Jóhann Gunnar Þórarinsson
Jóhann Gunnar Þórarinsson
Jóhann Gunnar Þórarinsson fjallar um framkomnar tillögur um skipan dómara: "Höfundur ætlar með þessum pistli sínum að ræða um frumvarp Lúðvíks Bergvinssonar og fl. um breytingar á lögum um dómstóla."

ÞAÐ sem Lúðvík vill fyrst og fremst að sé breytt er það að færa vald ráðherra um frjálst val þegar kemur að skipun dómara í hendur Alþingis.

Forsætisráðherra á að gera tillögu til þingsins um hvern hann vill skipa sem dómara. Þá á sérnefnd að gefa skýrslu til þingsins og þetta yrði rætt. Svo þyrftu 2/3 hlutar þingsins að samþykkja skipun dómara.

Það gefur augaleið að þetta yrði mjög þungt í vöfum og skipun dómara gæti hæglega orðið flokkspólitísk. Sumir hafa sennilega séð að Sjálfstæðisflokkurinn miðað við núverandi þingmannafjölda gæti alltaf komið í veg fyrir samþykkt frumvarpsins (1/3 þingmanna) sem er mjög óæskilegt.

Miðvikudaginn 27. febrúar sótti ég málstofu í Lögbergi um skipun dómara þar sem fjallað var um hvaða leið væri best í þessu efni. Það sem mér þótti athyglisverðast var það að Eiríkur Tómasson lagaprófessor kom að mínu mati með enn betri tillögu sem mér finnst ekki hafa verið gefin næg athygli í fjölmiðlum. Þingmenn á Alþingi hafa ekki fengið tækifæri til að ræða þetta frumvarp því að það liggur enn hjá allsherjarnefnd.

Tillaga Eiríks hefur verið vel tíunduð í Fréttablaðinu fimmtudaginn 28. feb. á bls. 6, þar sem nánar er hægt að líta á tillöguna. Helsti kostur þessarar tillögu er nefndin sem Eiríkur stingur upp á. Í dag er skipuð nefnd þegar kemur að skipun héraðsdómara en aðeins er leitað álits Hæstaréttar þegar kemur að skipun hæstaréttardómara. En skv. tillögu Eiríks gefur nefndin álit um hvern eigi að skipa í dómaraembætti en til að fara gegn áliti nefndarinnar getur dómsmálaráðherra stungið upp á öðrum aðila í skipun dómara á Alþingi og þarf þá ¾ hluta atkvæða.

Nefnd Eiríks:

- 2 hæstaréttardómarar

- 1 héraðsdómari

- 1 lögmaður skipaður af Lögmannafélagi Íslands

- 2 kosnir hlutfallskosningu * af Alþingi.

Ef atkvæði standa á jöfnu ræður formaður nefndar (annar hæstaréttardómara.)

Eins og glöggir menn hafa tekið eftir er þetta keimlíkt dönsku nefndinni. Þó að það sé kannski ekki alltaf heppilegt að líkja eftir grönnum okkar þá verður að gera það í þessu tilviki enda hefur þetta reynst vel í Danmörku eins og Eiríkur rakti vel á umræddri málstofu.

Ég tel mjög brýnt að menn gefi þessu gaum enda tel ég hér um að ræða vel úthugsaða og vandaða meðferð um skipun dómara. Frumvarp Lúðvíks, þó ágætt sé, yrði hreinlega alltof þungt í vöfum.

* Hlutfallskosning hefur lengi verið notuð við skipun manna í nefndir á Alþingi og fer eftir d'Hondt-reglunni sem er víðfræg. Fólk áttar sig kannski ekki beint á því hvað hún felur í sér en í örstuttu máli þá gefur þessi regla stjórnarandstöðunni þingmenn í nefndum Alþingis. Þannig að þegar kemur að þessari nefnd Eiríks mundi að öllum líkindum ríkisstjórnin eiga einn þingmann og stjórnarandstaðan hinn. Nánar í 68.gr. laga um þingsköp Alþingis.

Höfundur er nemi við lagadeild HÍ.