LEIÐARI Afskipti Rússa af Bosníu-deilunni í Rússlandi hafa unnið merkan sigur á vettvangi alþjóðasamskipta með því að fá Bosníu-Serba til að flytja þungavopn sín á brott úr fjöllunum umhverfis Sarajevo.

LEIÐARI Afskipti Rússa af Bosníu-deilunni

í Rússlandi hafa unnið merkan sigur á vettvangi alþjóðasamskipta með því að fá Bosníu-Serba til að flytja þungavopn sín á brott úr fjöllunum umhverfis Sarajevo. Með þessu frumkvæði hafa Rússar í senn minnt á að Rússland er, þrátt fyrir efnahagsörðugleika og upplausn, enn stórveldi sem taka þarf tillit til á sviði evrópskra öryggismála og tryggt stöðu sína í viðræðum þeim sem framundan eru um lausn á Bosníu-deilunni. Fregnir þess efnis að Bosníu-Serbar séu teknir að flytja vopnabúnað sinn og umsáturslið frá Sarajevo hafa vakið vonir víða um heim um að loks muni takast að lina þjáningar borgarbúa en þær fela einnig í sér ákveðin þáttaskil á vettvangi utanríkisstefnu hins nýja Rússlands; í fyrsta skipti frá því Sovétríkin liðu undir lok hafa Rússar haft bein afskipti af deilumáli á alþjóðavettvangi.

Talsmenn Atlantshafsbandalagsins (NATO) leggja áherslu á að hótunin um að loftárásum verði beitt til að aflétta umsátrinu um Sarajevo standi enn. Ástæða er þó til að ætla að Bosníu-Serbar muni hverfa á brott með þungavopn sín áður en frestur sá sem NATO hafði gefið þeim rennur út á miðnætti á sunnudag. Verði raunin sú getur Atlantshafsbandalagið fagnað áfangasigri þar eð efasemdir um trúverðugleika bandalagsins og samstöðu aðildarríkja þess fá þá ekki lengur staðist. Hótunin um loftárásir mæltist að sönnu misjafnlega fyrir og margir höfðu efasemdir um að hún væri nægilega vel ígrunduð. Þær efasemdir má auðveldlega rökstyðja en skili hótunin um hernaðaríhlutun í nafni mannúðar tilætluðum árangri, eins og virðist ætla að verða raunin, hefur í senn tekist að draga verulega úr líkum á áframhaldandi grimmdarverkum í Sarajevo auk þess sem ætla má að Rússar muni framvegis hafa bein afskipti af þróun Bosníu-deilunnar.

Á dögum kalda stríðsins þegar kommúnistar höfðu alræðisvald í Sovétríkjunum var það eitt helsta kappsmál lýðræðisríkjanna að berjast gegn auknum ítökum þeirra víða um heim. Þetta gat af sér heimsskipulag, sem einkenndist af því að áhrifasvæði voru mörkuð og tryggð með vopnum og hótunum um beitingu þeirra. Þetta skipulag hefur nú riðlast, þótt því fari fjarri að það heyri sögunni til, þar sem aðrir hagsmunir en þeir sem lúta beint að yfirráðum og útþenslu ráða ferðinni. Hinn slavneski menningarheimur tengir Rússa og Serba en þau bönd eiga menn í vestri erfitt með að skilja til fullnustu enda eru þau grundvölluð á dýpstu þáttum tungu, trúar og arfleifðar. Því lá í raun ávallt fyrir að stjórnvöld í Rússlandi myndu ekki sætta sig við einhliða afskipti vestrænna ríkja af þróun mála í Bosníu. Þegar ljóst varð að Rússar gátu ekki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna afstýrt yfirvofandi loftárásum á stöðvar Serba ákváðu ráðamenn í Moskvu því að freista þess að höggva á hnútinn. Rangt væri að túlka þessa ákvörðun á þann veg að Rússar hafi með þessu á einhvern hátt lagt blessun sína yfir grimmdarverk Bosníu-Serba. Þá felur það einnig í sér grófa einföldun að hafa þetta frumkvæði stjórnarinnar í Moskvu til marks um vaxandi áhrif þjóðernisöfgamanna í Rússlandi. Miklu fremur ber að líta á þetta sem viðbrögð slavnesks landveldis í Evrópu sem komið var að fótum fram en tekið er til við að skilgreina nýja utanríkisstefnu.

Vitanlega móta ótalmargir þættir hina nýju utanríkisstefnu Rússlands en enginn efi er á að rætur hennar liggja í hinum slavneska menningarheimi. Þetta mótar afstöðu Rússa til nokkurra þeirra ríkja sem áður heyrðu Sovétríkjunum til. Í Hvíta-Rússlandi hefur öllum hugmyndum um sjálfstæði í raun verið hafnað og Rússar geta margir hverjir ekki litið á Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Hugmyndin um slavneskt bandalag þessara þriggja þjóða ristir djúpt í rússneskri þjóðarsál. Það er í ljósi þessa sem skilja ber afskipti Rússa af málefnum Úkraínu, deilur ríkjanna um kjarnavopn, Svartahafsflotann og yfirráð yfir Krím-skaga. Það er yfir allan vafa hafið að þessi átök, sem enn sem komið er hafa farið fram með friðsamlegum hætti, kunna að leiða til þess að Úkraína klofni í tvennt. Óvissan sem þar ríkir er mikið áhyggjuefni.

Með sama hætti telja rússneskir ráðamenn að þeim beri skylda til að standa vörð um hagsmuni þeirra Rússa sem búa nú utan föðurlandsins í ríkjum þeim sem áður heyrðu Sovétríkjunum til. Þessi ríki eru að sönnu misjafnlega mikilvæg fyrir Rússland með tilliti til hagsmuna á sviði öryggis- og efnahagsmála en sú óvissa sem einkennir rússnesk stjórnmál og sú stöðuga valdabarátta sem þar fer fram getur orðið til þess að gera málefni þessara minnihlutahópa sérlega eldfim.

Kenningin um hið slavneska bandalag á sér einnig djúpar rætur í menningarheimi Serba. Stríðið í Bosníu heyja Serbar í raun á grundvelli þessarar hugmyndar um samstöðu og þjóðareiningu. Þótt oft hafi verið grunnt á því góða í samskiptum þjóðanna sem þar búa á hugmyndin um slavneskt bandalag í suð-austurhluta Evrópu rætur að rekja allt til upphafs 19. aldar. Serbar hafa ávallt litið á sig sem slavneskt stórveldi í þessum hluta álfunnar og það er af þessum sökum sem svo algjört miskunnarleysi einkennir átök þeirra og Bosníu-múslima.

Serbar líta því á Rússa sem bræðra- og vinaþjóð og þá staðreynd geta ráðamenn á Vesturlöndum ekki hundsað. Hótanir um hernaðaríhlutun vestrænna ríkja hafa þannig orðið til þess að kalla fram viðbrögð af hálfu rússneskra stjórnvalda. Hafi einhverjir áhyggjur af afskiptum Rússa í Bosníu-deilunni er orðið um seinan að snúa þróuninni við. Vilji ríki heims freista þess að binda enda á átökin í Bosníu með því að fá fram pólitíska lausn á deilumálum þjóðanna sem þar búa má búast við að Rússar gegni þar lykilhlutverki.