Víetnamstríðið en andstaða gegn aðild Bandaríkjanna að því tók að byggjast upp á seinni hluta sjöunda áratugarins. Viðteknar hugmyndir um að stríðið einkenndist af viðleitni Bandaríkjanna til að hefta útbreiðslu kommúnismans voru dregnar í efa. Hrottalegar myndir af þessu fyrsta sjónvarpsstríði sögunnar fengu ungt fólk til að sjá samsvörun milli þess óréttláta þjóðfélags sem það taldi sig búa í og þess harðræðis sem það ásakaði Bandaríkin að beita í Víetnam. Í kringum 1965 fór andstaða við Víetnamstríðið að gera vart við sig í háskólum víða um Bandaríkin. Stúdentar í Berkeley leiddu baráttuna með því að brenna herkvaðningarspjöld sín opinberlega en sá gjörningur átti eftir að fara sem eldur í sinu víða um Bandaríkin. Mótmælin gegn Víetnamstríðinu vöktu mikla athygli og leiddu til þess að stúdentar víða um heim fóru að láta til sín taka – sérstaklega í Evrópu.

Hippamenning verður til

Það var í þessu andrúmslofti sem jaðarmenning hippanna tók að vekja athygli. Æskan var óvenju móttækileg fyrir nýjum og ögrandi áhrifum. Menntaæskan, sem samanstóð fyrst og fremst af mið- og hástétt, tók að samsama sig lægri stéttum samfélagsins. Unga fólkið fann til sterkari samstöðu með sinni kynslóð en áður hafði þekkst en sá samruni gerði hippamenninguna að fjöldahreyfingu. Hippamenningin mótaðist að mestu leyti í San Francisco á seinni hluta sjöunda áratugarins. Það átti sérstaklega við um Haight-Ashbury-hverfið þar sem ungdómurinn myndaði gjarnan „kommúnur“ í ódýrum húsakynnum. Ungt listafólk stóð fyrir uppákomum og gjörningum sem báru vott um þann frjálsa anda og sköpunargleði sem ríkti í hverfinu. Stemningin þótti bera vott um samtvinnun „anarkisma“ og vinstrimennsku enda markaðist hún af löngun til að njóta fullkomins frelsis sem og af sterkri samkennd við nærsamfélagið.

Hinir svokölluðu „Bítnikkar“ (Beatniks) höfðu mikil áhrif á jaðarmenningu hippanna en þeir voru bóhemskir rithöfundar sem tóku að vekja athygli á seinni hluta 6. áratugarins. Skrif þeirra og lífsstíll báru vott um andúð á ríkjandi gildum bandarísks samfélags enda lögðu þeir mikla áherslu á óhefta sköpunargleði. Í ársbyrjun 1967 tóku nokkrir þeirra þátt í uppákomu í Golden Gate garðinum í San Fransisco. Um var að ræða 20-30 þúsund manna samverustund sem kölluð var „Human Be-in“. Því hefur verið haldið fram að þarna hafi tveir meginstraumar róttækra bandarískra æskumanna náð saman. Annars vegar aðgerðasinnaðir stúdentar sem gagnrýndu valdhafana með áberandi hætti. Hins vegar friðsamir hippar sem lögðu megináherslu á að sniðganga borgaralegt samfélag og skapa sér þess í stað sinn eigin lífsstíl.

„Human Be-in“ samkoman í Golden Gate garðinum bar með sér mörg helstu einkenni þeirra andmenningar sem átti eftir að verða áberandi næstu árin á eftir. Hljómsveitir eins og Grateful Dead og Jefferson Airplane sáu um að skapa réttu stemninguna auk þess sem mikið magn vímuefna var á boðstólnum. Umfjöllunarefnin voru fjölmörg og var þar einkum um að ræða gagnrýni á „valdið“ sem sagt var hneppa einstaklinginn í fjötra og ræna hann möguleikanum á að lifa frjálsu lífi. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að efla eigin þroska með meðvituðum hætti svo sem með hugleiðslu eða „hugvíkkandi“ vímuefnum. Samkoman í Golden Gate garðinum vakti töluverða athygli og gerði það að verkum að fjölmiðlar fóru að taka eftir þeim hræringum sem áttu sér stað í Haight-Ashbury. Hippamennskan festi sig hins vegar endanlega í sessi sem ríkjandi æskumenning þegar fyrsta stóra rokkhátíð sögunnar var haldin í Monterey sumarið 1967. Með þeirri fjöldahátíð hóf hið svonefnda „ástarsumar“ innreið sína. Hugmyndin var að halda samkomu þar sem ást, eindrægni og lífsgleði fengi notið sín í takt við tilraunakennda tónlist. Montereyhátíðin var mikil nautnaveisla sem bar vott um það aukna frelsi sem ungt fólk gerði tilkall til á sjöunda áratugnum. Mannlífið einkenndist af litskrúðugum klæðaburði og frjálslegri framkomu, vímuefnaangan lá í loftinu og kynlífslönguninni var víða fullnægt. Jimi Hendrix rafmagnaði lýðinn með stórbrotnum gítarleik og villtri sviðsframkomu sem lauk með því að hann kveikti í gítarnum og braut hann í spón. Janis Joplin túlkaði blúsinn af þvílíkum þrótti að það var sem hún legði líkama og sál að veði. Ungdómurinn varð agndofa af hrifningu enda höfðu fæstir upplifað annað eins hömluleysi áður. Sítarleikur Ravi Shankar bar með sér nýjan hljóm og sama má segja um tilraunakennda tónlist hljómsveitanna Grateful Dead og Jefferson Airplane. Hér var ekki um að ræða danshæfa skemmtimúsík heldur flókið og spunakennt tónaflæði sem ætlað var að örva skilningarvitin. Rokkið fékk nýtt inntak sem boðberi þeirra gilda sem efst voru á baugi meðal unga fólksins. Þúsundir ungs fólks fylgdu herhvöt Scott McKenzie um að koma til hippanýlendunnar með blóm í hári en lag hans If you're going to San Francisco (Be sure to wear some flowers in your hair) sló í gegn um þessar mundir. San Francisco varð í hugum margra háborg nýrrar æskumenningar enda kepptist ungt fólk víða um heim við að tileinka sér þá strauma sem þaðan bárust.

Helstu einkenni hippanna

Hippamenningin sló í gegn um hinn vestræna heim sumarið 1967. Æskulýðnum hafði tekist að minna á sig með eftirminnilegum hætti enda sá tímaritið Time ástæðu til að útnefna ungdóminn „mann ársins“ árið 1967. Viðhorf og einkenni hippamennskunnar voru margvísleg og allur gangur á því hvað hver og einn tileinkaði sér eins og gengur. Meginmálið var að fjarlægjast hið borgaralega samfélag og þróa með sér nýjan lífsstíl sem tæki sem minnst mið af hefðbundnum vestrænum gildum. Þeir sem tóku hippadrauminn alvarlega reyndu því að segja sig sem mest úr lögum við hefðbundið samfélag sem þeir töldu spillt og rotið. Í stað þess að leitast við að breyta þjóðfélaginu stofnuðu þeir sín eigin samfélög þar sem áhersla var lögð á einstaklingsfrelsi og félagslega samkennd. Þar gat verið um að ræða svokallaðar kommúnur þar sem margir deildu saman íbúð eða húsi. Best þótti hippunum þó að helga sér tiltekið svæði þar sem þeir gátu byggt sér upp stærra samfélag og er Kristjanía í Kaupmannahöfn gott dæmi um það. Þeir sem tóku hippadrauminn alvarlega og vildu ekkert með samfélagið hafa voru algerlega á skjön við þá róttæklinga sem vildu breyta þjóðfélaginu með pólitískri orðræðu og aðgerðum. Hér voru komnir fram tveir meginstraumar sem áttu sér sameiginlegan óvin en baráttuaðferðirnar voru hins vegar gjörólíkar. Þeir sem kröfðust baráttu sökuðu hippana um að flýja veruleikann með algeru aðgerðarleysi. Hipparnir héldu því hins vegar fram að fyrst yrði að breyta einstaklingnum áður en hægt yrði að snúa sér að samfélaginu. Ef hver og einn breytti lífi sínu myndi samfélagið óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið. Tilvera hippanna markaðist að mörgu leyti af leit eftir raunverulegum gildum sem gæfu lífi þeirra dýpri merkingu. Austræn speki var í hávegum höfð og friðarhugsjónin var ofarlega í huga þeirra. Hipparnir lögðu mikið upp úr ástinni en þar var ekki einungis vísað til holdlegrar eða platónskrar ástar heldur lögð áhersla á að lífsviðhorf manna ættu að markast af væntumþykju og kærleika til lífsins yfirleitt. Þeir töldu einnig mikilvægt að vera sem mest sjálfum sér nógir og því gerðust margir grænmetisætur og sumir reyndu jafnvel að rækta sem mest sjálfir til eigin þarfa. Hipparnir lögðu jafnframt áherslu á að láta ekki stjórnast af tískusköpun peningavaldsins en kusu þess í stað að klæðast ódýrum fötum. Klæðaburður hippanna varð fljótlega býsna skrautlegur enda gengust margir upp í því að vera sem undarlegastir til fara. Klipping og skeggrakstur var smáborgaralegur í augum hippanna og því létu þeir hár sitt og skegg vaxa nokkurn veginn óhindrað.

Rokk og hugvíkkandi víma

Eitt af lykilatriðum hippamenningarinnar var frjáls sköpun en í því sambandi var mikið lagt upp úr að örva skilningarvitin í leit að dýpri merkingu. Þessi einkenni komu hvað best fram í rokkinu sem þróaðist mjög hratt þessi árin. Svokölluð hugvíkkandi vímuefni, LSD og hass, urðu snar þáttur hippamenningarinnar og voru af mörgum talin ómissandi, jafnt fyrir tónlistarsköpun sem tónlistarhlustun. Rokkið náði fyrst til menntaæskunnar á fyrri hluta sjöunda áratugarins en í því sambandi var framlag Bob Dylans hvað mikilvægast. Textar hans voru innihaldsríkari en áður hafði sést í dægurlagatónlist auk þess sem umfjöllunarefni hans voru af samfélags- og tilvistarlegum toga.Tónlistin gegndi miklu hlutverki meðal hippanna sem liður í að gera upp við ríkjandi heimsmynd við hasspípureyk. Var mest lagt upp úr fantasíukenndum textum auk margbrotinnar þjóðfélagsádeilu. Tónlistin varð sífellt flóknari og eru Bítlarnir eitt besta dæmið um þær djúpstæðu breytingar sem áttu sér stað á þessum tíma. Upp úr miðjum sjöunda áratugnum tóku þeir að semja merkari texta en áður auk þess sem tónlist þeirra varð flóknari. Þeir höfðu gífurleg áhrif á tónlistarþróunina sem náði hámarki með meistaraverkinu Sgt. Pepper´s Lonely Hearts Club Band sem kom út í júníbyrjun 1967. Sköpunarkrafturinn og hugmyndaauðgin kraumaði í hverju lagi plötunnar og hafði önnur eins fjölbreytni vart sést í dægurlagatónlist. Ástarsumarið 1967 var mikið fjallað um San Francisco hljóminn en hann var eitt helsta einkenni hippatímans. Fjölmargar hippahljómsveitir komu fram í San Francisco upp úr miðjum sjöunda áratugnum en þær sem hvað frægastar urðu voru Grateful Dead, Jefferson Airplane, Grate Society og Charlatans. Tónlist þessara sveita var margbreytilegt rokk en þjóðlaga- og blúsáhrif voru áberandi. Hljómsveitirnar lögðu áherslu á að skapa samkennd á tónleikum sínum sem einkenndust gjarnan af “hugvíkkandi“ vímu og kraftmikilli, rafmagnaðri spunatónlist þar sem einstök lög gátu tekið allt að hálftíma í flutningi. Textarnir voru jafnt tilfinningaríkir sem vitsmunalegir en með þeim var lögð áhersla á helstu þætti hippamenningarinnar. Á þessum tíma var gjarnan talað um að rokkið hefði þróast út í að verða „sækadelískt“ (psychedelic) en með því var átt við að það væri hugvíkkandi eða skynörvandi. Þar var um að ræða þau einkenni sem komu hvað sterkast fram í tónlist Bítlanna og San Francisco hljómsveitanna sumarið 1967. Sífellt fleiri hljómsveitir bættust í hópinn eftir því sem leið á seinni hluta 7. áratugarins. Til viðbótar við þær hljómsveitir sem þegar hafa verið taldar má nefna Byrds, Doors, Pink Floyd, Donovan, Cream og Steppenwolf. Stór hluti af tónlist þessara ára bar vott um nánast fullkomið hömluleysi en það rímaði við það viðhorf margra hippa að menn ættu að njóta lífsins til hins ýtrasta. Margir gengu býsna langt fram í þeim efnum og má þar fremsta telja Jimi Hendrix, Janis Joplin og Jim Morrison sem með líferni sínu og tónlist gengu fram á ystu nöf.

Evrópsk menntaæska gerist uppreisnargjörn

Lífstíll hippanna með rokkið í broddi fylkingar skapaði andrúmsloft róttækni og andófs. Menntaæska Evrópu varð fyrir miklum áhrifum frá hræringunum vestanhafs og tileinkaði sér ýmsar baráttuaðferðir stúdenta í Bandaríkjunum. Mest urðu mótmælin í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Árið 1967 urðu mikil mótmæli í Vestur-Berlín vegna komu Íranskeisara sem þótti hafa tileinkað sér slæma stjórnarhætti heima fyrir. Óánægja hafði verið ríkjandi meðal stúdenta með þýsku stjórnina auk þess sem hið óvinsæla Víetnamstríð fékk unga fólkið til að leiða hugann að ástandinu í heiminum yfirleitt. Í brýnu sló milli stúdenta og lögreglu sem leiddi til þess að einn stúdent lét lífið. Sá atburður sem og ófrægingarherferð helstu blaða Þýskalands í garð stúdenta leiddi til enn fjölmennari mótmæla.

Slæmt ástand í háskólum Evrópu leiddi til víðtækari mótmæla stúdenta þar í álfu heldur en í Bandaríkjunum. Mikil fjölgun nemenda skapaði örtröð sem aftur varð til þess að meiri fjarlægð myndaðist milli þeirra og kennara. Þar að auki var skólakerfið mjög íhaldssamt og byggði í raun á alræði prófessoranna. Stúdentar kröfðust fjölgunar háskóla og fjölbreyttara námsefnis. Einnig var það gagnrýnt að háskólarnir byggju nemendur ekki nógu vel undir lífið. Til uppþota hafði fyrst komið á Ítalíu 1965 sem náði síðan hámarki í Frakklandi 1968. Stúdentar voru farnir að líta á sig sem alþjóðlega hreyfingu þegar óeirðirnar í París áttu sér stað 1968. Þeir litu svo á að allir einstakir þættir samfélagsins tengdust þjóðskipulaginu. Á þann hátt gátu þeir séð samsvörun á milli forstokkaðra háskóla og stríðsins í Víetnam. Því var haldið fram að hvort tveggja væri til komið vegna hins fjandsamlega þjóðskipulags sem auðvaldið drottnaði yfir. Það var því talin full ástæða til að þramma um götur Parísar með vígorð á vörum.

Höfundur er sagnfræðingur