Hurð nærri hælum Ferðamenn hætta sér nærri briminu árið 2004. Í fyrra lést bandarísk kona sem fór of nærri, en alda hrifsaði hana á brott.
Hurð nærri hælum Ferðamenn hætta sér nærri briminu árið 2004. Í fyrra lést bandarísk kona sem fór of nærri, en alda hrifsaði hana á brott. — Morgunblaðið/Ragnar Axelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andra Karl andri@mbl.is Almenningi verður meinaður aðgangur að Reynisfjöru verði þar ekki komið upp viðvörunarskilti, að sögn Ólafs Steinars Björnssonar, eins stærsta eiganda fjörunnar.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

Almenningi verður meinaður aðgangur að Reynisfjöru verði þar ekki komið upp viðvörunarskilti, að sögn Ólafs Steinars Björnssonar, eins stærsta eiganda fjörunnar. Hann vill að Ferðamálastofa standi straum að kostnaði við gerð og uppsetningu skiltisins. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er málið í vinnslu og skilti og bjarghringir verða sett upp.

Þriðjudaginn síðasta voru þýsk hjón hætt komin vestan við Dyrhólaey þegar brimalda hrifsaði þau með sér. Fréttaflutningur var hins vegar á þá leið að atvikið hefði átt sér stað í Reynisfjöru, og sköpuðust umræður um hvort ekki þyrfti að setja þar upp viðvörunarskilti til handa ferðamönnum. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem sú umræða sprettur upp. Hún var síðast tekin á síðasta ári þegar bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana, en brimalda hrifsaði hana með sér út á dýpið sem er gífurlega mikið rétt úti fyrir ströndu.

Lokun besti kosturinn

Í 20. gr. laga um náttúruvernd kemur fram að eigi megi setja byggingar, girðingar né önnur mannvirki á sjávarströnd, þannig að þau hindri frjálsa umferð fótgangandi manna. Ólafur efast þó að það muni stangast á við þá lokun sem hann hefur í huga. „Þetta snýst um það, að með því að loka fjörunni þá fara þessar ferðaskrifstofur ekki að keyra hálfa leið niður úr og láta lýðinn svo labba restina.“

Spurður hvort honum gremjist ekki tekjuleysi af ferðamönnum, sem að hans sögn eru um 100 þúsund á ári, segir Ólafur ónæðið vissulega verulegt. „Frá mínum bæjardyrum séð er það besta sem getur komið fyrir í þessu máli að fjörunni verði lokað. Því öll þessi umferð fer í gegnum hlaðið hjá mér.“

Landsbjörg boðaði bætur

Í frétt Morgunblaðsins daginn eftir banaslysið, mánudaginn 21. maí, kom fram að Slysavarnafélagið Landsbjörg hygðist setja upp skilti og bjarghring við Reynisfjöru, og það á næstu vikum, í samráði við heimamenn í Vík. Þórhildur Jónsdóttir, oddviti Mýrdalshrepps, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að slíkar viðræður hefðu farið fram. Hún var hins vegar ekki viss um hver niðurstaðan var „en mig minnir að Landsbjörg hafi ætlað að athuga skiltagerð“. Hún vísaði að öðru leyti á sveitarstjórann sem ekki náðist í við vinnslu fréttarinnar.

Spurð út í hver eigi að bera kostnaðinn af merkingum við Reynisfjöru, sagðist Þórhildur telja að hagsmunaaðilar ættu að standa að merkingum. Þar með talið sveitarfélagið.

Svo virðist sem upplýsingaflæði innan sveitarfélagsins sé fremur bágborið. Þegar Ólafur Steinar, sem er varafulltrúi í sveitarstjórn, var spurður út í viðræður við Landsbjörg og hvað hefði orðið um þær, sagði hann: „Það hefur ekkert orðið af þeim og einföld skýring er á því. Það vill enginn borga þetta.“

Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sviðsstjóri slysavarnasviðs Landsbjargar, hafði hins vegar aðra sögu að segja. Hún var í samskiptum við björgunarsveitina Víkverja um skiltagerð, og aðstoðaði við kaup á bjarghringjum. Sigrún segir auk þess að verið sé að útbúa skilti um að sjóböð séu bönnuð og annað stærra upplýsingaskilti um staðinn, þar sem varnaðarorð munu koma fram í texta. Hún benti annars á formann sveitarinnar.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í formann, varaformann né ritara björgunarsveitarinnar Víkverja. Gjaldkeri félagsins vildi ekki tjá sig um málið. Ekkert er því ljóst um hvenær von er á skiltunum.

Öldurnar ólíkar

AÐSTÆÐUR í Vík í Mýrdal eru þannig að mikið aðstreymi er og ekkert rif fyrir utan. Ef miðað er t.d. við Bakkafjöru, þá er þar rif hundrað metrum fyrir utan. Megnið af orku öldunnar fer þar í að brotna úti fyrir, segir Gísli Viggósson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun. „Munurinn á Vík og þar í kring, er að þar kemur aldan óbrotin að landi. En frá Þjórsá og austur fyrir Markarfljót, þar eru rif fyrir utan sem brjóta ölduna.“

Munurinn á þessu tvennu er gífurlegur. Sökum aðstæðna er fyrsta brot öldunnar, t.d. í Reynisfjöru, í fjörunni. Aldan er þá svo þung og skriðhraðinn svo mikill að aldan fer létt með að hrífa menn með sér út. Gísli bendir einnig á að auk öldulengdarinnar við Vík sé mjög bratt niður og því nánast ógerlegt að reyna sundtök eða annað í þeim dúr.

Til samanburðar má nefna að öldur við sólarstrendur eru mun krappari, styttri og þar af leiðandi orkuminni. „Þeim mun lengri sem aldan er, þeim mun hættulegri er hún mönnum. Því það er sífellt meiri orka,“ segir Gísli.