3. maí 2008 | Íþróttir | 233 orð | 1 mynd

Helgi þjálfar Pfullendorf

Liðið, sem leikur í suðurriðli 3. deildar í Þýskalandi, er í baráttu að komast í nýja stóra 3. deild, sem verður tekin upp næsta keppnistímabil

Þjálfari Helgi Kolviðsson
Þjálfari Helgi Kolviðsson
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is HELGI Kolviðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn aðalþjálfari þýska knattspyrnuliðsins Pfullendorf og hefur hann stjórnað liðinu í síðustu tveimur leikjum.
Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

HELGI Kolviðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn aðalþjálfari þýska knattspyrnuliðsins Pfullendorf og hefur hann stjórnað liðinu í síðustu tveimur leikjum.

Pfullendorf, sem er frá samnefndum bæ norðan við Bodensee, er í þriðju efstu deild, suðurriðli 3. deildar. Þar snýst baráttan um að ná tíunda sætinu en tíu efstu liðin í hvorum riðli, norður og suður, komast í eina stóra 3. deild fyrir næsta tímabil. Pfullendorf hefur verið í neðri hlutanum og er sem stendur í næst-neðsta sæti og ákváðu forráðamenn að skipta um þjálfara og réðu Helga til starfans.

Helgi er öllum hnútum kunngur hjá félaginu en hann hóf atvinnumannaferil sinn hjá liðinu árið 1994 og lék með því í tvö ár.

Þaðan fór hann til Lustenau í Austurríki og hann lék síðan með þýsku liðunum Ulm og Mainz og Kärnten í Austurríki áður en hann sneri aftur til Pfullendorf árið 2004 og hefur verið hjá liðinu síðan. Helgi lék 16 leiki með liðinu á síðustu leiktíð en meiðsli hafa plagað hann síðasta árið og fyrir þetta tímabil var hann ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins, auk þess sem hann starfar að ýmsum málefnum hjá félaginu.

Helgi er 37 ára gamall og hóf feril sinn með ÍK í Kópavogi árið 1988 sem varð síðar að HK og lék hann með HK í þrjú tímabil áður en hann hélt út í atvinnumennskuna. Helgi á að baki 30 leiki með íslenska A-landsliðinu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.