Íslandsbankamótið Dagur heimamanna ÓLAFUR Kristjánsson, stigalægsti keppandinn á Íslandsbankamótinu á Akureyri, vann Margeir Pétursson stórmeistara í þriðju umferð mótsins í gær.

Íslandsbankamótið Dagur heimamanna

ÓLAFUR Kristjánsson, stigalægsti keppandinn á Íslandsbankamótinu á Akureyri, vann Margeir Pétursson stórmeistara í þriðju umferð mótsins í gær. Hinn heimamaðurinn og sá næststigalægsti í hópi keppenda, Gylfi Þórhallsson, vann Þröst Þórhallsson, alþjóðlegan meistara.

Rúnar Sigurpálsson hjá Skákfélagi Akureyrar sagði í samtali við Morgunblaðið um skák Margeirs og Ólafs, að Margeir, sem hafði hvítt, hefði fengið betra tafl í upphafi en í tímahraki hefði Ólafur teflt feiknavel og tryggt sér sigur. Rúnar sagði að aðstandendur mótsins vonuðust til að hinn góði árangur heimamanna í gær yrði m.a. til þess að auka áhuga áhorfenda á mótinu en mikil barátta hefði verið í skákum á mótinu, sem sæist af því að af 18 skákum hefði aðeins 5 lokið með jafntefli.

Önnur úrslit í þriðju umferð urðu þau að Ivan Sokolov vann Henrik Danielsen, jafntefli gerðu Björgvin Jónsson og Klaus Berg, Helgi Ólafsson og Van Wely og Jóhann Hjartarson og Nick DeFirmian.

Eftir þrjár umferðir er Sokolov efstur með 3 vinninga en Jóhann og Van Wely hafa tvo og .

Í fjórðu umferð á sunnudag tefla Van Wely og Jóhann, Sokolov og Margeir, Ólafur og DeFirmian, Gylfi og Björgvin, Danielsen og Þröstur og Berg og Helgi.