20. júlí 2008 | Minningargreinar | 821 orð | 1 mynd

Alda Steinþórsdóttir Blöndal

Alda Steinþórsdóttir Blöndal tannlæknir, fæddist á Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi á Langanesströnd 8. apríl 1940. Hún lést á sjúkrahúsinu í Herlev í Kaupmannahöfn 17. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Guðný Björnsdóttir frá Hnefilsdal á Jökuldal, f. 20.5. 1906, d. 17.7. 1977 og Steinþór Einarsson kennari frá Djúpalæk, f. 29.12. 1904, d. 22.7. 1952. Systkini Öldu eru Stella Björk, f. 1939 og Hjalti Karl, f. 1943.

Alda giftist 30.1. 1981 Ole Blöndal lögfræðingi, f. 24.5. 1943. Foreldrar hans voru hjónin Ingólfur Blöndal læknir, f. 21.7. 1912 og Ragnhild Jensigne Christoffersen, f. 2.10. 1916. Börn Öldu eru: 1) Guðný Þóra Hjálmarsdóttir viðskiptafræðingur, f. 6.10. 1960. Faðir Hjálmar Ásgeir Sigurðsson, f. 1936. Maki Peter Buhl, viðskiptafræðingur, f. 28.8. 1959. Börn þeirra Christine nýstúdent, f. 2.1. 1989, Martin, f. 13.10. 1990 og Magnus Holger, f. 24.1. 2002. 2) Þorsteinn Þorsteinsson, cand. scient. í efnafræði og Ph.D í kvantaefnafræði, f. 14.11. 1966. Faðir Þorsteinn Gunnarsson leikari og arkitekt, f. 1940. Fyrrverandi maki Zuhal Dincer Þorsteinsson dýralæknir, f. 12.4. 1964. Þau skildu. Sambýliskona hans er Barbara Þorsteinsson. Sonur þeirra Matthias, f. 2007. 3) Bjarki Blöndal viðskiptafræðingur, sérfr. í alþjóðaviðskiptum, f. 3.10. 1976. Maki Rikke Tvedegaard Blöndal, cand. mag. í ensku og sögu. Sonur þeirra Emil, f. 6.4. 2008. 4) Nína Blöndal stjórnmálafræðingur, master frá London School of Economics, f. 24.5. 1978.

Alda bjó með foreldrum sínum og systkinum fyrstu 7 árin á Djúpalæk, en þá flutti fjölskyldan til Norðfjarðar þar sem Steinþór var ráðinn kennari við barnaskóla sveitarinnar. Steinþór faðir Öldu lést aðeins 48 ára að aldri eftir erfið veikindi sumarið 1952, þegar Alda var aðeins 12 ára. Árið 1953 flutti Guðný, móðir hennar, með börn sín til Akureyrar og seinna til Reykjavíkur.

Alda lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og prófi sem meinatæknir nokkru síðar. Hún flutti til Danmerkur 1963 og starfaði þar sem meinatæknir fyrstu árin. Alda lauk prófi í tannlækningum frá Kaupmannahafnarháskóla 1974. Eftir að tannlæknanámi lauk starfaði Alda fyrst sem skólatannlæknir en síðar rak hún sína eigin tannlæknastofu í Lyngby í Danmörku meðan heilsa hennar leyfði.

Útför Öldu fór fram í kyrrþey að hennar ósk.

Þegar sumarskrúðið á Íslandi stóð í blóma og náttúran skartaði sínu fegursta í sólbjörtum júnímánuði síðastliðnum, laut Alda frænka mín í lægra haldi í baráttu sinni við illvígt krabbamein á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn; 17. júní síðastliðinn. Alda barðist af hetjuskap við ofurefli sjúkdómsins studd af Ole Blöndal, eiginmanni sínum, og börnunum sem studdu hana með öllum ráðum.

Alda fór ung til Danmerkur og varð ung dóttir hennar, Guðný Þóra, þá eftir hjá nöfnu sinni og ömmu, Guðnýju Björnsdóttur, sem ól hana upp við mikið ástríki til 17 ára aldurs er Guðný eldri lést sumarið 1977. Fluttist Guðný Þóra þá til móður sinnar og manns hennar í Danmörku og lauk þar námi.

Alda vann í fyrstu á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn en þegar Þorsteinn sonur hennar bættist í búið 1966 og Alda varð einstæð móðir varð að hugsa málin upp á nýtt.

Hún innritaðist þá í tannlæknadeild Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan prófi 1974. Þar með fékk hún námslán og barnagæslu sem fleytti þeim mæðginum yfir fyrsta hjallann. Þessi smávaxna, fallega og fínlega kona tókst á við ýmsa erfiðleika á sínum yngri árum, föðurmissi, viðkvæma heilsu framan af og að berjast áfram í námi og starfi ein með drenginn sinn.

Alda átti góðar vinkonur í Danmörku sem studdu hana og samband hennar við móður sína og dóttur var alltaf gott. Studdu þær hver aðra eftir bestu getu.

Efnahagur móður hennar, var ekki sterkur en viljinn til að styrkja börn sín til náms og hlúa að elskulegri dótturdóttur flutti fjöll.

Svo kom Ole Blöndal lögfræðingur til sögunnar. Ole varð hinn ágæti eiginmaður Öldu en samband þeirra varði í yfir 30 ár. Hann er sonur íslensks læknis og danskrar konu hans.

Börn þeirra eru Bjarki viðskiptafræðingur, kona hans er Rikke Tvedegaard Blöndal og eiga þau eitt barn, Emil, f. 2008, og Nína, stjórnmálafræðingur sem fyrir nokkru sneri heim til að styðja móður sína í veikindunum eftir að hafa starfað við Alþjóðabankann í Washington.

Fjölskyldan átti yndislegt og hlýlegt heimili í Kokkedal norðan Kaupmannahafnar og gestrisni þeirra og fallegt samband Öldu og Ole var sérstakt. Þangað var gott að koma, vera umvafin notalegheitum og glaðlegri hlýju Öldu, sem minnti mikið á móðursystur sína, Helgu frá Desjarmýri.

Börnin luku menntun sinni eitt af öðru og flugu úr hreiðrinu. Guðný Þóra býr skammt frá Kokkedal með fjölskyldu sinni á glæsilegu heimili við Strandvejen. Þorsteinn og Bjarki bættu við nýjum barnabörnum.

Lífið brosti við fjölskyldunni, en sorgin gleymir engum, sagði Tómas Guðmundsson í kvæði sínu Þjóðvísu.

Fyrir þemur árum greindist Alda með þann sjúkdóm sem varð henni að aldurtila allt of snemma. Alda, sem stundaði holla lífshætti, var stælt og hraustleg, glöð og geislandi.

Tómið sem Alda skilur eftir verður aldrei fyllt en minningin um hana mun lifa í hjörtum okkar sem þótti vænt um hana.

Innilegar samúðarkveðjur til Ole, Guðnýjar, Þorsteins, Bjarka, Nínu og fjölskyldna þeirra og til Stellu og Hjalta, systkina hennar.

Anna Þrúður Þorkelsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.