Eftir Atla Ísleifsson atlii@24stundir.is Engar sannanir liggja fyrir um að Filippus drottningarmaður hafi fyrirskipað eða breska leyniþjónustan skipulagt morð á Díönu prinsessu.

Eftir Atla Ísleifsson

atlii@24stundir.is

Engar sannanir liggja fyrir um að Filippus drottningarmaður hafi fyrirskipað eða breska leyniþjónustan skipulagt morð á Díönu prinsessu. Þetta er niðurstaða Scotts Bakers lávarðar sem farið hefur fyrir réttarrannsókninni á dauða Díönu. Baker sagði að kviðdómurinn gæti komist að fimm mismunandi niðurstöðum, þar á meðal að áreiti ljósmyndara hafi valdið slysinu eða að bílstjórinn Henri Paul hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn.

Úr lausu lofti gripnar

Baker fór yfir málið í gær, en ellefu manna kviðdómur mun nú setjast á rökstóla og að lokum komast að niðurstöðu. Hann sagði margar samsæriskenningar auðjöfursins Mohamed al-Fayed, föður Dodi al-Fayeds, sem einnig lést í slysinu, hafa verið algerlega úr lausu lofti gripnar og lögfræðingur al-Fayeds væri meira að segja hættur að eltast við þær. „Engin sönnunargögn liggja fyrir um að hertoginn af Edinborg [Filippus] hafi fyrirskipað morðið á Díönu, og engin sönnunargögn liggja fyrir um að breska leyniþjónustan eða önnur ríkisstofnun hafi skipulagt slíkt.“

Samsæriskenningar prófaðar

Baker sagði að í langri og kostnaðarsamri rannsókn hefðu verið prófaðar ýmsar samsæriskenningar, en að sumir myndu áfram trúa kenningum um morð, sama hver niðurstaða kviðdómsins yrði. Baker sagði miður að mörg vitnanna, fyrrverandi bryti Díönu, Paul Burrell þar á meðal, hefðu logið í vitnastúku.

Réttarrannsóknin hefur í raun bætt litlu við fyrri lögreglurannsóknir á dauða þeirra Díanu, Dodi al-Fayeds og bílstjórans Henri Paul sem létust þegar bíll þeirra skall á tálma í Pont d'Alma undirgöngunum í París þann 31. ágúst 1997.

Í hnotskurn
Réttarrannsóknin á dauða Díönu prinsessu hefur staðið í hálft ár. Kviðdómur hefur hlýtt á vitnisburð um 250 manna. Mohamed al-Fayed barðist hart fyrir því að réttarrannsóknin færi fram. Hann hefur sagst ætla að virða niðurstöðu kviðdómsins.