Í vikunni setti ég fram margvíslegar hugmyndir um það sem gera má til að styrkja efnahagslífið en það er mjög í deiglunni nú.

Í vikunni setti ég fram margvíslegar hugmyndir um það sem gera má til að styrkja efnahagslífið en það er mjög í deiglunni nú. Það hefur verið ánægjulegt að finna hve vel hugmyndum í þessu efni er vel tekið enda mjög mikilvægt að leita fjölbreyttra ráða til að efla hér trúverðugleika og koma á stöðugleika á ný.

Mest umræddar hafa þær hugmyndir verið sem snúa að auðlindasjóði og að selja stóriðjuvirkjanir eins og Kárahnjúka á leigu til nokkurra áratuga í senn. Auðlindasjóðinn hef ég áður kynnt í þessum pistlum en það er hugmyndin um að leggja auðlindirnar okkar, vatn, fisk, jarðhita o.s.frv. í sameiginlegan sjóð í ætt við það sem Norðmenn hafa til dæmis gert með sínar olíuauðlindir. Þannig yrði tryggt að arðurinn af nýtingu þeirra rynni í sameiginlegan sjóð en einkaaðilar gætu séð um nýtinguna, hvort sem er fiskveiðar, vatnsútflutning eða orkuvinnslu.

Umhverfisrökin

Við þurfum verulega á því að halda nú að skapa stóra áhugaverða fjárfestingarkosti í landinu til að laða hingað erlent fjármagn og senda út skilaboð um að hér sé framþróun og gangur í atvinnulífinu. Ég bendi á að við gætum selt á leigu virkjanir eins og Kárahnjúka sem framleiða raforku eingöngu fyrir stóriðju og að það væru einmitt fjárfestingarkostir sem ætla mætti að eftirspurn væri eftir í heiminum og vegna hins háa álverðs nú ætti að fást hagstætt verð fyrir reksturinn.

Skemmtilegt var að fylgjast með viðbrögðum VG við þessu. Þau hafa andæft einkavæðingu hverskonar í opinberum rekstri, en samt er býsna erfitt að finna einhver rök fyrir því að ríkið eigi að reka þjónustufyrirtæki við álver. En tillögur um einkarekstur í orkuvinnslu og að ríkið hætti rekstri virkjana fyrir stóriðju hafa ekki síst komið úr röðum okkar umhverfisverndarsinna, en umhverfismál eru einmitt hin stoðin í VG. Margir græningjar hafa sagt að óheppilegt sé að ríkið sé bæði leyfisveitandi og eftirlitsaðili en byggi um leið sjálft virkjanirnar. Vilja margir halda því fram að það verði til þess að ríkið greiði virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum óeðlilega mikið leiðina og náttúran njóti þá ekki vafans.

Þá hafa margir náttúruverndarsinnar haldið því fram að arðsemi sumra virkjanaframkvæmda sé ekki ljós vegna þess að ríkið leyni söluverðinu, veiti óbeinar niðurgreiðslur í formi ábyrgða og blandi sölu til heimila og fyrirtækja saman við stóriðjusöluna. Þetta hafa raunar líka ýmsir efnahagssérfræðingar gagnrýnt. Þess vegna má færa sterk rök fyrir því að það sé ekki bara gott efnahagslega heldur líka umhverfislega að ríkið hætti að reka og reisa virkjanir fyrir stóriðju en bjóði slíkt út til fyrirtækja á markaði en láti greiðslurnar fyrir það renna í nytsamlega hluti fyrir fólkið í landinu í stað þess að binda það í þjónustu við álver. Og þá reynir nú á vini mína í VG, hvort vegur þyngra ást þeirra á ríkisrekstri eða á umhverfinu og fólkinu í landinu.

Fjölþættar lausnir

En þó að nýstárlegasti hluti tillagna minna veki auðvitað mesta umræðu eru þarna líka tillögur um að treysta félagslegan stöðugleika með því að bæta kjör eftir ýmsum leiðum og afnema forréttindi eins og eftirlaunalögin. Aðrar snúa að því að efla trúverðugleika Seðlabankans, samkvæmni stjórnvalda, aga í ríkisfjármálum o.s. frv. auk þess sem velt er upp möguleikum á að nýta miklar erlendar eignir okkar í þessu ástandi. Engin þessara tillagna er töfralausn á vandanum, enda er engin slík lausn. Ástandið í heiminum kallar þess vegna á lifandi umræðu um þá fjölmörgu hluti sem við getum bætt hjá okkur til að auka traust og trúverðugleika. En þótt engin patentlausn sé til er því ekki að neita að þátttaka í Evrópusamvinnunni og upptaka stærri myntar myndi mjög hjálpa til við það.

Höfundur er alþingismaður