HANDKNATTLEIKUR Víkingur og ÍBV berjast um bikarmeistaratitilinn í kvennaflokki í dag Reynsla og stemmning LIÐ Víkings og ÍBV mætast í úrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik í dag. Leikurinn fer fram í íþróttahúsinu Austurbergi og hefst kl. 17.

HANDKNATTLEIKUR Víkingur og ÍBV berjast um bikarmeistaratitilinn í kvennaflokki í dag Reynsla og stemmning

LIÐ Víkings og ÍBV mætast í úrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik í dag. Leikurinn fer fram í íþróttahúsinu Austurbergi og hefst kl. 17.

íkingsliðið er talið sigurstranglegra og stúlkurnar úr Fossvogsdalnum hafa tvívegis í vetur sigrað mótherja dagsins í deildinni, 27:20 og 21:17. Ef skoðuð eru úrslit úr viðureignum liðanna síðustu ár, frá því haustið 1990, segir tölfræðin að líkur á sigri ÍBV séu 15,38% en 74,62% á að Víkingur sigri. Og líkleg úrslit leiksins - ef hægt er að taka svo til orða - miðað við meðalskor úr leikjum liðanna síðustu árin er 22:17 fyrir Víking. En talsmenn beggja liða leggja ríka áherslu á að þessar tölur skipti engu máli í dag.

"Það er gaman að tölunum en þær eru liðin tíð. Nú er framundan einn úrslitaleikur og ég á von á jöfnum og skemmtilegum leik þar sem allir leggja sig fram," sagði Theodór Guðfinnsson, þjálfari Víkings. Hann spáir vitaskuld Víkingssigri, og var á því að lokatölurnar yrðu 19:18. Andrea Atladóttir, fyrirliði ÍBV, sem þekkir raunar mjög vel til Víkingsliðsins því hún lék með því keppnistímabilin 90-91 og 91-92, tók í sama streng og Víkingsþjálfarinn: "Pappírarnir skipta ekki máli þegar komið er í bikarúrslitaleik. Það er stemmningin á þeim degi sem skiptir máli. Við höfum allt að vinna og pressan verður á þeim," sagði Andrea, sem spáir liði sínu 21:19 sigri.

Reynsla og stemmning

Theodór kvaðst aðspurður telja það helsta veikleika Eyjaliðsins hve reynslulítið það væri. Styrkur Víkinga væri aftur á móti helstur sá hve leikreynt liðið væri. "Við erum með margar landsliðsmanneskjur sem vita hvað þarf að leggja á sig í svona mikilvægum leik." Andrea tók undir það að reynsluleysi Eyjaliðsins væri helsti veikleiki þess, "en styrkleiki okkar er að við erum mjög mikið stemmningslið. Við erum eiginlega eins og tvö ólík lið. Það sýndi sig í úrslitakeppninni í fyrra, þegar enginn bjóst við neinu, hvað við getum ef stemmningin er góð."

Þess má geta að tveir leikmanna ÍBV léku til úrslita í bikarkeppninni í fyrra. Það eru Stefanía Guðjónsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir, sem léku með Stjörnunni gegn Val.

Leikurinn verður í beinni útsendingu ríkissjónvarpsins.

Morgunblaðið/Þorkell

Komdu með hann!

HALLA María Helgadóttir, leikmaður Víkings, til vinstri, og Andra Atladóttir, fyrirliði ÍBV, togast um bikarinn sem keppt verður um í fyrsta skipti í dag. Tölfræðin segir Víkinga mun sigurstranglegri, en Eyjamenn eiga stemmningslið sem á góðum degi gæti komið á óvart.