16. ágúst 2008 | Innlendar fréttir | 423 orð | 2 myndir

„Bruggarinn er og verður hjarta fyrirtækisins“

*Nýr mjöður lítur dagsins ljós *Reiknað er með 300.000 lítra ársframleiðslu til að byrja með

<strong> Jökull Gissur Tryggvason framkvæmdastjóri, Elísabet Svansdóttir bruggari og Soffía Axelsdóttir stjórnarmaður. </strong>
Jökull Gissur Tryggvason framkvæmdastjóri, Elísabet Svansdóttir bruggari og Soffía Axelsdóttir stjórnarmaður. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnlaug Auðun Árnason Stykkishólmur | Nýr íslenskur bjór er að koma á markað hér á landi. Það er fyrirtæki í Stykkishólmi, Mjöður ehf, sem er farið að framleiða bjór sem hefur fengið nafnið Jökull.
Eftir Gunnlaug Auðun Árnason

Stykkishólmur | Nýr íslenskur bjór er að koma á markað hér á landi. Það er fyrirtæki í Stykkishólmi, Mjöður ehf, sem er farið að framleiða bjór sem hefur fengið nafnið Jökull. Eigendur fyrirtækisins eru systurnar Ragnheiður og Soffía Axelsdætur ásamt mökum sínum Gissuri Tryggvasyni og Björgvini Guðmundssyni.

Tækin komu frá Japan

Gissur, framkvæmdastjóri Mjaðar ehf., segir að hugmyndin að stofnun bruggverksmiðju sé ekki gömul. Það var sl. sumar sem hugmyndin kviknaði og eftir að hafa melt hana í nokkra daga var ákveðið að láta á það reyna að framkvæma hana.

Í vetrarbyrjun var haldið til Þýskalands til að skoða tæki og tól. Þar komust þau í samband við þýskt fyrirtæki, BdB Bier-Know How, og gerður var samningur um kaup á framleiðslulínu, átöppunarvélum, aðstoð við hráefniskaup ásamt faglegri aðstoð við bjórframleiðslu.

Fyrstu tækin og tankar komu alla leið frá Japan í byrjun mars og síðustu tækin komu frá Þýskalandi í júníbyrjun.

Húsnæði keypt í desember

Mjöður ehf. keypti húsnæði í desember á síðasta ári og á síðustu mánuðum hefur starfseminni verið komið þar fyrir. Gissur segir að þar liggi mikil vinna að baki. Húsnæðið sem er um 660 fermetrar að stærð, hefur verið endurbætt til að uppfylla strangar kröfur um áfengisframleiðslu.

Reiknað er með 300.000 lítra ársframleiðslu til að byrja með. Máttarstoð hvers bjórframleiðenda er góður bruggari.

„Bruggarinn er og verður hjarta fyrirtækisins.“ segir Gissur framkvæmdastjóri, „Þann vanda leystum við vel með því að ráða til okkar Elísabetu Svansdóttur, sem mjólkurtæknifræðingur og hefur starfað lengi sem slíkur í Búðardal Hún hefur aflað sér mikillar þekkingar frá því hún byrjaði hjá okkur,“ segir Gissur.

Jökull nefnist bjórinn sem kemur nú á markað frá Miði ehf. Nafnið hefur skírskotun til Snæfellsjökuls. „Því getur stór hluti þjóðarinnar bæði séð hann og haft hann í hendi samtímis,“ segir Gissur.

Jökull til taks á Dönskum dögum

Elísabet Svansdóttir, bruggari hjá Miði, segir að mikill metnaður sé lagður í framleiðsluna. „Við verðum í samkeppni því á markaðinum eru fleiri fyrir. Við verðum að sanna ágæti okkar framleiðslu og bjóða upp á góðan bjór. sem fólk vill kaupa. Við notum eingöngu fyrsta flokks hráefni og fyrsta flokks vatn, því vitum að þessir þættir eru skilyrði fyrir góðum árangri. Við búum í góðu umhverfi sem er vottað af Green Globe samtökunum. Jökull verður gæðabjór, léttur og ferskur, “ segir Elísabet. Nú er Jökuls-bjórinn að verða tilbúinn til dreifingar. Eigendur Mjaðar ehf vonast til þess að gestir á bæjarhátíðinni Dönskum dögum sem haldnir eru nú um helgina í Stykkishólmi geti fengið að bragða á fyrstu sendingunni á veitingahúsum bæjarins.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.