Hvað með Fellini? Eftir HILMAR ODDSSON Síðbúin minningargrein um einn mesta listamann aldarinnar, sem óf mestu verk sín utan um þrjá meginþræði, kirkjuna, fjölleikahúsið og konuna. vað með Fellini? Ég man ekki til þess að hafa séð eina einustu...

Hvað með Fellini? Eftir HILMAR ODDSSON Síðbúin minningargrein um einn mesta listamann aldarinnar, sem óf mestu verk sín utan um þrjá meginþræði, kirkjuna, fjölleikahúsið og konuna. vað með Fellini? Ég man ekki til þess að hafa séð eina einustu minningargrein um Fellini í íslenskum fjölmiðli. Reyndar eyddi Morgunblaðið rúmum þriðjungi af kvikmyndasíðu í sameiginlegan minningarstúf um Vincent Price, River Phoenix og Fellini, eins og þeir ættu eitthvað sameiginlegt. Að vísu voru þeir allir viðriðnir kvikmyndagerð og allir létust þeir í sömu vikunni, en þar með er það talið. Með fullri virðingu fyrir Price og hinum unga Phoenix. Þegar Chaplin lést, voru heilu síðurnar tileinkaðar minningu hans. En Chaplin var jú Chaplin. Já, Chaplin var Chaplin á sama hátt og Fellini var Fellini. Og það var aðeins einn Fellini, á sama hátt og aðeins var einn Eisenstein, einn Tarkowski, einn Bergman (með fullri virðingu fyrir Woody), einn Bunuel og einn Kurosawa (þótt ýmsir haldi að þeir séu eitthvað fleiri). Og þessi Fellini er nú allur. En eftir stendur stórbrotið og mikilfenglegt lífsstarf. Þetta er eins konar minningargrein um einn af mestu listamönnum aldarinnar, Federico Fellini.

Mig minnir að fyrsta Fellinimyndin sem ég hafi séð hafi verið "Mánudagsmyndin" Satyricon í Háskólabíói. Ég hef sennilega verið rétt ófermdur. Og ég er ekki viss um að ég hafi haldið þræði allan tímann, hvað þá skilið allt sem fyrir augu og eyru bar. En ég man þessa kvikmyndasýningu sem fáar aðrar. Og ég var ekki samur eftir.

Reynsla mín er á engan hátt einstök eða sérstök. Enda er nafn Fellinis allt eins hugtak, í kvikmyndasögulegu samhengi. Hugtak yfir ákveðinn frásagnarmáta, ákveðinn stíl. Við segjum stundum (og skrifum) að eitthvað sé fellinískt, og eigum þá til dæmis við að viðkomandi hlutur sé ýktur, jafnvel grófur (í jákvæðum skilningi), ögrandi, (einnig kynferðislega), hlægilegur og sorglegur í senn, fullur af andstæðum, átakanlega mannlegur. Því er stundum haldið fram að þrennt einkenni kvikmyndir Fellinis hvað mest, öll hans mestu verk séu ofin utanum þrjá meginþræði. Kirkjuna, fjölleikahúsið og konuna. Ég mun koma nánar að þessum stoðum síðar.

Ég nefndi að stíll Fellinis væri ýktur. Það er langt síðan hann kastaði raunsæinu, hugmyndafræði neorealistanna ítölsku, sannleika eftirstríðsáranna. Sá sem ýkir lýgur, í vissum skilningi. En á bak við stóryrðin getur leynst djúpur sannleikur, sannleikur um mannlegt eðli, sem á vissan hátt afhjúpar þann sem ber hann fram, í þessu tilfelli listamanninn, og segir þannig miklu meira um hann en tugir opinskárra viðtala. Fellini var aldrei opinskár um eigið líf og eigin tilfinningar, alla vega ekki við blaðamenn. Hann er meira að segja grunaður um að hafa logið þá fulla á stundum, alla vega voru svörin við þessum venjubundnu spurningum sjaldnast hin sömu í tveimur viðtölum, og oftar en ekki stönguðust þau á. "Æska mín, minningar, vonir og væntingar. Ég skáldaði allt saman vegna ánægjunnar af að segja öðrum frá." Sem sagt; Fellini laug. Var hann kannski einnig að ljúga þessu?

Fellini sagði æsku sína umlukta hjúpi gleymskunnar. Í raun myndi hann fátt fyrir tuttugu og tveggja ára aldur. Auðvitað laug hann því eins og öðru. Hann fjallaði hins vegar nokkrum sinnum um æsku sína í kvikmyndum, en þar sem þær eru að sjálfsögðu hreinn skáldskapur fer að verða illmögulegt að segja nokkuð marktækt um æsku hans og uppvöxt, eins og gjarnan er gert í minningargreinum. Nokkrar staðreyndir blífa þó: Hann fæddist í Rimini 20. janúar árið 1920 á Via le Dordanelli, eldri sonur farandsalans Urbano Fellinis og Idu Barbiani, sem var víst af fínum Rómarættum. Hann átti bróður og eina systur. Þrennt setti mestan svip á æsku hans: Sveitalíf, kaþólska kirkjan og fasisminn.

Sennilega hafa áhrif kirkjunnar vegið hvað þyngst. Kirkjudeildin í Rimini þótti hvað kaþólskust ítalskra kirkjudeilda á millistríðsárunum og í skugga hennar þrifust alls kyns hindurvitni og hjátrú. Galdrar og andalækningar settu svip á daglegt líf íbúanna og allra handa yfirnáttúrulegir atburðir einkenndu almenna umræðu. Ekki er ólíklegt að rekja megi áhuga Fellinis á því yfirnáttúrulega til uppvaxtaráranna í Rimini. Víst er að drengurinn hefur heyrt kynstrin öll af stórfenglegum ólíkindasögum, sem síðar hafa náð að þroska og örva ímyndunaraflið. Yfir og allt í kring hvíldi þungur armur kirkjunnar, órjúfanlegur hluti orðs og æðis, viðmiðunin mikla. Fellini sagðist trúaður af náttúrunnar hendi, en honum gekk að sama skapi illa að fella sig við kennisetningar kirkjunnar, hann var ekki maður bókstafsins. Líklegt er að hann hafi, eins og svo margir landar hans, átt í eins konar ástar-haturssambandi við páfadóminn. Skrautlegar og tilkomumiklar helgiathafnir veittu honum innblástur. Reyndar hefur kirkjan, bæði sú kaþólska og lúterska, alla tíð gefið listamönnum innblástur og mótað viðhorf þeirra og þroska, ­ altarið hefur orðið að leiksviði, helgiathöfnin að leikþætti.

Við getum haldið áfram að skipta lífi og verkum Fellinis í þrenningar. Þrenning sköpunarverksins, sirkus, konur og enn og aftur kirkjan. Ég hef þegar minnst lítillega á hlut kirkjunnar. Konur setja gífurlegan svip á lífsverk Fellinis. Og þvílíkar konur. Það er ekki nokkur leið að gera kvennafansinum viðeigandi skil í stuttri grein þar sem stiklað er á stóru. Ég held að sú kona hafi vart verið sköpuð sem á ekki fulltrúa í einhverri mynda Fellinis. Samt fer mest fyrir miklu konunum, þessum sem skarta öllum gersemum kvenlegs þokka nánast ótæpilega, hjá þeim (og á) er allt í efsta stigi, boldungsbryðjur, kjarnakonur. Konur sem gera karlmenn að umkomulausum brjóstvoðungum.

Það var svo sem eftir öðru hjá hinum unga Federico, að náttúran lét fyrst á sér kræla í faðmi ástríkrar barmmikillar nunnu sem lyktaði af kartöfluhýði (ef marka má orð meistarans). Þessi súrsæta tilfinning er dæmigerð fyrir innri átök flestra ungra sveina. Madonna eða mella. Þannig sá Fellini flestar konur. Við skulum þó ekki láta þessa einföldun raska ró okkar, því fleira hangir á spýtunni.

En fyrst er það fjölleikahúsið, sirkusinn. Það er ekki langsótt að líkja myndum Fellinis við fjölleikasýningu þar sem ægir saman alls kyns furðuverum, kúnstum og kynjum, göldrum og gjörningum. Mitt í ærslunum slær harmþrungið hjarta trúðsins, skeifan í förðuðu brosi. Fellini elskaði sirkusinn af barnslegri einlægni og þessa ást tjáði hann eftirminnilega í kvikmyndinni I Clowns, Trúðarnir, sem hann gerði árið 1970.

En hvar kviknaði áhuginn á kvikmyndum? Hæfileikar hins unga Fellinis lágu ekki hvað síst á sviði myndlistar, n.t.t. teiknilistar. Hann vann fyrir sér með að teikna frægar amerískar stjörnur fyrir kvikmyndahús og fékk ókeypis inn fyrir vikið. Þar sem þetta var á valdatíma fasista voru einungis leyfðar sýningar á ákveðnum tegundum mynda. Mest fór fyrir saklausum kómedíum. Þarna kynntist Fellini Marx-bræðrum, Laurel og Hardy, og hinum tragíkómíska Keaton.

Hugur Fellinis stóð ekki til langskólanáms. Yfirleitt skrópaði hann í skólanum, til að sinna áhugamálum sínum sem flest tengdust teikningum og myndskreytingum. Honum tókst þó að dröslast í gegnum menntaskóla. Árið 1939 fór hann til Rómar. Til að þóknast föður sínum skráði hann sig í lögfræði, en mætti aldrei. Hugur hans stóð einna helst til blaðamennsku, enda hafði hann rómantískar hugmyndir, ættaðar úr amerískum bíómyndum, um starf blaðamannsins. Hann vann fyrir ýmis blöð og tímarit um hríð, og fjallaði m.a. um kvikmyndir. Líf hans var fremur rótlaust, hann þvældist milli vinnuveitenda, skipti stöðugt um samastað, og kynntist fyrir bragðið ýmsum hliðum Rómar.

Um þetta leyti kynntist hann Aldo Fabrizi, þekktum gamanleikara sem síðar öðlaðist alþjóðlega frægð fyrir að fara með hlutverk prestsins í hinni eftirminnilegu mynd Rosselinis, Roma, citta aperta, Róm, yfirgefin borg. Fabrizi kom honum í kynni við allt helsta hæfileikafólkið í leikhúsheimi Rómar, og Fellini tók að skrifa skemmtiatriði fyrir vin sinn.

Fellini snéri sér aftur að fjölmiðlum, í þetta skiptið skrifaði hann gamanþætti fyrir útvarp. Hann skapaði persónurnar Cipo og Pallinu, sem hlustendur tóku brátt miklu ástfóstri við. Fellini langaði að kynnast fólkinu á bak við raddirnar, en varð fyrir vonbrigðum eftir fund með Cipo. Fundurinn með Pallinu átti hins vegar eftir að verða afdrifaríkur. Rödd Pallinu tilheyrði ljóshærðri stúdínu frá Bologna. Hún lagði stund á nútímabókmenntir og nafn hennar var Giulietta Masina. Það er skemmst frá því að segja að þau felldu fljótt saman hugi og eftir níu mánaða trúlofun voru þau pússuð saman 30. október 1943. Federico og Giulietta voru saman uppfrá því, í tæp fimmtíu ár, sem hjón og vinnufélagar, af ást og virðingu, í blíðu og stríðu. Hún skapaði nokkrar eftirmennilegustu kvenpersónur á ferli bónda síns og hún lifði hann. Þeim fæddist eitt barn, en það dó í fæðingu.

Í júní, árið 1945, eftir að Róm hafði verið frelsuð, stofnaði Fellini "The Funny Face Shop". Viðskiptavinirnir voru aðallega amerískir hermenn sem þarna fengu gerðar af sér skopmyndir auk þess sem eigendurnir stóðu fyrir alls kyns uppákomum. Fellini hefði eflaust getað tryggt sér fjárhagslega örugga framtíð, ef hann hefði ekki hitt Roberto Rosselini, leikstjórann víðfræga, og í kjölfar þess fundar misst áhugann á frekari verslunarrekstri. Rosselini vildi fá Fellini til að skrifa með sér handrit að stuttri mynd um klerkinn Don Giuseppe Morosini sem var líflátinn af nasistum. Fellini varð nú ljóst, að kvikmyndagerð var það tjáningarform sem hentaði honum best, og stuttmyndin um morðið á prestinum átti eftir að taka gagngerum breytingum, verða að einhverju frægasta meistaraverki ítalska nýraunsæisins, Roma, citta aperta, brautryðjandaverki sem Rosselini leikstýrði eftir handriti sínu, Fellinis og Sergio Amidei. Fellini var aðstoðarleikstjóri.

Hér er vert að staldra við. Neorealisminn ítalski. Það er ekki hægt að rekja gang mála lengra, án þess að geta hans að einhverju. Fáar hreyfingar innan kvikmyndagerðar hafa orðið jafnþekktar og haft jafnmikil áhrif og hreyfing sú sem ítalski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Cesare Zavattini hrinti af stað undir lok stríðsins. Hreyfing er e.t.v. ekki rétta orðið, alla vega ekki það eina rétta. Allt eins væri hægt að tala um bylgju eða straum. Zavattini kom orðum að takmarknu: "Það sem ég hef mestan áhuga á er að fara út á götu og standa augliti til auglitis við sannleikann." Þetta þýddi í raun að kvikmyndagerðarmaðurinn fór útúr myndverinu, á fund fólksins í landinu. Alþýðan, kjör hennar og hagir, líf úthverfanna, draumar litla mannsins. Kvikmyndagerð varð rannsókn á þjóðfélaginu. Nú átti að sýna lífið eins og það var, fallegt, ljótt, fegurð ljótleikans. Merkustu myndir þessa tímabils eru m.a. I bambini ci guardano (1942) eftir De Sica, Ossessione (1942) eftir Visconti og verk Rosselinis , Roma, citta aperta, Paisa og Germania, anno "ero. Bylgja neorealismans reið yfir á u.þ.b. fimm árum, sem er ekki langur tími, en afleiðinganna varð víða vart, og lengi, meira að segja í Hollywood.

En víkjum aftur að Fellini. Fellini átti eftir að fá mikla skólun, bæði sem aðstoðarleikstjóri og sem handritahöfundur (Rosselinis og annarra leikstjóra neorealismans). Árið 1946 ber fundum Fellinis og Tullio Pinellis saman. Fyrsta handritið sem þeir skrifuðu saman var fyrir leikstjórann Alberto Lattuada, Senza pieta (1947), og Fellini var aðstoðarleikstjóri myndarinnar. Undir lok fimmta áratugarins áréð Fellini loks að stíga stóra skrefið, leikstýra sinni fyrstu mynd.

Hann stofnaði fyrirtæki ásamt Lattuada, Guieliettu Masina og nokkrum öðrum. Fyrsta mynd fyrirtækisins, og þar með einnig Fellinis, Luci del varieta, Sviðsljós (?), var svo frumsýnd árið 1950. Myndin fékk vinsamlegar viðtökur gagnrýnenda, en enga sérstaka aðsókn.

Þannig var að annar snillingur ítalskrar kvikmyndalistar, Michaelangelo Antonioni, fékk hugmynd að kvikmynd, og réð vinina Fellini og Pinelli til að skrifa handrit að henni. Honum líkaði hins vegar ekki alls kostar við afraksturinn og hætti því við. Handritið gekk nú manna á millum, og enginn var tilbúinn að stökkva á það, fyrr en einn framleiðandinn fékk þá hugmynd að vísa þessu bara aftur til föðurhúsanna, fá annan handritshöfundinn til að reka smiðshöggið á verkið. Ekki leið á löngu þar til önnur mynd leikstjórans Fellinis, Lo sceicco bianco, Hvíti sheikinn, var frumsýnd í Fenyjum (árið 1952).

Viðtökurnar voru ekki ýkja glæsilegar. Myndin var dregin út úr almennri dreifingu nokkrum dögum eftir frumsýningu. Hún fékk ekki uppreisn æru fyrr en eftir að Fellini hafði náð alþjóðlegri frægð með meistaraverkinu La Strada, árið 1954.

Fellini vildi hefja tökur á La Strada strax árið 1953, en enginn fékkst til að framleiða hana, slík var tiltrú framleiðenda á hinum unga leikstjóra og verkum hans. Um þessar mundir bættist hins vegar þriðji hlekkurinn við hugmynda- og handritatvíeykið Fellini-Pinelli, Ennio Flaiano, og þar með var það fullkomnað, orðið að þrenningu. Samstarf þremenninganna stóð svo gott sem óslitið til ársins 1969 og gat af sér flestar frægustu (og sumpart bestu) myndir meistarans. Nægir þar að nefna La Strada (1954), Le notti di Cabiria (1957), La dolce vita (1960), 8 (1963) og Guilietta degli spiriti (1965).

Það handrit félaganna sem næst rataði alla leið upp á hvíta tjaldið, var handrit sem aðallega var byggt á æskuminningum Fellinis og Flaianos, I vitelloni, Slæpingjarnir. I vitelloni, sem rekur lífsmynstur fimm iðjuleysingja, var vel tekið á Ítalíu og varð fyrst mynda Fellinis til að komast í alþjóðlega dreifingu.

Hingað til hafði það ekki gengið þrautalaust fyrir Fellini að finna framleiðendur að myndum sínum. Áður hefur verið minnst á erfiðleika við að finna framleiðanda að La Strada. Það er því eftirtektarvert að tveir af þekktustu framleiðendum Ítalíu, Carlo Ponti og Dino De Laurentis, skyldu á endanum verða til þess að framleiða meistarastykkið La Strada.

La Strada er ljúfsárt ævintýri um fjöllistaparið Gelsominu og Zampano, sem ferðast um og sýna listir sínar á götum úti. Hann stór og mikill, hún lítil og fíngerð, hann hávær, hún þögul, á milli þeirra brostinn strengur sem kaldhæðni örlaganna strengdi endur fyrir löngu.

Ekkert sameinar þessar tvær umkomulausu mannverur nema örfá tæki og tól, einskisverð, nema til að glepja fávísan almúgann. Í þeirra heimi er allt í plati. Það eru þau Guilietta Masina og Antony Quinn (sem þá var tiltölulega óþekktur) sem túlka parið af fádæma snilld. Fellini hafði alltaf haft eiginkonu sína í huga fyrir hlutverk Gelsominu, og sjálfur sagðist hann hafa þróað persónuna út frá ýmsum töktum eiginkonunnar, eins og til að mynda þeim vana hennar að brosa með lokaðan munninn. Bros Gelsominu, í senn einlægt, barnslegt og trúðslegt, bræddi bíógesti um allan heim.

Almennt var álitið að La Strada væri stórsigur, ekki einungis fyrir leikstjórann, heldur ekki síður fyrir leikarana. Leikaravalið var hins vegar ekki jafnsjálfgefið og mátt hefði ætla. Fellini þurfti að berjast fyrir báðum aðalleikurunum. De Laurentis vildi sjá Burt Lancaster og Silvanu Mangano (gott ef hann var ekki giftur henni) í aðalhlutverkunum. Árangur leikstjórans þótti hins vegar færa fyrstu sönnur á hæfileika hans til að velja í hlutverk, "kasta" eins og við segjum á vondu máli.

La Strada er einn af gullmolum kvikmyndasögunnar, mynd sem hægt er að skrifa tugi blaðsíðna um, full af mannelsku og einstakri hlýju, gáska og gleði, og ekki síst sorg. Mynd sem ein og sér hefði haldið nafni Fellinis á lofti um ókomna framtíð. Hún var frumsýnd í Feneyjum 6. september 1954 og innan tveggja ára höfðu aðstandendum hennar áskotnast 148 verðlaun og viðurkenningar, þar á meðal Óskar fyrir "bestu erlendu mynd".

Það er ekki hægt að fjalla af einhverju viti um Fellini án þess að nefna nafn annars af nánustu samstarfsmönnum hans, náins vinar sem endalaust gat gefið leikstjóranum innblástur og lyft hugmyndum hans í æðra veldi. Nino Rota samdi tónlist við öll veigamestu verk Fellinis, tónlist sem hvort tveggja í senn tengdist myndunum órjúfanlegum böndum og lifði sjálfstæðu lífi. Samband þeirra var það náið, að segja má að Rota hafi náð að túlka innstu og viðkvæmustu tilfinningar kvikmyndaleikstjórans í tónum, ljá þeim nýja, víðari sögn. Rota samdi tónlist fyrir fleiri meistara á sviði kvikmyndagerðar, eins og t.a.m. Francis Ford Coppola. Hver kannast ekki örlagaþrungið höfuðstefið úr myndunum um Guðföðurinn?

Við erum komin að Il bidone, Svindlinu, sem frumsýnd var árið 1955. Svindlið fékk allt aðrar og verri viðtökur en La Strada. Ástæðurnar eru eflaust margar. Fellini kom næstum því aftan að aðdáendum sínum með því að birtast með tragedíu þegar allir áttu von á kómedíu. Hann vildi upphaflega fá Humphrey Bogart í aðalhlut-verkið, sættist á endanum á Broderik Crawford, en lenti í erfiðleikum með hann, þar sem Crawford var illa haldinn af drykkjusýki um þær mundir. Helsta skýringin á misgengi Svindlsins er þó líklegast sú, að í hugum flestra stóðst hún ekki samanburð við La Strada.

Næsta mynd hans, Le notti di Caberia, Nætur Cabíríu, fékk hins vegar prýðisviðtökur, Fellini annan Óskar og Guilietta Masina, sem lék titilhlutverkið, leikaraverðlaun í Cannes. Að vísu átti Anna Magnani að leika Cabíríu , en hún hafði ekki áhuga. Cabíría þessi er gleðikona, hreinlynd og saklaus (já, raunverulega), sem býr í kofaræfli í úthverfi Rómar. Hún á einhvern veginn ekki samleið með stallsystrum sínum, reynsla hennar og upplifanir eru aðrar. Enda fer svo að hún kynnist meira að segja ástinni, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hér eru þau Fellini-hjónin enn á ný í essinu sínu, og meðal samstarfsmanna þeirra í þetta skiptið var góðkunningi, skáldið og leikstjórinn Pier Paolo Pasolini. Pasolini lóðsaði þau í gegnum litrof mannlífs Rómarborgar, sýndi þeim gegndarlaust óhóf og nauðþurftir, vellystingar og vanefni, auk þess sem hann var ábyrgur fyrir rétt talaðri rómversku, þ.e. að mállýska persóna myndarinnar væri rétt.

Vatíkanið hefur einatt fylgst vel með á menningarsviðinu og sjaldnast látið sitt eftir liggja í umræðunni. Ekki höfðu menn þar á bæ velþóknun á næturlífi Cabíríu. En þeir höfðu svo sem ekki séð neitt enn, því næsta sending frá Federico Fellini fór vægast sagt illa í andlegu yfirvöldin, og ekki einungis þau. Það sem í dag virðist fremur prúðmannlega gerður heimildarskáldskapur um lífsleiða Rómarbúa í leit að lífstilgangi, olli á sínum tíma einhverjum mesta menningarskjálfta sem riðið hefur yfir Ítalíu í seinni tíð. Vatíkanið fylltist heilagri reiði, þingið ærðist. Skjálftanum olli kvikmynd með saklausu nafni, Hið ljúfa líf. La dolce vita.

Hugmyndin að La dolce vita varð til þegar Fellini vann að undirbúningi Nátta Cabíríu , n.t.t. þegar hann og Pasolini fetuðu hála braut rómversks næturlífs, sérstaklega í námunda við Via Veneto, götu gleðinnar. Þar komst Fellini í kynni við lífsleiða miljónamæringa og skemmtanasjúka lukkuriddara. Einnig kynntist hann blaðamanni og ljósmyndara sem nærðist á misgengi fræga og fína fólksins. Þar var komin fyrirmynd að aðalpersónu myndarinnar, slúðurfréttamanninum Marcello, sem Marcello Mastroianni, þá lítt þekktur, túlkar svo eftirminnilega.

La dolce vita var langviðamesta uppátæki Fellinis til þessa, enda er hún lengst mynda hans, 179 mín. að lengd.

Fellini lýsti þessu afkvæmi sínu sem heimildarmynd um lífið. Hann hefði svo sem einnig getað sagt "skemmtanalífið", þótt slíkt orð segði fráleitt allt um innihald myndarinnar. Við fylgjumst með næturrölti slúðurfréttaritarans Marcello, samskiptum (fremur samskiptaleysi) hans við móðursjúka unnustu, daðri hans við heimsfræga kvikmyndastjörnu og förum með honum í nokkur gáfuleg en vonlaus partí.

La dolce vita er sannarlega ekki bjartsýn mynd eða uppörvandi, enda má segja að afstaða höfundar sé klár. Ýmsir hafa litið á myndina sem eina alls herjar móralíseringu (siðapredikun), meðan aðrir hafa ásakað Fellini um að velta sér uppúr spillingu og óhamingju ákveðinna þjóðfélagshópa.

La dolce vita þótti óhemju djörf og óskammfeilin á sínum tíma. Þegar hún var frumsýnd, árið 1960, brugðust flestir áhorfenda ókvæða við, púuðu og létu öllum illum látum, það var jafnvel hrækt á leikstjórann og hann sakaður um að hafa dregið Ítalíu uppúr forinni. Sovéski sendiherrann á Ítalíu sá myndina hins vegar í öðru ljósi. Hann kyssti "félaga" Fellini kammeradakossi, því hann sá á tjaldinu hina sönnu ásjónu kapítalismans. Kirkjan réð sér vart af reiði og á þingi ræddu stjórnmálamenn um það af fullri alvöru að leggja blátt bann við frekari sýningum á ósómanum. En ósóminn varð ekki stöðvaður; verðlaun í Cannes og Óskar. Siðapostulum Ítalíu var gefið langt nef.

La dolce vita er löng mynd, jafnvel of löng. Og hún er misgóð. Hún nær að vera frábær á köflum, en þar sem boðskapur verksins er að mestu kominn til skila eftir venjulega bíómyndalengd, er ekki laust við að hún þynnist í annan endann.

Það er ljóst að Fellini þótti alla tíð vænt um La dolce vita og varði hana einatt. Hann gat ekki stillt sig um að hæðast að þeim sem létu hæst í vandlætingu sinni, í stuttri mynd, Le tentazioni del dottor Antonio, Freistingu Doktors Antonios, sem var hluti Fellinis af samvinnuverkefni fjögurra ítalskra leikstjóra, De Sica, Viscontis, Monicelli, og svo auðvitað Fellinis. Heildarverkið nefndist BOCCACCIO 70. Aðalpersóna Fellinis, Doktor Antonio, er siðapostuli sem fellur fyrir risastóru auglýsingaskilti, n.t.t. mynd af kynþokkafullri konu (Anitu Ekberg). Þessi bráðskemmtilega og persónulega satíra varð fyrsta litmynd Fellinis.

Fellini lét litina lönd og leið í næsta verki, en hann hélt áfram að vera persónulegur. "Sjálfsfróun snillings" var ein af mörgum athyglisverðum lýsingum á næstu kvikmynd meistarans. Sjálfsfróun, sennilega vegna þess að kvikmyndin fjallar um kvikmyndagerð og aðalpersónan er leikstjóri í hugmynda- og tilvistarkreppu. (Mastroianni túlkar hann eins og aðrar persónur sem líkjast leikstjóranum sjálfum). Persónuleg, vegna þess að Fellini þorði að horfast í augu við, og vinna með, eigin vanmátt. Titillinn er sjálfsævisögulegur. 8. Fellini taldi sig hafa gert 7 fullgildar myndir, 3 töldust hálfar, ergo; átta og hálf mynd.

8 er tvímælalaust með merkari myndum Fellinis. Þrátt fyrir að margir kvikmyndaleikstjórar hafi farið flatt á því að fjalla um svo nákominn hlut sem starf þeirra er, tekst Fellini að sigla heilu fleyi allt á leiðarenda, og mörg atriðanna eru stórbrotin (Nota Bene) á tjaldi.

Það er með 8 eins og svo margar aðrar myndir Fellinis, að sá sem reynir að skilja þær til fullnustu mun aldrei fá þeirra notið. Við reynum ekki endilega að skilja tónlist, við annaðhvort njótum hennar eða njótum ekki. Þeir voru margir sem urðu til að njóta 8 og verðlaunin helltust yfir Fellini, þ.á m. enn einn Óskarinn. Árið 1982 kusu nokkrir af frægustu kvikmyndagagnrýnendum heims bestu myndir allra tíma. 8lenti í fimmta sæti á lista þeirra.

Með 8 breyttust vinnuaðferðir Fellinis gagnvart leikurum. Hann hætti að gefa leikurum nákvæmar upplýsingar, og það fór að heyra til undantekninga ef þeir fengu að sjá meira en nokkrar blaðsíður í handriti. Þetta olli mörgum leikaranum hugarangri, sér í lagi stjörnum, því þetta þýddi að leikarinn, sem varla vissi í hvaða mynd hann var, varð að vera tilbúinn til þess að treysta leikstjóranum í fullkominni blindni. Þetta fyrirkomulag hentaði hins vegar leikmönnum ágætlega. (Fellini var ávallt veikur fyrir fólkinu af götunni) og losaði leikstjórann við langar gáfulegar umræður sem að hans mati flæktu meira en þær einfölduðu. Fellini hafði tekið sér óskert alræðisvald á tökustað.

8 var erfið í fæðingu. Fellini hafði sjálfur átt í eins konar tilvistarkreppu sem listamaður. Hann hafði sökkt sér niður í sálfræðirannsóknir og gengist undir sálgreiningu, án þess að fá svör við vandamálum sínum. Í gegnum Ernst Bernhard, nemanda Carls Gustavs Jung, hafði hann kynnst fræðum meistarans og fyllst áhuga á þeim. Niðurlag í næstu Lesbók.

Höfundur er kvikmyndaleikstjóri.

1)

Frederico Fellini og kona hans, Giulietta Masina, sem jafnframt vr aðalleikkona í mörgum mynda hans.

2

Úr Roma, citta aperta, frá 1945, sem talin er fyrsta mynd Fellinis. Þetta var brautryðjandaverk í ítölsku nýraunsæi. Rossellini var leikstjóri, en Fellini aðstoðarleikstjóri.

3)

Anthony Quinn og Giulietta Masina í La strada, en með henni náði Fellini alþjóðlegri frægð 1954. Myndin er talin meðal gullmola kvikmyndasögunnar.

4)

Við tökur á La strada. Giuletta Masina dansar.

5)

Sena úr Il bidone, Svindlinu, 1955.

6)

La dolce vita, Hið ljúfa líf - var frum sýnd 1960 og þótti óhemju djörf og óskammfeilin. Hér eru Marcello Mastroianni og Anita Ekberg í hlutverkum sínum.

8 telst með merkustu kvikmyndum Fellinis. Með þessari mynd breyttust vinnuaðferðir hans.