17. ágúst 2008 | Fólk í fréttum | 368 orð | 1 mynd

Ómissandi rafræn glósuspjöld

Þarfaþing Góð spjaldskrá með spurningum og svörum úr námsefninu getur komið að heilmiklu gagni í náminu í vetur.
Þarfaþing Góð spjaldskrá með spurningum og svörum úr námsefninu getur komið að heilmiklu gagni í náminu í vetur. — Morgunblaðið/Eyþór
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is UTANBÓKARLÆRDÓMUR vill bæði vera agalega leiðinlegur og seinlegur.
Eftir Ásgeir Ingvarsson

asgeiri@mbl.is

UTANBÓKARLÆRDÓMUR vill bæði vera agalega leiðinlegur og seinlegur. Margir grípa til þess ráðs að útbúa litla spjaldskrá, með spurningu á framhlið spjaldsins og svarinu á bakinu, en það er óttaleg handavinna, auk þess sem verð á pappaspjöldum er háð undarlegum lögmálum á Íslandi.

Þess vegna kemur Flashcard Exchange sem algjör himnasending inn í líf námsmanna á öllum stigum. Strákguttinn Culley Harrelson fann upp á þessu árið 2001, og segir sagan að hann hafi hannað forritið sem vefurinn byggist á til að hjálpa sjálfum sér í náminu.

Klæðskerasniðið

Vefurinn er sumsé eins konar rafræn spjaldskrársmiðja. Notendur geta búið til eigin spjaldskrá eftir sínum einstaklingsbundnu námsþörfum og síðan flett í gegnum spjöldin í tölvunni. Það sem meira er, þú getur notað spjaldskrárlista sem aðrir hafa sett saman og sparar þér því alla vinnuna.

Helsti vandinn er sá að enn eru frekar fáir íslenskir notendur á vefnum og þess vegna úrvalið takmarkað af glósuspjöldum á íslensku. Þó má finna spjöld sem erlendir nemendur í íslensku hafa búið til til að læra allt frá íslenskum tölum yfir í veika sagnbeygingu. Svo er líka 26 spjalda sería um norræna goðafræði, allt á ensku þó.

Einfalt í notkun

Sáraeinfalt er að nota vefinn, og hægt að nota hvort heldur er tölvumúsina eða lyklaborðið til að fletta fram og til baka í spjaldskránni og merkja við spjöldin eftir því hvort tekist hefur að svara þeim rétt eður ei. Í lokin er kölluð fram tölfræði sem sýnir hversu mörgum spjöldum þú svaraðir rétt. Þá heldur forritið utan um hversu miklum tíma hefur verið varið í yfirferðina og hægt er að hjóla aftur í röngu svörin. Að sjálfsögðu má svo breyta leturstærð og röðun, hvort og hversu hratt skrunað er í gegnum spjöldin.

Vefurinn getur gagnast í flestum kennslufögum, hvort sem er til að læra orðaforða í nýju tungumáli, fá sagnfræðilegar staðreyndir á hreint eða kunna skil á osmósu og ljóstillífun. Það sem meira er, bekkurinn getur tekið sig saman um að skipuleggja glósuspjaldagerðina svo að hver sér um afmarkað fag eða tiltekinn kafla í kennslubókinni, og síðan getur allur bekkurinn haft aðgang að spjöldunum á netinu til að æfa sig.

Skemmir ekki fyrir að hægt er að nota Flashcard Exchange alveg ókeypis.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.