Halldóra Jónsdóttir
Halldóra Jónsdóttir
Halldóra Jónsdóttir segir frá lífsgildum sínum: "Hver getur sagt það, að við með Downs- heilkennið séum minna virði en einhver annar."

HÆ, ÉG heiti Halldóra. Ég var að lesa grein í blaði um daginn sem vakti áhuga minn og gerði mig um leið reiða og leiða. Það var kona sem skrifaði eitthvað um það, að það ætti að útrýma öllum sem eru með Downs-heilkenni. Því langar mig að segja mína skoðun. Ég er sjálf með Downs-heilkenni, en fyrst og fremst er ég Halldóra.

Ég geri ótal hluti sem aðrir gera. Líf mitt er innihaldsríkt og gott, því ég vel það að vera jákvæð og sjá það góða við lífið og tilveruna. Ég fer í vinnu, skóla og tómstundir. Ég rækta vini og ættingja mína og finnst gaman að fólki.

Í umhverfi mínu er alls konar fólk, gamalt og ungt, fatlað og ófatlað. Það hefur kennt mér margt og ég sé að margir eiga við einhverja erfiðleika að glíma, bæði líkamlega og andlega. Þannig er bara lífið, ekki fullkomnara en það. Skiptir engu máli hvort maður er ungur eða gamall, ríkur eða fátækur.

Því hugsa ég: Hver er fullkominn? Hver getur sagt það, að við með Downs-heilkennið séum minna virði en einhver annar.

Við erum öll ólík og er það best að allir séu eins?

Mín skoðun er sú, að það er skemmtilegra að ekki séu allir eins, því við getum lært svo mikið af fólki sem er ekki alveg eins og maður sjálfur. Mér finnst gaman að læra af öðrum og þið megið alveg læra af mér.

Ég vel það að njóta lífsins sem ég fékk, og vera ánægð með það sem ég hef, og gera það besta úr öllu. Það er ekki slæmt líf, eða hvað finnst þér? Þetta var mín skoðun.

Höfundur er 24 ára , ung kona með Downs-heilkenni. Hún er nemi, starfsmaður á bókasafni, áhugaleikari, tónlistarmaður o.fl.