Hermannatyggjó Tyggjó sem hreinsar munn af bakteríum.
Hermannatyggjó Tyggjó sem hreinsar munn af bakteríum.
Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur vjon@mbl.is ENSÍMTÆKNI ehf. með dr. Jón Braga Bjarnason lífefnafræðing í broddi fylkingar hefur undanfarið þróað munnhirðuvörur; tyggjó, munnskol, munnúða og brjóstsykur, með þorskensím sem uppistöðuefni.

Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur

vjon@mbl.is

ENSÍMTÆKNI ehf. með dr. Jón Braga Bjarnason lífefnafræðing í broddi fylkingar hefur undanfarið þróað munnhirðuvörur; tyggjó, munnskol, munnúða og brjóstsykur, með þorskensím sem uppistöðuefni. Að sögn Jóns Braga eru vörurnar sérstaklega þróaðar með tilliti til þarfa hermanna. Hugmyndin sé að þeir fái tvo tyggjópakka í matarpakka sinn auk annarra vara með ensímum í, sem enn sé verið að þróa. „Í leiðöngrum komast þeir oft ekki í hreint vatn til að hreinsa tennurnar,“ útskýrir Jón Bragi.

Hann segir hugmyndina komna frá erlendum samstarfsaðilum, sem vinni með varnarmálaráðuneytum Bandaríkjanna og Ástralíu, en þeir voru að leita að besta ensíminu í slíkar vörur. „Þeir unnu með ensím úr ljósátu, svokölluðu krilli, sem er í miklu magni í suðurskautshöfum. Þegar þeir leituðu til mín, en ég vann að rannsóknum krillensíms fyrir tíu árum, stakk ég upp á að nota frekar þorskensím, sem er miklu hagkvæmara því öfugt við krillið þarf ekki að veiða þorskinn sérstaklega fyrir slíka framleiðslu. Þorskensímið er unnið úr slóginu og því gæti framleiðslan ekki verið „grænni“. Tilraunalotan tókst mjög vel. Það er mjög gott að tyggja tyggjóið, sem hreinsar munninn af bakteríum og bólgum,“ segir Jón Bragi, forstjóri Ensímtækni.

Tyggjóið er hefðbundið með sætuefni, en ekki sykri, og húðað með ensíminu og síðan gljáhúðað. Jón Bragi telur næsta víst að varnarmálaráðuneytin ákveði að taka tyggjóið í notkun á þessu ári og einnig fari það á almennan markað, íslenskan og erlendan.

Í hnotskurn
» Ensím eru hvatar, upprunnir úr lifandi frumum sem hvetja efnahvörf í frumunum.
» Dr. Jón Bragi Bjarnason, prófessor í lífefnafræði við HÍ, er einn helsti sérfræðingur Íslendinga í sjávarensímum.
» Ensímtækni ehf. hefur um árabil framleitt húðsnyrtivörur unnar úr þorskensími.