Mikilfenglegt Náttúra og byggð spila saman á sérstakan hátt á Madeira.
Mikilfenglegt Náttúra og byggð spila saman á sérstakan hátt á Madeira. — Ljósmynd/Örn Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðrúnu Huldu Pálsdóttur gudrunhulda@mbl.

Eftir Guðrúnu Huldu Pálsdóttur

gudrunhulda@mbl.is

Þetta var stórkostleg ferð en svolítið sérstök,“ segir Örn Sigurðsson, skrifstofustjóri Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, sem skellti sér ásamt konu sinni Ásu Ástmundsdóttur á portúgölsku eyjuna Madeira síðastliðna páska á vegum Gestamóttökunnar.

„Við vissum ekki mikið um eyjuna áður en við komum. Ég hafði heyrt um rómaða fegurð hennar hjá breskum forstjóra sem ég hitti fyrir mörgum árum. Hann fór þangað á hverju ári,“ heldur hann áfram og bætir við að hann sé miklu meira en sammála sínum gamla vini. „Madeira kom mér mjög á óvart. Eyjan er ekki nema á stærð við Reykjanesskaga og hún er í raun aðeins eitt fjall sem klofið er í miðjunni. Undirlendi þar er ekkert nema örlítið svæði þar sem höfuðborgin Funchal stendur, annars er hún bara fjöll sem ganga fram í sjó.“

Þægilegar gönguferðir

Madeira er staðsett lítið eitt norðar en Kanaríeyjar í Atlantshafi. Íbúafjöldi er um 300 þúsund og að sögn Arnar er sagt að tvenns konar veðurfar sé á eyjunni, sunnanmegin sé alltaf sól og blíða en norðanmegin rigning. „Við fengum að finna fyrir því einn daginn þegar við keyrðum norður fyrir og lentum í haugarigningu. Síðan keyrðum við suður í sólskinið.“

Ferðinni var stillt upp sem göngu- og afslöppunarferð og boðið var upp á dagskrá á hverjum degi og meðal annars gengið meðfram hinu fræga áveitukerfi Madeirabúa – Levada – sem er um 2.900 km langt og veitir vatni um alla eyjuna. Hann segir gönguleiðir meðfram Levada hafa notið vinsælda hjá ferðamönnum undanfarin ár. „Göngurnar voru mjög þægilegar og reyndu lítið á líkamann þar sem búið er að ganga þannig frá stígunum að gengið er á jafnsléttu allan tímann.“ Gengið var um 10-12 kílómetra á dag.

Eins og Eden

„Landslagið er sérstakt, ekki síst vegna þess hvernig Madeirabúar hafa aðlagað sig umhverfisaðstæðum. Blómskrúð eyjunnar er afskaplega mikið. Þar vaxa blóm villt og á víðavangi sem við eigum erfitt með að rækta á Íslandi, enda er Madeira oft kölluð Blómaeyjan,“ segir Örn sem bætir við að um þessar mundir standi yfir árleg blómahátíð sem sé fjölsótt af ferðafólki og blómaáhugamönnum.

„Það kom mér á óvart hvað þeir rækta mikið og fjölbreytt úrval ávaxta og vína. Máltæki á eyjunni segir víst að þar sem bananar þroskist vel sé góður staður að búa á og það eru bananar úti um allt á eyjunni,“ segir Örn og bætir við að maturinn sem þeim hafi verið boðið upp á hafi staðist væntingar. „Madeiramenn eru snillingar er kemur að fiski.“