Lovísa Aðalbjörg Egilsdóttir - viðbót Líkt og rótföst angan er ímynd þín í hjarta mér. Minning þína þar ég geymi, þinni mynd úr huga mér aldrei gleymi, öðru gleymi ekki þér. (A. Symons. Þýð. Yngvi Jóhannesson.) Hún elsku amma er dáin. Þetta er svo endanleg kveðjustund og erfið.

Amma okkar, Aðalbjörg Egilsdóttir, var fædd 7. september 1908 á Galtalæk í Biskupstungum. Hún og afi, Þorvaldur Guðmundsson, byrjuðu sinn búskap í Hafnarfirði, en gerðust síðan bændur, fyrst í Biskupstungum, síðan í Villingaholtshreppi, en bjuggu á Selfossi frá 1961. Þau eignuðust fjóra syni: Hafstein, Eystein, Svavar og Gunnar. Afi lést 1975.

Hún amma var stórbrotin kona og yndisleg amma. Hún var af þessari kynslóð sem í raun man og lifði tímana tvenna. Hún hélt vörð um menjar og minningar liðins tíma en var um leið nútímakona og á undan sinni samtíð um margt.

Það er alltaf sárt að sjá á eftir sínum nánustu. Það verða ákveðin tímamót í lífi þeirra sem syrgja og hugurinn leitar til baka.

Það var alltaf gaman að fara austur til ömmu, fyrst í sveitina að Syðri-Gróf í Villingaholtshreppi, sem við elstu barnabörnin munum eftir, síðar á Selfoss, en þangað fluttu amma og afi 1961 og tóku með sér húsið úr sveitinni.

Hún amma var svo skemmtileg, hún sagði okkur sögur, sannar og magnaðar sögur, fallegar sögur og gæddi þær lífi. Hún las fyrir okkur og lét okkur lesa fyrir sig, við fengum að vaka, hjálpa til við að pússa upp gamlan hlut, mála, baka kleinur, spila og spjalla og kannski fyrst og fremst taka þátt í öllu og skipta máli. Ótrúlega mörg ævintýri bernskunnar eru tengd ömmu.

Eftir að við fullorðnuðumst tók hún þátt í gleði og sorgum, var með afbrigðum umburðarlynd og gat sett sig í hin ótrúlegustu spor.

Við erum innilega þakklát fyrir að hafa átt hana ömmu öll þessi ár og á þessari stundu er gott að trúa því að hún amma hafi hitt hann afa og alla hina horfnu ástvinina sína á grænu grundunum í guðsríki.

Guð blessi minningu elskulegrar ömmu.

Drífa og Heiður Eysteinsdætur.