Gunnar Reynir Sveinsson tónskáld fæddist í Reykjavík 28. júlí 1933. Hann andaðist 30. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Laugarneskirkju 12. febrúar.

Það voru dapurleg tíðindi að frétta að Gunnar Reynir Sveinsson, eitt merkasta tónskáld Íslands, væri allur og langar mig að minnast hans með nokkrum orðum.

Ég kynntist Gunnari Reyni þegar ég var að útsetja sönglög eftir hann árið 1986. Nokkru síðar hófum við samstarf sem staðið hefur síðan þá. Í samstarfi okkar Gunnars treysti hann mér til að útfæra tónlistina sína yfir á gítarinn og verkaskiptingin var því mjög skýr, hann samdi tónlistina og ég útsetti hana á hljóðfærið. Síðan lék ég verkin fyrir Gunnar og hann lagði blessun sína yfir útkomuna. Fundir okkar urðu margir í Gíraffafélaginu, eins og við kölluðum samstarfið og oft þurfti að halda aðalfund. Í þessu samstarfi kynntist ég Gunnari mjög vel því margt var rætt og hann sagði mér gjarnan frá liðinni tíð. Frásagnirnar voru svo margar og ótrúlegar að maður trúir varla að einn maður hafi getað afrekað allt þetta á einni mannsævi.

Gunnar var einstakt ljúfmenni og tók mér ætíð fagnandi og óskaði eftir því að ég tæki gítarinn með og myndaðist ákveðin hefð á fundum okkar. Þannig byrjuðum við að rabba saman um líðandi stund, síðan spilaði ég nokkur lög fyrir hann á meðan hann lagaði cappucino. Þegar hér var komið hófst alvaran og við hófum að ræða einstök verkefni. Afrakstur samstarfs okkar kemur fram á mörgum sviðum. Ekkert íslenskt tónskáld á jafn mikið af tónsmíðum fyrir gítar og Gunnar Reynir og hafa þau verið leikin víða á tónleikum heima og erlendis og hlotið mjög góða dóma. Ríkisútvarpið hefur tekið upp mörg þessara verka og í heimildarmyndinni „Svartur sjór af síld“ koma fram mörg gítarverk. Einnig kom út geisladiskurinn „Glíman við Glám“ þar sem ég leik gítarverk Gunnars.

Gunnar var mjög afkastamikið tónskáld og á tímabili samdi hann eitt verk á dag. Á þessum tíma samdi hann einkum sönglög, en ekkert íslenskt tónskáld hefur samið jafn mörg sönglög og Gunnar. Því miður hafa mörg þeirra ekki heyrst enn opinberlega, en Gunnar hefur ekki verið mjög áberandi eftir að hann veiktist. Eftir að Gunnar greindist með sykursýki og sjónin versnaði samfara veikindunum hætti hann um tíma að semja. Jafnframt veigraði hann sér við að sækja tónleika og fara eitthvað sem var ekki bráðnauðsynlegt, enda kominn með sár á fætur sem vildu ekki gróa. Þrátt fyrir erfiðan tíma og þjáningar var alltaf stutt í húmorinn. Sl. vor hringdi hann í mig hress og kátur og sagði að 26. maí hefði hann staðið upp úr rúminu og byrjað að semja aftur. Á þessu tímabili lagði hann áherslu á pólýfóníska útfærslu í verkum sínum. Sl. sumar fórum við tvívegis til Þingvalla, en þangað hafði hann ekki komið í mörg ár og veitti það honum mikla ánægju. Jafnframt heimsóttum við Hilmar organista í Skálholti og fórum á tónleika á Gljúfrasteini þar sem verk hans voru flutt. Eftir þetta áttum við Gunnar Reynir nokkra fundi í Gíraffafélaginu og virtist hann vera nokkuð hress. Nú verða fundir okkar í Sigtúni ekki fleiri að sinni, en tónlist Gunnars mun lifa um ókomin ár. Börnum Gunnars votta ég mína innilegustu hluttekningu.

Símon H. Ívarsson.

Kveðja frá SÁL

Gunnar Reynir Sveinsson tónskáld sveiflaðist inn í tilveru 11 manna hóps ungmenna haustið 1974. Ungmennin voru nemendur á 3. námsári í leiklistarskóla SÁL er sóttu kennslu í söng og tónmennt í Söngskólanum í Reykjavík þar sem Gunnar Reynir kenndi tónfræði. Nemendurnir voru misjafnlega á vegi staddir í fræðunum en það kom ekki að sök því að frá fyrstu stundu átti Gunnar Reynir í þeim öllum hvert bein enda kunni hann þá list að ná til allra hvað sem tónlistarhæfileikum eða kunnáttu leið. Taktur og tónbil, tónheyrn og þurr tónfræðiverkefni lifnuðu við í velþekktum dæmum sem Gunnar dró upp. Húmor hans var engu líkur og þar voru nemendur alveg með á nótunum. Engu að síður voru viðfangsefnin tekin fyrir af fullri alvöru því „trouble-makerar verða reknir úr bandinu“ eins og hann sagði og lagði fyrir einu skriflegu prófin sem þessi hópur tók í leiklistarskólanum, í tónfræði. Með alúð, virðingu og þeirri „professional“ þolinmæði, sem gjarnan einkennir músíkanta, kom Gunnar Reynir öllum til nokkurs tónlistarþroska.

Kynnin við Gunnar Reyni urðu sveifla sem um munaði í leiklistarnáminu og það leiddi af sjálfu sér að flétta tónlistarsamstarfinu með honum betur inn í það nám sem stefndi að lokaverkefnum 4. árs, uppfærslu leiksýninga í nemendaleikhúsi með öllu tilheyrandi. Gunnar kynnti fjölmörg tónverka sinna fyrir hópnum, bæði í tímum og heima í stofu hjá sér og konu sinni, Ástu Thorstensen, sem tók þessu unga fólki með kostum og kynjum. Ásta var sjálf söngkona og tónlistarmenntuð og raddþjálfaði hópinn þegar komið var í nemendaleikhús.

Gunnar Reynir samdi nokkur lög og vann leikhljóð við fyrri leiksýningu nemendaleikhússins í Lindarbæ, Hjá Mjólkurskógi eftir Dylan Thomas, í leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Seinni uppfærsla í nemendaleikhúsi var jafnframt útskriftarverkefni hópsins vorið 1976 og samið sérstaklega fyrir hann, söngleikurinn Undir suðvesturhimni. Höfundur leiktexta og leikstjóri var Sigurður Pálsson skáld. Í leikskrá sýningarinnar segir: „Gunnar Reynir Sveinsson tónskáld hefur samið alla tónlist sýningarinnar svo og allflesta söngtexta. Hann æfði einnig söngflokkinn og er undirleikari og stjórnandi hljóðbands á sýningum“. Ekki var nóg með að Gunnar Reynir stjórnaði hljóðbandinu á öllum sýningum, heldur hafði hann víbrafóninn sinn baksviðs í Lindarbæ og sló lifandi tónmyndir á hann í sýningunni auk þess að auðkenna sýningarhlé með alveg sérstökum Gunnarískum víbrafónslætti. Nokkur af lögum við texta Gunnars úr söngleiknum Undir suðvesturhimni urðu seinna mjög þekkt, eins og Maður hefur nú, og eftir að formlegu samstarfi hinna nýbökuðu leikara og Gunnars lauk samdi hann mikið af leikhús- og kvikmyndatónlist auk alls annars, svo afkastamikið tónskáld sem hann var. Honum til heiðurs voru haldnir tónleikar í Gerðubergi 21. apríl 2004 með vandaðri dagskrá þar sem flutt voru brot af hans fjölbreytilega lífsverki.

Blessuð sé minning Gunnars Reynis Sveinssonar.

Með virðing og þökk.

Anna Sigríður Einarsdóttir.