KVIKMYNDIR Hvaða myndir voru mest sóttar 1993? Júragarðurinn langvinsælust Risaeðlumyndin Júragarðurinn eða "Jurassic Park" eftir Steven Spielberg var langvinsælasta bíómyndin á Íslandi á síðasta ári.

KVIKMYNDIR Hvaða myndir voru mest sóttar 1993? Júragarðurinn langvinsælust Risaeðlumyndin Júragarðurinn eða "Jurassic Park" eftir Steven Spielberg var langvinsælasta bíómyndin á Íslandi á síðasta ári. Hún var sýnd bæði í Háskólabíói og Sambíóunum og hana sáu 78.000 manns samtals í Reykjavík og í kvikmyndahúsum út um allt land.

slendingar (eins og reyndar heimsbyggðin öll) flykktust á Júragarðinn, þar sem Spielberg lék sér að því að endurskapa júratímabilið í jarðsögunni með tölvugrafík, og gerðu hana að vinsælustu mynd seinni ára á Íslandi. Hún varð ein af þessum myndum sem fólk taldi sig ekki mega missa af.

Eins og í fyrra eru tvær íslenskar myndir á lista yfir tíu aðsóknarmestu myndirnar og er það sem fyrr talsvert gleðiefni. Um 54.000 manns sáu gamanmyndina Karlakórinn Heklu að sögn Guðnýjar Halldórsdóttur leikstjóra en myndin var frumsýnd um jólin árið 1992 og hana sáu tíu þúsund manns, fleiri en aðsóknarmestu íslensku myndina það árið, Veggfóður - erótíska ástarsögu. Hin íslenska myndin á topp-tíu listanum er gamanmyndin Stuttur Frakki í leikstjórn Gísla Snæs Erlingssonar en hana sáu 35.000 manns.

Í þriðja sæti listans er einnig mynd sem byrjaði um jólin 1992 en alls sáu 45.000 manns gamanmyndina Aleinan heima 2. Flóttamaðurinn, sem byggði á samnefndum og einkar vinsælum sjónvarpsmyndaflokki, var í fjórða sæti en alls sáu 37.000 manns Harrison Ford á einstaklega hröðum flótta undan réttvísinni og Whitney Houston söng sig upp í fimmta sæti ásamt Kevin Costner í myndinni Lífverðinum sem 36.000 manns sáu. Ástardúettinn varð strax mjög vinsæll.

Stuttur Frakki er í sjötta sæti en í sjöunda sæti endurheimti Sylvester Stallone nokkuð af sinni fornu frægð og vinsældum í myndinni "Cliffhanger" eða Á ystu nöf, sem sýnd var bæði í Stjörnubíói og Háskólabíói, en hana sáu um 33.000 manns þegar aðsóknin úti á landi er talin með. Eins og í Flóttamanninum tókst að halda uppi mögnuðum hraða og spennu, sem áhorfendur greinilega kunnu að meta. Í áttunda sæti trónir Ósiðlegt tilboð þar sem Robert Redford borgar milljón fyrir að eyða nótt með Demi Moore og Íslendingar borguðu milljónir til að upplifa þá nótt sem svo reyndist hálfgert gabb. 30.000 manns borguðu sig inná myndina. Framhaldsmyndin Flugásar 2 gerði það ekki eins gott og fyrsta myndin, sem 34.500 manns sáu, en hún mátti vel við una með 25.000 manns í níunda sæti listans.

Í tíunda til ellefta sæti eru svo myndirnar Fyrirtækið með Tom Cruise og Konuilmur með Al Pacino en þær fengu hvor um sig 23.000 manns í aðsókn.

Listinn er unninn eftir upplýsingum um aðsókn frá hverju kvikmyndahúsi í Reykjavík fyrir sig og er sú aðsókn sem myndirnar hafa fengið úti á landi tekin með. Á honum eru allar myndir sem fóru yfir 15.000 manns í aðsókn og eru innifaldar myndir sem byrjuðu í lok ársins 1992. Þær eru merktar sérstaklega.

Risaaðsókn; úr Júragarði Spielbergs.