Að vernda bílastæði Helga Bollason Thoroddsen "Um þessar mundir er farin ómakleg herferð gegn væntanlegu Hæstaréttarhúsi við Lindargötu, byggingu sem mun bæði verða glæsileg og bæta umhverfi sitt." Um þessar mundir er farin ómakleg herferð gegn væntanlegu...

Að vernda bílastæði Helga Bollason Thoroddsen "Um þessar mundir er farin ómakleg herferð gegn væntanlegu Hæstaréttarhúsi við Lindargötu, byggingu sem mun bæði verða glæsileg og bæta umhverfi sitt." Um þessar mundir er farin ómakleg herferð gegn væntanlegu Hæstaréttarhúsi við Lindargötu, byggingu sem mun bæði verða glæsileg og bæta umhverfi sitt.

Miðaldabæir Evrópu voru umkringdir borgarmúrum sem vernduðu íbúana fyrir óvinaherjum og ræningjum. Borgarmúrarnir voru bæjunum jafnframt fjötrar. Þeir hindruðu útvíkkun bæjanna þegar íbúunum fjölgaði. Því þurfti að leita annarra ráða, þétta byggðina í hæð og breidd. Þannig mynduðust bæir þar sem hver fermetri var gjörnýttur. Í dag eru þessir miðaldabæir miðbæjarkjarnar margra stórborga Evrópu og í hugum flestra ímynd hinnar sönnu miðborgar.

Í Reykjavík var byggðaþróunin allt önnur. Hér voru aðstæður aðrar, engir borgarmúrar og fólksfjölgunin hefur átt sér fyrst og fremst stað á bílaöld. Reykjavík stækkaði því hömlulaust og miðbærinn stóð eftir gisinn og sundurlaus, fullur af illa nýttum og auðum lóðum.

Á horni Ingólfsstrætis og Lindargötu gegnt Arnarhváli er auð lóð sem nú er notuð sem bílastæði. Þarna er gat í borgarmynstrinu. Landsbókasafnið og Þjóðleikhúsið gjalda þessa. Þau vantar kjölfestu sem kæmi með byggingu eins og væntanlegu Hæstaréttarhúsi. Einnig yrðu Lindargata og Ingólfsstræti heillegri götur. Bæði arkitekt Landsbókasafnsins, Magdahl Nilsen, og húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, arkitekt Þjóðleikhússins, sem einnig var skipulagshöfundur, gerðu ráð fyrir húsi á þessum stað.

Andstæðingar væntanlegrar byggingar segja að í hennar stað eigi að koma töfralausnin, torg sem allt á að bæta. Aðstæður á umræddri lóð bjóða ekki upp á áhugavert torg. Það yrði illa afmarkað af Arnarhóli til vesturs og með hávaðasamar götur á tvo vegu. Stærð "torgsins" yrði í engu samræmi við þann fjölda sem það myndi nota. Inngangur Þjóðleikhússins og Landsbókasafnsins snúa að Hverfisgötu en ekki að umræddri lóð. "Torgið" hefði því lítil tengsl við Þjóðleikhúsið og Landsbókasafnið og gesti þeirra. Arnarhóll og fyrirhugaður garður á horni Smiðjustígs og Hverfisgötu fullnægja fyllilega þörfinni fyrir útirými á þessu svæði sem annars er ekki fjölfarið nema af bílum.

Garðurinn sem myndast á milli væntanlegs Hæstaréttarhúss og Landsbókasafnsins er mun betra útirými en umrætt torg. Stærðin er hæfileg og garðurinn er í meira skjóli fyrir umferð og vindum en ella. Þarna gæti fólk virt fyrir sér norðurhlið Landsbókasafnsins í ró og næði. Fjarlægðin á milli væntanlegs Hæstaréttarhúss og Landsbókasafnsins er sú sama og fjarlægðin á milli framhliðar Landsbókasafnsins og húsanna hinum megin við Hverfisgötu. Það er því út í hött að segja að væntanlegt Hæstaréttarhús skyggi á Landsbókasafnið.

Skoðanakannanir meðal almennings um mál sem hann hefur haft litla möguleika á að kynna sér geta verið varhugaverðar. Það eina sem heyrst hefur í þessu máli eru upphrópanir eins og menningar- og skipulagsslys án þess að það sé rökstutt á nokkurn hátt.

Hætta er á að vopnin snúist í höndum þeirra sem tala um menningarslys í þessu máli, því nú er talað um að innrétta Landsbókasafnið fyrir Hæstarétt. Safnahúsið getur engan veginn tekið við svo sérhæfðri starfsemi án stórra breytinga. Þá fyrst verður menningarslys þegar innviðir safnsins verða látnir fjúka.

Oftar en ekki mæta allar breytingar á miðbæ Reykjavíkur mikilli andstöðu almennings. Fólk er hrætt við allt nýtt, vill halda í hlutina eins og þeir voru, slík íhaldssemi á oft rétt á sér. Eins og sýnt hefur verið fram á hér á undan hníga mörg rök í þá átt að nýbygging Hæstaréttar verði bæjarprýði og muni jafnframt bæta heildarsvip byggðarinnar umhverfis.

Höfundur er arkitekt.

Helgi Bollason Thoroddsen