Lok, lok og læs Íraski flóttamaðurinn Mustafa Aziz Alwi (t.v.).
Lok, lok og læs Íraski flóttamaðurinn Mustafa Aziz Alwi (t.v.). — AP
Sollentuna. AP. | Íraski flóttamaðurinn Mustafa Aziz Alwi segist ekki geta sofið af ótta við að verða sendur til Bagdad. Hann kveðst hafa lést um tíu kíló frá því að beiðni hans um hæli í Svíþjóð var synjað í janúar.

Sollentuna. AP. | Íraski flóttamaðurinn Mustafa Aziz Alwi segist ekki geta sofið af ótta við að verða sendur til Bagdad. Hann kveðst hafa lést um tíu kíló frá því að beiðni hans um hæli í Svíþjóð var synjað í janúar.

„Þeir sögðu mér að beiðninni hefði verið synjað vegna þess að það væri rólegra í Írak núna, að ég gæti farið heim og verið ánægður. En þeir vita ekki að dauðinn bíður mín þar,“ sagði Aziz Alwi og þerraði tár af augum sér í íbúð frænda síns í Sollentuna, sem er um 20 km frá Stokkhólmi.

Hefði hann lagt beiðnina fram fyrir ári er líklegt að hún hefði verið samþykkt. Svíar hafa veitt um 100.000 Írökum hæli, þar af 40.000 frá innrásinni í Írak árið 2003. Svíþjóð hefur tekið við miklu fleiri flóttamönnum frá Írak en nokkurt annað vestrænt ríki, þeirra á meðal Bandaríkin sem tóku aðeins á móti rúmlega 1.600 Írökum á síðasta ári.

Umsóknum fækkar

Svíar hafa smám saman hert reglur sínar um hælisleitendur af ótta við að velferðarkerfið ráði ekki við innflytjendastrauminn. Samkvæmt tölum frá sænskum yfirvöldum voru 85% hælisumsóknanna samþykkt í janúar á síðasta ári en aðeins 23% í febrúar og 28% í janúar í ár.

Svíar höfðu án árangurs hvatt önnur ríki Evrópusambandsins til að taka við fleiri flóttamönnum frá Írak. „Við teljum það algerlega óviðunandi að sum ríki leggi mikið af mörkum en önnur lítið,“ sagði Tobias Billström, sem fer með innflytjendamál í sænsku stjórninni. „Þegar mjög margt fólk kemur hingað á skömmum tíma veldur það miklu álagi á kerfið, meðal annars skólana og heilsugæsluna.“

Yfir 18.000 Írakar sóttu um hæli í Svíþjóð á síðasta ári – fjórum sinnum fleiri en í Þýskalandi og tíu sinnum fleiri en í Bretlandi. Umsóknunum hefur hins vegar fækkað verulega í ár.