Sveinn Magnússon
Sveinn Magnússon
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is „Þetta er mikið áhyggjuefni.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

„Þetta er mikið áhyggjuefni. Við hjá Geðhjálp höfum sagt að vistin á Litla-Hrauni geti hreinlega gert menn geðveika,“ segir Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í tilefni af ummælum Margrétar Frímannsdóttur, forstöðumanns Litla-Hrauns, í Morgunblaðinu á laugardag. Þar sagðist Margrét hafa sérstakar áhyggjur af geðsjúkum, sakhæfum afbrotamönnum sem vistaðir eru í fangelsum, en þar ættu þeir alls ekki heima.

Sveinn segir viðleitni hafa verið sýnda til að efla geðþjónustu á Litla-Hrauni, en ekki hafi gengið sem skyldi. Slík þjónusta sé ekki einungis nauðsynleg fyrir þá sem stríða við geðræn vandamál fyrir fangelsisvist, heldur fyrir vistmenn almennt. „Fangelsi er ekki staður fyrir sjúka einstaklinga. Ef menn eru veikir þarf fyrst og fremst að sinna þeim á heilbrigðissviði,“ segir Sveinn. Sumir lendi á milli í kerfinu, enda sinni ríkið búsetumálum geðfatlaðra en sveitarfélögin búsetumálum annarra heimilslausra einstaklinga. Aðilar kasti boltanum því á milli sín þegar vafi leikur á því í hvorn flokkinn einstaklingur fellur. Algengt sé að fólk leiðist út afbrot sé því ekki sinnt á félagslegu eða heilbrigðissviði. „Það er ófremdarástand. Ég hef miklar áhyggjur af því að einstaklingar sem eru veikir séu settir í fangelsi án viðeigandi þjónustu. Og svo vegna þess að hún er ekki til á viðkomandi stofnun þá komi menn annaðhvort veikari út en þeir fóru inn eða verði jafnvel fyrst veikir þar inni.“

Vandamál að LSH taki ekki við

Sveinn segir það yfirlýsta stefnu LSH að taka ekki við geðsjúkum afbrotamönnum. Hann þekkir dæmi af ungum dreng, sem var bæði geðsjúkur og háður fíkniefnum. Fangelsismálastofnun, í samráði við Geðhjálp, hafði komist að þeirri niðurstöðu að hann skyldi ekki afplána fangavist sem vofði yfir honum, færi hann í endurhæfingu. Drengurinn hefði verið því samþykkur. „Landspítalinn neitaði að taka við honum, þrátt fyrir tilmæli frá Fangelsismálastofnun og Geðhjálp, en hann er nú látinn. Þetta er mjög alvarlegur hlutur,“ segir Sveinn.