Paul Nikolov paulni@althingi.is
Paul Nikolov paulni@althingi.is
Nýlega hefur komið fram rannsókn um viðhorf heimamanna og aðfluttra til málefna innflytjenda í Ísafjarðarbæ, Fjarðabyggð og í Ölfusi.
Nýlega hefur komið fram rannsókn um viðhorf heimamanna og aðfluttra til málefna innflytjenda í Ísafjarðarbæ, Fjarðabyggð og í Ölfusi. Niðurstaðan almennt var jákvæð: í Ísafjarðarbæ og í Fjarðabyggð hafa Íslendingar mjög jákvæð viðhorf gagnvart innflytjendum. Á sama tíma var meiri aðskilnaður milli innflytjenda og heimamanna í Ölfusi. Hér er um að ræða þrjú sveitarfélög þar sem er hærra hlutfall innflytjenda en á landinu í heild. Hver er þá munurinn á milli Ísafjarðarbæjar og Fjarðabyggðar annars vegar og Ölfuss hins vegar?

Það sem kom fram í rannsókninni var meðal annars að í Ölfusi voru samskipti á milli innflytjenda og heimamanna mjög lítil – þeir heilsa hvorir öðrum en lítið meir. Á sama tíma er mikil samþætting í gangi í Ísafjarðarbæ og Fjarðabyggð. Þetta bendir til að samskipti eru mikilvægt mál. Það er augljóst að við öll berum persónulega ábyrgð á því að gera það. Bæði innflytjendur og heimamenn bera þessa ábyrgð, þó að við sem búum hér nú þegar eigum sérstaklega að vera meðvituð um að taka vel á móti þeim sem hingað koma.

Annað sem kom fram í rannsókninni var að í Ísafjarðarbæ og Fjarðabyggð hafa stjórnvöld gert mikið til þess að takast á við þetta verkefni sem samþætting er, en í Ölfusi var það ekki sérstaklega þannig. Það bendir til að stjórnvöld – hvort sem um sveitarstjórn eða ríkisstjórn er að ræða – geta haft þau áhrif á almenning að samþætting verði auðveld. Það getum við með því til dæmis að gera íslenskukennsluna fáanlegri og aðgengilegri og bjóða fjölmenningarkennslu í leikskólum, grunnskólum og menntaskólum.

En auðvitað er því miður þessi óþægilega spurning: „Hvað mun það kosta?“ Ég svara þessari spurningu með því að spyrja hvað mun það kosta okkur að gera það ekki? Er það ekki dýrt að hunsa þetta stórtækifæri í stað þess að taka þetta sögulega verkefni föstum tökum og gera Ísland að fyrirmyndarlandi í innflytjendamálum? Ég hef mikla trú á þessu landi og þjóð – við getum og við verðum að skapa bjarta framtíð.

Höfundur er varaþingmaður