27. febrúar 2009 | Viðskiptafréttir | 324 orð | 1 mynd

Síma lokað og vísað á dyr

Ragnhildi Ágústsdóttur vikið úr starfi forstjóra

Hart deilt Dramatíkin í kringum fjarskiptafyrirtækið Tal heldur áfram.
Hart deilt Dramatíkin í kringum fjarskiptafyrirtækið Tal heldur áfram. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is „ÞETTA símanúmer er lokað,“ voru skilaboðin sem Ragnhildur Ágústsdóttir, fráfarandi forstjóri Tals, fékk þegar hún reyndi að hringja í lögmann sinn í fundarherbergi í höfuðstöðvum Tals í gærmorgun.
Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

„ÞETTA símanúmer er lokað,“ voru skilaboðin sem Ragnhildur Ágústsdóttir, fráfarandi forstjóri Tals, fékk þegar hún reyndi að hringja í lögmann sinn í fundarherbergi í höfuðstöðvum Tals í gærmorgun.

Stuttu áður höfðu Jóhann Óli Guðmundsson, sem á 49% hlut í Tali ásamt Hermanni Jónassyni, og Stefán Geir Þórisson lögmaður birst í höfuðstöðvum Tals. Jóhann Óli og Stefán Geir báðu síðan Ragnhildi að koma til fundar við sig. Á fundinum, þar sem Ragnhildi var meinuð útganga um stund, var henni tilkynnt að hún væri ekki bær forstjóri og tilkynnt um uppsögn. Eftir fundinn var Ragnhildi vísað úr húsi. Númerið var svo opnað seinna um daginn, en ekki er vitað um ástæðu lokunarinnar.

„Ég er að skoða mína réttarstöðu með mínum lögfræðingi og mun að sjálfsögðu leita réttar míns ef á mér hefur verið brotið,“ segir Ragnhildur.

Hinn 30. desember var Hermanni Jónassyni vikið af stjórnarfundi í Tali, sem var haldinn í höfuðstöðvum Teymis, þegar stjórn Tals ákvað að segja upp samningi við hann í kjölfar þess að hann, fyrir hönd Tals, gerði reikisamning við Símann. Sú ákvörðun var tekin af tveimur stjórnarmönnum, en þrjá stjórnarmenn þarf til að binda félagið.

Á miðvikudaginn gerði Teymi, sem á 51% hlut í Tali, sátt við Samkeppniseftirlitið um skipun nýrrar stjórnar. „Við vorum að vonast til þess að sú sátt gæti skapað frið um Tal,“ segir Dóra Sif Tynes, lögmaður Teymis. Aðspurður hvort Ragnhildi hafi verið meinuð útganga af fundinum segir Stefán Geir Þórisson: „Ég meinaði henni ekki útgöngu, hún sat þarna bara og ræddi við okkur.“

Jóhann Óli neitar því að hafa meinað Ragnhildi útgöngu eða að hafa hlutast til um tímabundna lokun númers hennar. „Við sögðum henni bara að lesa þetta [uppsagnarbréf og úrskurð fjármálaráðuneytisins um að skráning Tals hefði verið röng hjá fyrirtækjaskrá] og láta ekki svona. Þessi fundur fór í alla staði mjög skikkanlega fram,“ segir Jóhann Óli. „Kjarni málsins hér eru lögbrot Teymis og menn mega ekki gleyma því,“ segir hann.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.