<strong>Brosmildur sigurvegari</strong> Leikstjórinn Michael Haneke hlaut Gullpálmann fyrir Hvíta borðann og brosti, að sögn ljósmyndara, í fyrsta skipti í vikunni.
Brosmildur sigurvegari Leikstjórinn Michael Haneke hlaut Gullpálmann fyrir Hvíta borðann og brosti, að sögn ljósmyndara, í fyrsta skipti í vikunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gildi jafnaðarstefnunnar voru í hávegum höfð hér í Cannes þegar dómnefndin útdeildi verðlaunum. Ef heiðursverðlaun Alain Resnais eru talin með fengu tíu myndir í aðalkeppninni jafnmörg verðlaun – þar af níu frá aðaldómnefndinni.

Gildi jafnaðarstefnunnar voru í hávegum höfð hér í Cannes þegar dómnefndin útdeildi verðlaunum. Ef heiðursverðlaun Alain Resnais eru talin með fengu tíu myndir í aðalkeppninni jafnmörg verðlaun – þar af níu frá aðaldómnefndinni. Við þrjú sem sátum saman á blaðamannafundinum vorum þó öll sammála um að þar sárvantaði Looking for Eric , bestu myndina sem ég sá í aðalkeppninni.

Sá blaðamaður sem þetta skrifar hefði raunar getað eytt löngum tíma í að rífast við dómnefndina um flest verðlaunin, en sum voru hins vegar fullkomlega verðskulduð. Það eru mörg tungl síðan ég sá leikkonu sýna jafnmikið hugrekki og Charlotte Gainsbourg í Antichrist , þetta er hlutverk sem upprennandi leikkonur geta stúderað næstu áratugina. Og svo er hún líka frábær söngkona eins og foreldrarnir og einstaklega sjarmerandi. Uppgötvun þessarar hátíðar hlýtur þó að vera austurríski stórleikarinn Christoph Waltz.

Tarantino hefur ósjaldan hjálpað föllnum kvikmyndastjörnum að skína á ný en hér kynnir hann heimsbyggðinni 52 ára austurrískan leikara sem var algjörlega óþekktur utan þýska málsvæðisins. En það er ekki nóg með að Waltz geti leikið reiprennandi á a.m.k. þremur tungumálum, heldur er hann líka drepfyndinn og þarf ekki handrit Tarantino til. Á blaðamannafundinum skemmti hann salnum á þremur tungumálum.

Forvitnilegasta augnablik kvöldsins var þó þegar Waltz tók við verðlaununum og þakkaði undir lok ræðunnar Quentin nokkrum Tarantino. Myndavélin leitaði Isabelle Huppert, formann dómnefndar, uppi og sýndi þegar hún ranghvolfdi í sér augunum á meðan Waltz mærði leikstjórann. Gullpálmann hlaut svo Michael Haneke, fyrir Hvíta borðann, sem Huppert lék einmitt fyrir í Píanókennaranum og hlaut verðlaun fyrir í Cannes sem besta leikkona. Þetta er lítill heimur og nóg pláss fyrir samsæriskenningar.

En átti mynd Haneke gullpálmann skilinn? Myndin má eiga það að vera ofboðslega vel gerð, svart-hvít kvikmyndatakan er gullfalleg, allir leikararnir eru sannfærandi og ólíkt ýmsum búningadrömum efast maður aldrei um að maður sé staddur á árinu 1914. En þótt sagan sé athyglisverð dregur hún áhorfandann þó aldrei alveg nógu vel inn í söguna. Og ef ég á að velja á milli þunglyndisins hjá Haneke og tregafullrar gleði Ken Loach og Cantona þá er valið auðvelt.

Ekkert kom þó áhorfendum í eins opna skjöldu og besti leikstjórinn, Brilliante Mendoza fyrir Kinatay , sem var lang-lang-langversta myndin sem ég sá á hátíðinni. Þar voru kollegar mínir flestir sammála, eins og stigagjöfin í Screen Daily bar merki um. Þar sem hún var allra mynda neðst og einn kollegi minn spurði dómnefndina einfaldlega: „Hvað í ósköpunum voruð þið að hugsa?“

Meiri sátt var um sérverðlaunin sem Fish Tank og hin kóreska Þorsti (Bak-Jwi) sem og Grand Prix-verðlaunin sem Spámaðurinn (Un Prophéte) fékk, enda var sú ræma lengi talin sigurstranglegust. Og meðlimir Sigur Rósar eiga örlítið milliprósent í þeirri mynd, en stutt brot úr lagi þeirra Gobbledigook heyrist í myndinni. Og þótt Alain Resnais hafi ekki verið upp á sitt besta í keppninni voru heiðursverðlaunin margverðskulduð.

En í lokin langar mig að veita sérstök aukaverðlaun til mannsins sem náði best allra að fanga andrúmið sem Cannes á fremur öðru að snúast um. Hann heitir Henri Behar og hefur stýrt blaðamannafundunum af snilld. Hann hefur áru manns sem veit allt um bíómyndir, elskar þær út af lífinu og hefur um leið frábæran húmor fyrir öllum viðmælendum, sem og misvitrum blaðamönnunum. Hann er besta dæmið sem ég veit um fólkið á bak við tjöldin sem lætur hátíðina ganga svona vel upp, þannig að við getum notið þess að horfa á og rífast um bíómyndir.

asgeirhi@mbl.is

Ásgeir H. Ingólfsson