Áhrif Fari svo að XL Leisure fari í þrot verða endanleg áhrif á efnahagsreikning Eimskips ekki ljós fyrr en búið verður að gera þrotabú XL upp.
Áhrif Fari svo að XL Leisure fari í þrot verða endanleg áhrif á efnahagsreikning Eimskips ekki ljós fyrr en búið verður að gera þrotabú XL upp. — Morgunblaðið/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is FARI svo að XL Leisure Group takist ekki að endurfjármagna 27 milljarða króna lán frá Landsbankanum mun breska félagið væntanlega fara í þrot, að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

FARI svo að XL Leisure Group takist ekki að endurfjármagna 27 milljarða króna lán frá Landsbankanum mun breska félagið væntanlega fara í þrot, að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins.

Eimskipafélagið gekk í ábyrgð á láninu þegar XL var selt stjórnendum félagsins. Eins og greint hefur verið frá hefur samkomulag náðst milli Eimskipafélagsins og feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar um kaup á kröfunni falli hún á félagið.

Því er ekki um það að ræða að Björgólfsfeðgar séu að greiða upp kröfuna á Eimskip, heldur mun félagið skulda feðgunum 27 milljarða í stað þess að skulda Landsbankanum féð. Í raun er því verið að koma í veg fyrir að krafan lendi á félaginu strax, en Eimskip mun eftir sem áður þurfa að greiða skuldina á endanum.

Víkjandi lán

Endanleg áhrif á efnahagsreikning félagsins eru þó ekki ljós, því falli skuldin á félagið mun það að líkindum gera 27 milljarða króna kröfu í þrotabú XL. Það verður því ekki fyrr en búið verður að gera búið upp sem ljóst verður hve mikið af þeirri kröfu Eimskipafélagið fær í hendur.

Aðrir lánardrottnar Eimskips geta þó varpað öndinni léttar, en lán Björgólfsfeðga mun verða svokallað víkjandi lán. Slík lán eru frábrugðin venjulegum veðlánum að því leyti að fari viðkomandi fyrirtæki í þrot fá útgefendur víkjandi lána ekki fullnustu sinnar kröfu fyrr en aðrir lánadrottnar hafa fengið sínum kröfum fullnægt.

Eigendur slíkra víkjandi lána ganga hins vegar framar hluthöfum þegar kemur að uppgjöri félags og að því leyti versnar staða hluthafa Eimskips. Þetta kemur þó aðeins til álita komi til uppgjörs Eimskipafélagsins og því eru þetta í raun fræðilegar umræður.

Lækkun ekki gengin til baka

Gengi bréfa Eimskips hækkaði um 8,5% í gær, en fréttir af samkomulaginu við Björgólfsfeðga bárust eftir lokun markaða í fyrradag.

Er gengislækkun vikunnar því langt frá því að vera gengin að fullu til baka en á mánudag lækkaði gengi félagsins um 16,46% og um 8,21% á þriðjudag. Lokagengi Eimskips var í gær 10,25 krónur, en við lokun markaða á á miðvikudag fyrir viku var gengið 14,00 krónur. Hefur gengi bréfa félagsins því lækkað um 26% á einni viku.