Þorsteinn Sævar Jensson - viðbót Er sú sorgarfrétt barst okkur skólasystkinunum að skólabróðir okkar, hann Þorsteinn, væri dáinn var erfitt að trúa því að svo ungur maður væri kallaður burt svona snemma, en vissum þó að hann hafði átt við erfiðan sjúkdóm að stríða í nokkur ár.

Við kynntumst öll á Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni haustið 1978 og varð það strax mjög samheldinn og fjörugur hópur. Við áttum þó strax mjög erfitt með að þekkja þá í sundur tvíburabræðurna Þorstein og Guðmund, ekki síst fyrir það að þeir voru ávallt eins klæddir og olli það stundum skemmtilegum misskilningi. Þeir bræður voru ávallt mjög samrýndir og tóku þátt í störfum hvor annars og þá sérstaklega íþróttum sem voru þeirra mestu áhugamál. Þorsteinn var fjölhæfur og góður íþróttamaður með mikið keppnisskap og stefndi alltaf á að gera sitt besta í hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Hann tók virkan þátt í félagslífi hópsins og var einn af stofnendum T-félagsins sem var stofnað og myndað af strákunum í þessum árgangi.

Margs er að minnast frá þessum tíma og mörg voru uppátækin sem þessi félagsskapur stóð fyrir og var Þorsteinn alltaf tilbúinn að vera með, hvort sem um var að ræða íþróttakeppni eða skemmtanahald. Þessi félagsskapur hefur síðan haldið vel saman, en þar mynduðust mörg og sterk vináttubönd. Eftir að skólagöngu lauk á Laugarvatni og hver hélt í sína átt slitnaði ekki samband hans við hópinn og mætti hann á ýmsar skemmtanir sem T-félagið stóð fyrir.

Við viljum í þessum fáum orðum minnast góðs félaga og vinar sem fallinn er frá langt um aldur fram. Þá viljum við votta foreldrum hans, Jens Kristjánssyni og Margréti Guðmundsdóttur, og bróður hans Guðmundi og öðrum systkinum samúð okkar og biðjum Guð að styrkja þau í þeirra miklu sorg.

T-félagið.