Fínleiki í rými Myndlist Bragi Ásgeirsson Í efri sölum Nýlistasafnsins sýnir Anna Líndal tvær innsetningar og stendur gjörningurinn til 13. febrúar. Það má vissulega nefna framtak Önnu gjörning, því að það er svo sérstætt að skírskotunin telst pottþétt.

Fínleiki í rými Myndlist Bragi Ásgeirsson Í efri sölum Nýlistasafnsins sýnir Anna Líndal tvær innsetningar og stendur gjörningurinn til 13. febrúar. Það má vissulega nefna framtak Önnu gjörning, því að það er svo sérstætt að skírskotunin telst pottþétt. Um er að ræða að hún tekur fyrir hversdagslega hluti og gefur þeim nýtt inntak, lyftir þeim á stall eins og það mætti orða það.

Þetta er nú einmitt það sem svo margir myndlistarmenn hafa verið að gera á undanförnum áratugum og þó framlag Önnu sé kannski ekki ýkja frumlegt eru verk hennar unnin af drjúgri hugkvæmni og einstakri vandvirkni og alúð. Það má segja, að listakonan leggi alla sál sína í verkin, og er framkvæmdin í góðu samræmi við það sem hún hefur verið að gera áður og sem hún skilgreinir sem "þá þætti tilverunnar, sem ekki verða greindir með berum augum en höfði sérstaklega til sín. Hún hafi áður unnið verk um inniviði jarðarinnar og hreyfingu himintungla". Ennfremur segir hún í hugvitsamlegri og fallegri sýningarskrá; "Á þessari sýningu fjalla ég um þau verk mannanna sem stöðugt er verið að vinna án þess að tekið sé eftir þeim. Ég er að vinna með þeirri hefð sem ósýnilegu umönnunarstörfin eru. Þau eru hornsteinn samfélags okkar mannanna. Í gegnum aldirnar hafa verið saumuð saman andleg og veraldleg göt á hljóðlegan hátt. Nál og tvinni finnst mér táknræn fyrir þau þrekvirki, sem hafa verið unnin í þessa veru. Hefðin hefur blindað, þannig að vinnan við þessi störf sést ekki. Þau standa utan við hagkerfi okkar eins og stjörnurnar en eru okkur allt."

Það verður að segja eins og er, að án þessarar skilgreiningar kæmu gjörningarnir einungis til skila sem sjónræn vísun og skoðandinn yrði að grípa til getspekinnar um tilganginn. Útlistunin verður svo alls ekki til að grynnka eða tæma myndverkin, en er mikilvæg leiðsögn inn í hugarheim gerandans og tilganginn að baki og dýpkar þau þannig mun frekar. Í miðrými hefur Anna hlaðið upp einföldum vörðum úr fjörusteinum og það sem gerir þennan árþúsunda gamla verknað sérstæðan, er að hún hefur klætt þá í sængurver þannig að mjúkt og vinalegt efni rúmbeðsins gæðir hart grjótið efnislegri mýkt, þó maður skynji hörkuna hið innra. Á þennan hátt verður tilvísunin margræð, í senn hlutlæg sem óhlutlæg. Þennan þátt sýningarinnar nefnir listakonan "Vegvísar", en hér eru þó ekki á ferðinni almennir vegvísar heldur frekar leiðsögn um óhlutstæði þess áþreifanlega, og um leið "ósýnileg umönnunarstörf" eins og listakonan orðar það. Gjörninginn á efstu hæð nefnir listakonan "Viðgerðarmaðurinn" og hér hefur hún búið til óð til tvinnans og tvinnakeflisins. Ótal litrík tvinnakefli hanga lóðrétt á tvinnum, neðarlega á veggjunum, sem svo aftur mynda samfellda röð af fínlegum strengjum. Ferlið minnir í senn á strengjahljóðfæri sem lóðrétt regn af himnum ofan. Inn í þennan samfellda eintóna og marglita heim spila svo ljósbrot sýningarsalarins.

Ef við lítum á gjörningana sem tilvísun til hins ósýnilega á bak við fullmótaða hluti felst í þeim ákveðin ögrun til vitundarlífsins, og að baki þeirra er í senn alvara sem yndisþokki.

Anna Líndal