Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is „HAGSMUNAAÐILAR á markaði þurfa að fara gætilega í opinberri umfjöllun um verðhækkanir. Í slíkri umfjöllun kunna að felast brot á samkeppnislögum.
Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

„HAGSMUNAAÐILAR á markaði þurfa að fara gætilega í opinberri umfjöllun um verðhækkanir. Í slíkri umfjöllun kunna að felast brot á samkeppnislögum.“ Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, en að undanförnu hafa m.a. forsvarsmenn Bændasamtakanna og framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna fjallað opinberlega um nauðsyn verðhækkana.

Samkeppniseftirlitið óskaði fyrir helgi eftir gögnum frá Bændasamtökunum sem tengjast búnaðarþingi svo og gögnum sem tengjast umfjöllun um verðlagningu á svína-, alifugla-, hrossakjöti og grænmeti. Páll Gunnar sagði að þarna væri verið að óska eftir skýringum og upplýsingum. Um væri að ræða hefðbundna athugun sem væri liður í eftirliti stofnunarinnar. Engin niðurstaða lægi fyrir.

Páll Gunnar sagði að þegar samtök fyrirtækja fjölluðu um verðlagningu þá vekti það alltaf athygli Samkeppniseftirlitsins. „Við munum fylgjast mjög vel með því að það sé ekki verið að nýta aðstæður og fjölmiðla til þess að koma af stað verðhækkunum sem grundvallast á samráði og eiga sér ekki eðlilegar forsendur.“

Að því er varðar yfirlýsingar Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra stórkaupmanna, um að fram undan væru 20–30% hækkanir á matvöruverði, sagði Páll Gunnar að Samkeppniseftirlitið hefði tekið þau ummæli til athugunar og óskað upplýsinga og skýringa.

Er verið að gefa keppinautum skilaboð?

Páll Gunnar lagði áherslu á að breytingar á verði vöru yrðu að byggja á sjálfstæðri ákvörðun viðkomandi fyrirtækis. Samtök fyrirtækja mættu með engu móti vinna gegn þessu sjálfstæði félagsmanna sinna með því t.d. að hvetja til eða réttlæta verðhækkanir. „Það er athugunarefni hvort verið sé að gefa keppinautum skilaboð um hvað gera skuli.“

Páll Gunnar sagði að forsvarsmenn samtaka fyrirtækja hefðu að þessu leyti takmarkað svigrúm til að tjá sig um verðbreytingar. Hann tók fram að Samkeppniseftirlitið legðist ekki gegn almennri umræðu um verðlagsmál, en þarna væri ákveðin lína sem forsvarsmenn fyrirtækja og samtaka þeirra mættu ekki fara yfir.

Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, sagði að bréf Samkeppniseftirlitsins hafi komið sér á óvart. Forsvarsmenn bænda hefðu verið að koma á framfæri við fjölmiðla upplýsingum um hækkanir á aðföngum og hvaða afleiðingar þær myndu hafa á búvöruverð. Hann sagðist ekki vera sammála Samkeppniseftirlitinu sem skilgreinir Bændasamtökin sem samtök fyrirtækja. Þeim athugasemdum yrði komið á framfæri við stofnunina ásamt umbeðnum gögnum. Hann sagði að stjórn Bændasamtakanna myndi ræða þetta mál og hvort athugasemdir Samkeppniseftirlitsins kölluðu á einhverjar breytingar hjá samtökunum.

Erum að leggja út af staðreyndum

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, sagði í samtali við RÚV um helgina að verð á matvörum myndi hækka um 20-30% á næstunni í kjölfar gengisfalls krónunnar.

Andrés sagðist gera sér grein fyrir þeim lagaákvæðum sem gilda um samtök eins og FÍS. Hann sagði að í viðtalinu hafði hann verið að ræða um afleiðingar þeirra miklu gengisbreytinga sem orðið hefðu frá áramótum. Þessir aðalgjaldmiðlar hefðu frá áramótum styrkst gagnvart krónu um 30-35%. Þá hefði hráefni á heimsmarkaði á mörgum vöruflokkum hækkað. „Ef við megum sem hagsmunasamtök ekki leggja út af þessum staðreyndum í opinberri umræðu þá erum við algjörlega múlbundin,“ sagði Andrés og bætti við að það væri auðvitað alltaf umdeilanlegt hvort ætti að nefna prósentur í sambandi við hækkanir.

Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri Kaupáss, segir að miklar hækkanir á matarverði séu komnar til framkvæmda nú þegar og meira sé í pípunum. Hækkanirnar séu af mismunandi rótum. Gengislækkun krónunnar hafi mikil áhrif á verð á innfluttum vörum. Síðan sé heimsmarksverð á ýmsum framleiðsluvörum að hækka og ennfremur hafi kostnaðarhækkanir dunið yfir landbúnaðinn sem hafi leitt til verðhækkana. Eysteinn segir mismunandi hversu hratt hækkanirnar komi fram. Hækkanir á áburðarverði fari t.d. ekki að hafa áhrif á verð á lambakjöti fyrr en í haust. Hann segir hins vegar dæmi um að birgjar hafi tilkynnt um hækkanir tvisvar í viku. Hann segir útilokað að segja fyrir um hversu mikið verð á matvörum komi til með að hækka. Það ráðist m.a. af þróun gengis á næstu mánuðum. Það sjái hins vegar allir að verslunin geti ekki tekið á sig stórfellda lækkun á gengi krónunnar.