Færeyskar bókmenntir Sævar Þ. Jóhannesson "Bókmenntahefð Færeyinga er ekki ýkja gömul." Viku af mars sl. hófst hér færeysk menningarvika sem mun hafa tekist mjög vel, eftir því sem mér hefur skilist á nokkrum færeyskum þátttakendum.

Færeyskar bókmenntir Sævar Þ. Jóhannesson "Bókmenntahefð Færeyinga er ekki ýkja gömul." Viku af mars sl. hófst hér færeysk menningarvika sem mun hafa tekist mjög vel, eftir því sem mér hefur skilist á nokkrum færeyskum þátttakendum. Það er helst á svona uppákomum sem okkur Íslendingum er gefinn kostur á að kynnast færeyskum bókmenntum, þar fyrir utan er eins og þær séu ekki til.

Það má heita undantekning ef maður sér getið um færeyska bókaútgáfu eða færeyskar bókmenntir í íslenskum blöðum. Full ástæða er þó til að vekja athygli á þessum þáttum færeyskrar menningar, svo skyld er hún okkur eigin.

Fátt færeyskra bóka hefur verið þýtt á íslensku, að undanskildum bókum Williams Heinesens, í ágætri þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar, rithöfundar, en þær eru þýddar úr dönsku, sem var aðalritmál Heinesens.

Öðru höfuðskáldi Færeyinga, Héðni Brú, hefur hinsvegar lítt verið gaumur gefinn hér. Aðeins ein bók eftir hann, Feðgar á ferð, hefur komið út á íslensku, í þýðingu Aðalsteins Sigmundssonar, en það var árið 1941, eða ári eftir að hún kom út á frummálinu. Héðinn Brú er dáður meðal Færeyinga og hefur mér virst hann í meiri metum þar en Heinesen.

Í raun ætti ekki að vera þörf á því að þýða færeyskar bækur á íslensku, málin eru það náskyld að allir ættu að geta lesið þær sér til gagns og ánægju. Sem dæmi um skyldleika þessara tveggja mála má benda á, að Færeyingar taka yfirleitt upp íslensk orð fremur en dönsk þegar þá vantar nýyrði.

Bókmenntahefð Færeyinga er ekki ýkja gömul, né almennur áhugi þeirra á bókum eða bóklestri. Færeyingar hafa sjálfsagt talið sig hafa annað og þarfara að gera við tímann en að liggja yfir bókum, stritið fyrir brauðinu hafði og hefur haft forgang.

Fyrir um þrjátíu árum heyrði það til undantekninga ef maður sá eitthvað af bókum á færeysku heimili, en þetta breyttist snögglega. Þeirri breytingu má vafalaust þakka bókaútgefandanum Emil Thomsen, sem vann kraftaverk þegar hann kenndi, ef svo má að orði komast, Færeyingum að meta og virða eigin bókmenntir.

Þó að þáttur skáldsagna og ljóða sé nú nokkuð stór bókmenntagrein meðal Færeyinga tel ég aðra grein öllu stærri og vinsælli, en það er sagnfræði, eða það sem ég leyfi mér að kalla alþýðusagnfræði.

Á seinni árum hafa Færeyingar verið ótrúlega duglegir við að skrá m.a. byggðasögur, forna búskaparhætti og sögu atvinnuveganna, en þar skipar sjávarútvegurinn að sjálfsögðu öndvegi.

Rétt er að vekja athygli á einni stærstu sagnfærðiritröð sem skráð hefur verið og gefin út í Færeyjum, en það er "Föroyja siglingasöga" eftir Paul Nolsoy. Af siglingasögunni hafa nú komið 14 bindi og von er á fleirum.

Í "Föroyja siglingasögu" tvinnar höfundurinn saman sögu byggða, verslunar, útgerðar, skipa og skipstjórnarmanna. Sagan er nátengd Íslandi, því mörg færeysku skipanna (kútteranna) um og eftir 1917 voru keypt frá Íslandi og báru sömu íslensku nöfnin og þeim hafði verið gefið hér og má þar t.d. nefna Langanes, Björn riddara o.fl. Margir Íslendingar sigldu með Færeyingum á þessum skipum og er minnst á nokkra þeirra í þessu verki. Þá fjallar stór hluti verksins um sóknina á Íslandsmið og samskipti við Íslendinga.

Undanfarin ár hefur önnur sagnfræðiritröð, "Stríðsárin 1939­1945" eftir Niels Juel Arge útvarpsstjóra, verið gefin út og notið mikilla vinsælda meðal landsmanna. Bækurnar, sem eru 6, fjalla m.a. um hernám Færeyja, áhrif þess á líf eyjaskeggja, siglingar um hættusvæði með fisk til Bretlands, skipsskaða og manntjón. Í þessum bókum kemur Ísland töluvert við sögu.

Fyrir tveimur árum hóf Niels Juel ritun og útgáfu nýrrar ritraðar sem tengd er Færeyjum og seinni heimsstyrjöldinni og heitir hún "Teir sigldu úti". Þessi ritröð fjallar um þá Færeyinga sem sigldu á erlendum skipum á stríðsárunum og lentu margir í ótrúlegum mannraunum. Niels Juel hefur skrifað nokkrar bækur sem eru allar áhugaverðar og læsilegar. Má þar t.d. nefna "Rockall", "Merkið" og "Argjamenn". "Rockall" er, eins og nafnið ber með sér, saga klettsins og ýmissa atburða tengda honum; "Merkið" er saga baráttu Færeyinga fyrir eigin fána, en sú barátta var löng og hörð og "Argjamenn" er ættarsaga, þar sem segir frá merkum listamönnum sem unnu í stein og silfur.

Hér er aðeins drepið á nokkra höfunda og bækur úr heimi færeyskra bókmennta, einungis til að vekja athygli á fjölbreyttu og áhugaverðu efni sem er innan seilingar fyrir áhugamenn.

Aðeins ein bókaverslun, sem mér er kunnugt um, hefur boðið upp á færeyskar bækur, en það er bókabúð Máls og menningar. Úrvalið mætti vera meira, en það ber að þakka viðleitnina.

Höfundur er áhugamaður um færeyska menningu.

Sævar Þ. Jóhannesson