Burj Dubai-turninn í Dubai er enn í byggingu en er þegar orðin hæsta bygging í heiminum. Á hann þó enn eftir að hækka um hátt í 200 metra en er þegar orðinn 650 metra hár.

Eftir Hauk Johnson

haukurj@24stundir.is

Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum er þekkt fyrir mikinn fjölda af háhýsum og ævintýralegum glæsibyggingum. Hæsta fullkláraða byggingin í borginni er 360 metra há en fjölmargar hærri byggingar eru í byggingu, og sú hæsta, Burj Dubai-turninn, verður vígð á næsta ári. Verður hún um tvöfalt hærri eða um 825 metrar.

Lokahæð haldið leyndri

Turninn er nú þegar orðinn um 650 metra hár og er þar með búinn að skáka útvarpsmastrinu í Varsjá sem teygði sig 646,4 metra upp í loft og var hæsta mannvirki heims, þar til það hrundi árið 1991.

Nákvæmri lokahæð er haldið leyndri til að verjast samkeppni frá öðrum háhýsum í byggingu en talið er að 162 hæðir verði í húsinu. Eftirspurnin eftir rými í byggingunni er gríðarleg og seldist 94. hæðin á heilar 12 milljónir bandaríkjadala.

Armani hannar innviði

Það var arkitektinn Adrian Smith sem hannaði turninn í samvinnu við fyrirtækið Skidmore, Owings and Merrill, sem einnig er ábyrgt fyrir Frelsisturninum sem byggður verður á svæðinu þar sem Tvíburaturnarnir stóðu í New York.

Húsið verður ekki síður glæsilegt innanhúss en það er tískufrömuðurinn Giorgio Armani sem hefur tekið að sér innanhússhönnunina. Þar að auki verður opnað sérstakt Armani-hótel á fyrstu 37 hæðum hússins, hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Um 64 íbúðahæðir verða í Burj Dubai og seldust þær upp á einungis átta klukkustundum. Það sem eftir er af húsinu verður undirlagt af skrifstofum.

Lyfturnar verða svo auðvitað þær hröðustu í heimi en þær verða 56 talsins og skutlar hver þeirra 46 farþegum í einu á tæplega 65 km hraða.

Í hnotskurn
Hallgrímskirkjuturn er 74,5 metra hár og því verður Burj Dubai turninn um 11 sinnum hærri. Turninn á að marka miðpunkt svæðis sem kallað verður Downtown Dubai og mun hýsa um 30.000 heimili, m.a. í 19 smærri turnum. Einnig verða níu glæsihótel á svæðinu.