5. febrúar 1994 | Minningargreinar | 1881 orð

Jakobína Sigurðardóttir - Minning Fædd 8. júlí 1918 Dáin 29. janúar 1994

Jakobína Sigurðardóttir - Minning Fædd 8. júlí 1918 Dáin 29. janúar 1994 Fagurt var veðrið laugardaginn 30. október sl. þegar við hjónin renndum í hlað í Garði í Mývatnssveit til að heilsa upp á Bínu frænku eins og börnum okkar hjóna var tamt að kalla Jakobínu Sigurðardóttur. Sumaraukinn mildi og hlýi hafði framlengt líf blómanna í garði okkar svo að kona mín setti í vönd og færði frænku sinni í Garði eins og stundum áður. En hvernig hafði sumaraukinn búið að henni sem við gerðum jafnvel ráð fyrir að hafa kvatt hinstu kveðju á Landspítalanum um vorið? Jakobína kvaðst vera bærilega hress, hafa náð ótrúlegum þrótti um sumarið, lesið margt og fengist við skriftir, haft á prjónum, hreinlega notið lífsins betur en um langa hríð. Þessu til staðfestingar lagði hún handrit á borð fyrir framan mig, handrit sem ég hafði gluggað í og vissi að henni var kappsmál að ljúka áður en yfir lyki. Nú lá það þarna næstum fullbúið. Ég las síðasta kaflann upphátt í áheyrn Jakobínu, Starra og konu minnar. Þegar lestrinum lauk stóð Jakobína upp, gekk til mín, kyssti mig á vangann og sagði: "Mikið er ég þakklát fyrir frestinn sem ég hef fengið til að ljúka þessu."

Þetta hafði sumaraukinn fært henni og gert kleift að reka smiðshöggið á frásögn sem fjallar um lífið á æskuheimili Jakobínu í Hælavík í Sléttuhreppi, Norður-Ísafjarðarsýslu, þar sem byggð hefir lagst af fyrir löngu og bærinn í Hælavík orðinn rústir einar. Í frásögninni reikar höfundur í huganum um híbýli hins horfna bæjar, lítur í hvern krók og kima og atvikin, eitt af öðru, rísa eins og þau horfa við skyggnum augum skáldsins þegar tíminn og fjarlægðin hafa skerpt drættina í þeirri mynd sem dregin er upp þar sem rætur liggja, hugur og þrá til "blágresisbrekkunnar heima, sem brosir fegurst í minning", eins og Jakobína kemst að orði í kvæði sem hún yrkir um föður sinn.

Við hjónin kvöddum í Garði eftir ánægjulega og minnilega stund í sama yndislega veðri og þegar við komum. Síðustu samfundir við einn tryggasta og besta heimilisvin um 40 ára skeið.

Jakobína Sigurðardóttir fæddist 8. júlí 1918 í Hælavík í Sléttuhreppi, N-Ísafjarðarsýslu, elst 13 systkina. Náðu 11 fullorðinsaldri. Nú eru 7 þeirra á lífi. Foreldrar Jakobínu voru hjónin Sigurður Sigurðsson og Stefanía Guðnadóttir, bæði Hornstrendingar, atorkusöm og vel gefin. Sigurður annálaður hagleiksmaður, smiður góður. Þeir sem vilja kynna sér nánar um líf fólksins sem Hornstrandir byggði skal bent á bækur Þórleifs Bjarnasonar, Hornstrendingabók og Hjá afa og ömmu, en Þórleifur og Jakobína voru systrabörn.

Þegar Jakobína var 15 ára yfirgaf hún feðrabyggð og kom þangað aðeins sem gestur eftir það. Fátækt var mikil, börnin mörg og búið of lítið til að framfleyta svo stórri fjölskykldu sem þarna dvaldi. Lífsbaráttan var löngum hörð á Hornströndum í einangrun byggða, samgöngur erfiðar, stríð við óblíð náttúruöfl. Þar gilti hið fornkveðna; að duga eða drepast. Þaðan hefir komið margt harðgert fólk og hæfileikaríkt.

Eftir brottför að heiman stóð Jakobína á eigin fótum. Næstu árin var hún í vistum hér og þar, ýmist í sveit eða Reykjavík. Í höfuðborginni vann hún hjá Happdrætti Háskóla Íslands í nokkur ár. Hún sat vetrarpart í Kennaraskóla Íslands, hætti þar námi er í ljós kom að hún átti við sjóndepru að stríða. Þetta var á stríðsárunum og því erfitt um vik að útvega gleraugu og tók langan tíma. Jakobína hafði ekki af langri skólagöngu að státa um dagana, sat sem barn í farskóla er var til húsa á Horni í Sléttuhreppi.

Sumarið 1948 varð Jakobínu örlagaríkt. Þá fór hún ásamt systur sinni í rútu norður í land. Var ferðinni heitið í Mývatnssveit þar sem þær systur hugðust liggja við í tjaldi. Í rútunni norður kynntust þær ungri stúlku, sem ættuð var frá Garði í Mývatnssveit og á leið þangað. Þegar hún frétti af fyrirætlun þeirra systra bauð hún þeim að koma í Garð. Þáðu systur boðið með þökkum og heilsuðu upp á heimafólk einn góðan veðurdag. Þar var þá fyrir ungur maður á svipuðu reki og Jakobína, Þorgrímur Starri Björgvinsson. Munu hjörtu þeirra, Jakobínu og Starra, hafa tekið að slá örar við þessa fyrstu samfundi og blóðið í skáldæðum beggja brunnið heitar. Svo mikið er víst að árið 1949 er Jakobína sest að í Garði og átti þar heima til hinstu stundar.

Árið 1953 í júlímánuði sá ég Jakobínu í fyrsta sinn. Við hjónin vorum þá nýgift, á brúðkaupsferð. Leiðin lá um Mývatnssveit þar sem við stóðum við um stund í Garði. Varð fagnaðarfundur með þeim frænkum sem ekki höfðu sést um árabil. Tókst eftir þetta mikil vinátta milli heimila okkar sem haldist hefir æ síðan með gagnkvæmum heimsóknum og Jakobína hefir oft dvalið hjá okkur um stundarsakir á Húsavík.

Þau voru ekki ríkmannleg húsakynni ungu hjónanna í Garði þennan júlídag fyrir u.þ.b. 40 árum. Eitt herbergi í kjallara, olíukynt. Vafalítið hafa það verið Jakobínu nokkur viðbrigði og vonbrigði, eins og oft hefir orðið hlutskipti margra ungra kvenna, að setjast í upphafi hjúskapar í óskipt bú hjá tengdaforeldrum með óvissu um stöðu sína. Sjálf hafði Jakobína staðið á eigin fótum frá því hún var 15 ára, nú orðin liðlega þrítug og alls óvön að leita á náðir annarra í fjárhagslegum efnum. Trúlega sært konu með jafn stolta og viðkvæma lund og hennar.

Þegar við kvöddum Jakobínu í þessari fyrstu heimsókn okkar í Garð sagði hún við konu mína: "Segðu frænda (föður konu minnar) að nú hafi ég ort reglulegt álagakvæði."

Þetta haust birtist í einu Reykjavíkurdagblaðanna magnað kvæði eftir Jakobínu Sigurðardóttur, Hugsað til Hornstranda. Síðasta erindið hljóðar svo:

Byltist fóstra, brim í geði þungu.

Barnið leitar þín.

Legg mér hvessta orðsins egg á tungu,

eld í kvæðin mín.

Lífsins mátt og orðsins afl þar kenni

ármenn réttar þíns.

Níðings iljar alla daga brenni

eldur ljóðsins míns.

Það duga engin smáhögl að mati Jakobínu þegar hún sendir "verndurunum" tóninn og átthagarnir eiga í hlut. Tilefni kvæðisins var að fyrir dyrum stóð flotaæfing úti fyrir Hornströndum nálægt heimabyggð Jakobínu, en hún hafði alla daga hina mestu andstyggð á hvers konar hernaðarbrölti eins og glöggt má kenna í verkum hennar. Fáum dögum eftir að kvæðið birtist gerði foráttuveður á þessum slóðum og allt fór í handaskolum við heræfinguna. Kvæðið og atburðirnir sem sigldu í kjölfarið urðu til að vekja athygli á höfundi kvæðisins.

Það hefir löngum gneistað úr Garði - og gerir enn.

Snemma byrjaði Jakobína að skrifa sögur og yrkja ljóð. Mun hún upphaflega hafa skrifað undir dulnefninu Kolbrún og birt. Það er þó ekki fyrr en hún er orðin húsmóðir í Garði að tekur að kveða að henni á ritvellinum. Sú saga verður lítt rakin hér. Fyrsta skáldsaga hennar, sem verulega athygli vakti, var Dægurvísa sem út kom 1965 og var lögð frma af Íslands hálfu í samkeppni um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1966 og síðar til sömu verðlauna tvær skáldsögur hennar aðrar, Snara og Lifandi vatnið. Fleiri skáldsögur liggja eftir Jakobínu svo og kvæðabók og smásagnasöfn auk greina í blöðum og tímaritum. Jakobína hefir notið listamannalauna um mörg ár og síðustu árin heiðurslauna. Ekki voru allir á einu máli um þá ráðstöfun, fleiri vildi komast á garðann. Þetta olli henni sárindum eins og hún væri að þvælast fyrir og hún lét sér um munn fara: "Þeir komast að þegar ég fell frá og þess er kannski ekki svo langt að bíða." Hafi einhverjum þótt framlag hennar of lítið að vöxtum til viðurkenningarinnar vekur þó enn meiri furðu hve mikið það er, fjölbreytt að efni og formi og vandað þegar kjör Jakobínu eru höfð í huga og við hvaða aðstæður verk hennar verða til.

"Ég skrifaði mest á nóttunni," sagði hún eitt sinn við mig, "þegar aðrir voru gengnir til náða að loknu dagsverki. Þá var best næði þegar börnin voru sofnuð."

Áður hefir verið vikið að lítilli skólagöngu. En með góðri greind, bóklestri, hvössum skilningi, djúpri reynslu, opnum augum fyrir umhverfi og mannlífi og afdráttarlausri kröfu til sjálfrar sín um vinnubrögð tókst Jakobínu að ná ótrúlega langt á ritvellinum.

Þegar Snaran kom út olli hún talsverðu umtali, ekki síst vegna forms sem er einstakt í íslenskum bókmenntum. Ég spurði hana þá hvort það hefði ekki tekið langan tíma að skrifa bókina.

"Nei," svaraði hún. "Það gekk mjög vel, ég hafði byrjað að skrifa þetta í leikritsformi og því þaulhugsað efnið áður."

Það var mikil viðurkenning fyrir Jakobínu sem rithöfund að bækur hennar þrjár voru tilnefndar af Íslands hálfu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs þótt ekki hlyti nein þeirra fyrsta sæti þar. Hún fagnaði heils hugar þegar yngri systir hennar, Fríða, hlaut umrædd verðlaun fyrir skemmstu. Byggðin sem nú er komin í eyði og fóstraði ysturnar tvær má vera stolt af þessum dætrum sínum sem svo myndarlega hafa goldið fósturlaunin með ritverkum sínum og framlagi til íslenskra bókmennta.

Þeir sem gerst þekktu til vissu að Jakobína þráði að geta helgað sig meir hugðarefni sínu, ritstörfum, en hún átti kost á, svo af varð togstreita milli skylduverka og skrifta. Þessa gætir í kvæðinu Vor í Garði þar sem draumur og þrá toga í hlekki sem binda við bústang, vilja slíta þá og hlaupa á vit sóldagsins þar sem "yrkir hvert grænkandi strá". En það er fleira sem togar:

"Þá lít ég á glókoll minn ljúfan við svæfil.

Ég legg frá mér drauminn og hlæ.

Því hér er mitt verksvið, mín von og

mín skylda.

Svo veröldin kasti ekki á glæ

drauminum hennar, skal hugur minn sættur

við heimskuleg störf - inn í bæ.

Fleiri orð þarf ekki hér um að hafa.

Það gefur augaleið að við ritstörf sín naut Jakobína styrks af eiginmanni sínum Þorgrími Starra, jafnhagur og hann er á íslenskt mál og skáldlega þenkjandi. Hafa þau hjón á því sviði notið hvors annars, hann ekki síður við kvæða- og leikþáttagerð sína. Munu þau hafa borið saman bækur sínar í þessum efnum og rætt ítarlega.

Oftlega var leitað til Garðshjóna þegar sveitarskemmtanir voru á döfinni. Sem þakklætisvott fyrir það liðsinni buðu sveitungar þeirra þeim í utanlandsför fyrir allnokkrum árum, ferðar sem bæði nutu vel.

Þegar gestir komu í Garð var um margt skrafað og skeggrætt. Eftirminnilegt og lærdómsríkt var að heyra hið kjarnyrta íslenska mál af vörum Garðshjóna og hver virðing var borin fyrir móðurmálinu þar á bæ.

Jakobína og Starri eignuðust fjögur börn, en þau eru: Stefanía, búsett í Reykjavík, maki Elvar Heimir Guðmundsson; Sigrún Huld, búsett í Reykjavík, fráskilin; Sigríður Kristín, búsett á Sauðárkróki, maki Þór Hjaltalín; Kári, búsettur í Garði, maki Jóhanna Njálsdóttir.

Jakobína gat verið hörð í horn að taka, en var hjartahlý og raungóð, talaði máli hinna minnimáttar, fyrirleit hvers konar dramb og vald sem leitaðist við að troða á rétti lítilmagnans.

Í formála fyrir kvæðabók sinni segir Jakobína um kvæði sín: "Þau eru ekki ort til að þóknast einum né neinum. Og ekki að annarra óskum . . . Ég er ekki að biðja neinn afsökunar á þessu . . . Hér er aðeins ég, og um það hef ég ekki meira að segja."

Þeir sem áttu því láni að fagna að njóta trúnaðar og fölskvalausrar vináttu Jakobínu Sigurðardóttur um 40 ára skeið, vissu að þessi orð voru heil og sönn og áttu ekki aðeins við um kvæði hennar heldur og verk hennar önnur svo og persónuna sjálfa.

Blessuð sé minning Jakobínu Sigurðardóttur.

Sigurjón Jóhannesson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.