23. október 2008 | Íþróttir | 857 orð | 1 mynd

„Gott að vera á Íslandi“

*Valsarinn Dóra María Lárusdóttir leikmaður ársins *Mikilvægustu leikirnir á ferlinum bíða handan við hornið *Missti af fögnuði Vals vegna háskólanáms

Landsliðskona Dóra María hefur skorað sjö mörk í 38 leikjum fyrir Ísland en hún leikur jafnan á hægri kanti.
Landsliðskona Dóra María hefur skorað sjö mörk í 38 leikjum fyrir Ísland en hún leikur jafnan á hægri kanti. — Morgunblaðið/Kristinn
„ÉG hef alltaf verið hjá Val og býst nú ekki við því að breyta til á næstunni.
„ÉG hef alltaf verið hjá Val og býst nú ekki við því að breyta til á næstunni. Það þyrfti alla vega að koma eitthvað rosalega spennandi tilboð,“ segir knattspyrnukonan Dóra María Lárusdóttir, sem verðlaunuð var sem besti leikmaður Landsbankadeildarinnar í sumar á árlegu lokahófi KSÍ um helgina. Hún er með báða fætur á jörðinni og gefur lítið fyrir allt tal um atvinnumennsku og einbeitir sér þessa dagana að einhverjum mikilvægustu leikjum ferilsins.

Eftir Sindra Sverrisson sindris@mbl.is
„Ég er ekkert gríðarlega spennt fyrir því að fara út, og kannski er það vegna þess að ég er búin að vera í háskóladeildinni í Bandaríkjunum. Ég er bara svo heimakær, mér finnst svo gott að vera á Íslandi. Ég er ekkert búin að ákveða að vera í Val á næsta ári en mér finnst það líklegast eins og staðan er núna,“ sagði Dóra María þegar blaðamaður hitti hana að máli fyrir landsliðsæfingu í vikunni.

„Margt annað í lífinu“

„Það er margt annað í lífinu en fótbolti og atvinnumennskan hjá okkur er ekkert í líkingu við það sem er hjá strákunum. Ég gæti kannski farið út til Svíþjóðar og fengið íbúð og bíl og svona, en maður er ekkert að græða mikið á þessu. Þetta er kannski aðeins betra en á Íslandi en ekki mikið, en það verður reyndar spennandi að sjá hvernig þessi atvinnumannadeild þróast í Bandaríkjunum,“ bætti Dóra María við. Þar lék hún með háskólaliði Rhode Island þrjá síðustu vetur samhliða því að leggja stund á viðskiptafræði. Af þeim sökum hefur hún misst af lokum þriggja síðustu leiktímabila hér á landi með liði sínu Val.

Gat loksins fagnað titli í sumar

„Núna gat ég loksins verið allt sumarið og þurfti ekki að fara til Bandaríkjanna, og það hvetur mann til dáða að vita að maður muni spila allt til enda. Ég er búin að verða Íslandsmeistari núna þrjú ár í röð en þetta er í fyrsta skipti sem ég tek á móti titli.

Í tvö síðustu skipti sem ég fór var Íslandsmeistaratitillinn svo að segja kominn í okkar hendur, þannig að það var ekkert auðvelt að fara. Svo missti maður líka af bikarúrslitum og Evrópukeppni en ég segi samt að það hafi verið þess virði fyrir mig að fara út. Ég mæli þvílíkt með þessu fyrir stelpur og jafnvel stráka líka.

Það var erfitt að þurfa að kveðja en líka gott að koma heim aftur, þó það væri kannski fínt að vera þarna núna á meðan allt er í volli hérna heima,“ sagði Dóra María kankvís, en hún er nú í meistaranámi í viðskiptafræði við HÍ og því vel inni í umræðunni um stöðu efnahagsmála hér á landi.

Í sögubækur í fyrsta landsleik

Talið berst að landsliðinu sem aldrei hefur átt betri möguleika á að komast í úrslitakeppni stórmóts en nú. Til þess þarf að vinnast sigur á Írum en leikið er í Dublin á sunnudag og hér heima næstkomandi fimmtudag. Dóra lék sinn fyrsta landsleik í september 2003 þegar hún kom inn á í 10:0 sigri á Póllandi og náði skemmtilegum áfanga.

„Já, ég skoraði alla vega nokkuð fljótlega. Ég er víst eini íslenski leikmaðurinn sem hefur skorað tíunda markið í landsleik. Það er náttúrlega þvílíkur heiður,“ sagði Dóra María létt en hún á að baki 38 leiki fyrir A-landsliðið og fjölda leikja með yngri landsliðum.

„Ég er búin að vera fastamaður í hóp núna í 2-3 ár en það er mismunandi hvort ég er í byrjunarliði þó ég sé búin að vera þar í allt sumar. Ég hef aldrei náð að festa mig alveg í byrjunarliði og ég held að það sé bara þannig að engin nái því,“ sagði Dóra María.

Betri í nýju stöðunni

Hún hefur leikið á hægri kanti í landsliðinu og nánast allan sinn feril en seinni hluta sumarsins hjá Val lék hún sem framliggjandi miðjumaður og hreinlega blómstraði þar. Ekki er ólíklegt að landsliðsþjálfarinn hafi þetta í huga fyrir komandi leiki.

„Ég hef yfirleitt verið á hægri kantinum gegnum ferilinn, og ég er auðvitað bara alltaf ánægð með að fá að vera í byrjunarliði en það er skemmtilegra að vera á miðsvæðinu. Mér finnst minn leikstíll henta betur þar og kann bara betur við mig þar.

Umgjörðin orðin mikið betri

Það er frábært að vera í landsliðinu. Maður finnur bara hvernig það er miklu meira sjálfstraust komið og hérna fyrr var maður kannski sáttur við að gera bara jafntefli við til dæmis Finnland, en þannig er það ekki í dag. Þegar við náðum ekki að vinna Frakkland um daginn var maður til dæmis alveg drullufúll þó það lið sé á topp 10 í heiminum. Umgjörðin er orðin miklu betri og það er gert nánast jafn vel við okkur núna og strákana, öfugt við það sem var. Mér fannst auðvitað mjög gaman þegar maður var að byrja með landsliðinu og það er ekkert leiðinlegra núna þegar það eru allt að 6.000 manns að mæta á leiki í staðinn fyrir 400.“

Í hnotskurn
» „Ég er víst eini íslenski leikmaðurinn sem hefur skorað tíunda markið í landsleik. Það er náttúrlega þvílíkur heiður.“
» „Umgjörðin er orðin miklu betri og það er gert nánast jafn vel við okkur núna og strákana, öfugt við það sem var.“

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.