Aðalsteinn Júlíusson
Aðalsteinn Júlíusson
Aðalsteinn Júlíusson skrifar um störf lögreglunnar: "Lögreglustarfið er mikilvægt. Það ætti að vera verðlagt sem slíkt en ekki sem starf sambærilegt við að steikja hamborgara eða baka pítsur."

NÚ BERAST endalausar fréttir af því að verið sé að skera niður hér og þar hjá lögregluembættum landsins. Það er látið vanta á vaktir því það eru ekki til peningar til að greiða fleirum laun vegna þess að fjárheimildir eru af svo skornum skammti. Það er fækkað á vöktunum með auknu álagi á þá sem fyrir eru, þrátt fyrir að álagið sé fyllilega nægt þegar. Lögreglubifreiðum fækkað vegna mjög mikils kostnaðar við rekstur bílanna, lögreglustöðvum lokað og þjónusta skorin niður.

Nú, nýjasta dæmið frá Suðurnesjum, lögreglustjórinn sendir inn raunhæfa kostnaðaráætlun fyrir komandi fjárhagsár sem er u.þ.b 200 milljónir umfram veittar fjárheimildir, vegna þess að það er fjárþörfin að hans mati fyrir árið, svo að hlutirnir gangi upp. Nei, eina lausnin sem komið var fram með fyrir hann af hálfu stjórnvalda var að splitta upp lög- og tollgæslunni á svæðinu og samstarf þeirra nú í uppnámi vegna þessa sparnaðar og er þetta nú með þeim ólíkindum að lögreglustjóri sér sig knúinn til að segja starfi sínu lausu. Ég er þess fullviss að Jóhann Benediktsson lögreglustjóri hefur gert kostnaðaráætlun sína af kostgæfni og þar er ekki neitt bruðl á ferðinni. Það kostar bara þessar krónur að reka embætti hans og hana nú.

Hvernig á að spara í löggæslu? Það er ekki gert nema fækka á vöktunum, fækka bílum, draga úr þjónustu við borgarann. Það er ljóst að 80-90% kostnaðar við löggæslu eru laun lögreglumanna. Launin eru þó samt ekkert til að hrópa húrra fyrir. Byrjunarlaun lögreglumanns skv. kjarasamningi, sem nú er að vísu bráðum allur, eru langt undir 200 þús kr. á mánuði. Það fá nýútskrifaðir lögreglunemar í grunnlaun fyrir að fara og láta hrækja á sig í miðbænum í Reykjavík. Ég fullyrði að menn fá hærri laun fyrir vinnu við að steikja pítsur og hamborgara.

Lögreglustarfið er að mínu viti mikilvægt starf. Það ætti að vera verðlagt sem slíkt en ekki sem starf sambærilegt við pítsubakstur. Menn geta ef þeir vilja kynnt sér launatöflur lögreglumanna sem eru aðgengilegar á netinu ef þeir vilja fara í samanburð.

Lögreglustjórum er gert að senda inn kostnaðaráætlanir fyrir fjárhagsárið og gert að skila rekstri embætta sinna á núlli. Stakkurinn er svo þröngt skorinn að ekkert má út af bregða, það má ekki koma upp eitt einasta mál til rannsóknar umfram eitthvert „norm“, en ef slíkt gerist fer allt á annan endann og rekstrarhalli sem myndast við það flyst þá yfir á næsta ár. Það er ekkert borð fyrir báru. Það hefði einhvern tímann þótt hættulegt að hlaða skútuna þannig að það dygði ekki einu sinni að setja merar á borðstokkinn en allt á kafi þrátt fyrir það. Það er á þeirri leið í dag. Á kaf. Nú tala ég líkingamál, en ef fram heldur sem horfir sekkur skútan með manni og mús.

Það er nefnilega ekki gott fyrir móralinn innanborðs að vera sífellt undir því að dallurinn sé að sökkva og niðurskurðarhnífurinn á öllu og öllum. Það smitar út í lögregluliðið og menn verða endalaust leiðir á sparnaði hér og sparnaði þar.

Hvar er mannauðurinn sem ætti að vera hafður í hávegum í þessu starfi? Það þarf að hlúa að þeim sem starfandi eru í lögreglunni í dag með því að búa þeim það starfsumhverfi að þeir geti sinnt vinnu sinni af fullum þunga og haft þá viðveru sem nauðsynleg er til að málin geti gengið upp og til sé nægilegur fjöldi lögreglumanna til að sinna því sem upp kemur. Gera þarf lögreglumönnum það kleift að lifa af launum sínum þrátt fyrir að fjölgað sé á vöktum og yfirvinna minnki. Það er ekki gert nema með hærri grunnlaunum eða einhvers konar fastlaunasamningum.

Fjölgun? Það er verið að fjölga sérsveitarmönnum. Það er vel og þeir að vinna góða vinnu alls staðar. Hvernig væri að láta þennan uppgang sem er innan sérsveitar lögreglunnar ganga yfir alla lögregluna í landinu. Ég fullyrði, án þess þó að meining mín sé að móðga neinn, að ef stjórnvöld bæru gæfu til að efla lögregluna alls staðar á landinu á þann hátt sem sérsveit ríkislögreglustjóra hefur verið efld að undanförnu þá værum við í góðum málum. Látum þetta ganga yfir lögregluna alla.

Hér er er lítil vísa til gamans:

Kreppta að mér krumlu skók

kauði einskis nýtur.

Húfa, skyrta, bolur, brók,

beinagrind og skítur.

Við fáum oft hnefann á loft og alls konar hótanir og óþokka á okkur í starfinu. Fólk segir: „Þið eigið að þola þetta,“ og þetta fylgir starfinu. Það kann vel að vera en launin þurfa að endurspegla starfsumhverfið. Horfum fram á veginn og upp en ekki niður og eflum lögregluna á öllum sviðum.

Lögreglumenn: Nú er tækifærið til að láta í sér heyra og ég hvet félaga mína til að tala hreint út um ástandið eins og það blasir við nú víðs vegar um landið. Stöndum saman um bætt kjör á öllum sviðum. Við verðum að hafa metnað og einurð til að búa vel að lögreglunni og stofnunum hennar öllum en ekki draga úr henni tennurnar og stjórnendum hennar endalaust með kröfum um niðurskurð. Það er til máltæki á ensku sem er svohljóðandi: „Enough is enough!“ Mér finnst komið nóg og ég fullyrði að ég tala ekki einn.

Höfundur er starfandi lögregluvarðstjóri á Húsavík.