Í sviðsljósinu Leikkonan Charlotte Gainsbourg stillir sér upp fyrir ljósmyndara eftir að vera valin besta leikkonan fyrir hlutverk sitt í Antichrist.
Í sviðsljósinu Leikkonan Charlotte Gainsbourg stillir sér upp fyrir ljósmyndara eftir að vera valin besta leikkonan fyrir hlutverk sitt í Antichrist. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sólin skín hér á frönsku rivíerunni en samt eru allir að fara. Það er pakkað í töskur, stóru hótelin eru hægt og rólega að færast í hversdagsbúninginn – rétt eins og borgin sjálf. En dómnefndin var ekki að verðlauna sólskinið.

Sólin skín hér á frönsku rivíerunni en samt eru allir að fara. Það er pakkað í töskur, stóru hótelin eru hægt og rólega að færast í hversdagsbúninginn – rétt eins og borgin sjálf. En dómnefndin var ekki að verðlauna sólskinið. Sigurmyndin var síðbúin spásögn um fyrri heimstyrjöldina, tilraun Michael Haneke til þess að sálgreina þýska þjóð á barmi tortímingar, með smáþorp eitt sem stikkprufu. Hvíti borðinn er táknræn áminning um sakleysi og hreinleika sem strangur faðirinn bindur á hortug börn sín, án þess að átta sig á því hversu útataður borðinn er af syndum feðranna. Það tekur oftast einhver ár að búa til bíómynd og væntanlega má skoða margar myndirnar hér sem síðbúinn spádóm um heimskreppuna.

Raunar voru hálfbrjálaðir spámenn algengar sögupersónur í myndunum hér í Cannes, brjálaðir á sama hátt og allir þeir sem fá nú uppreisn æru eftir að hafa séð hrunið fyrir. Hinn ódauðlegi Dr. Parnassus í brjáluðu ævintýri Gilliams og Eric Cantona eru sjálfsagt bestu dæmin. Það vakti raunar nokkra athygli þegar samtök kaþólskra kirkna í Frakklandi veittu Looking for Eric sérstök verðlaun fyrir andleg gildi, og mega klerkarnir eiga það að hafa í þeim efnum verið meiri smekkmenn en dómnefndarmeðlimir. Þetta kallar hins vegar á spurninguna hvort það þýði að Cantona, sem birtist í myndinni með næsta yfirnáttúrulegum hætti, verði í kjölfarið flokkaður sem spámaður eða dýrlingur af kaþólsku kirkjunni – já, eða kannski bara staðgengill Krists eins og söngglaðir gestir Old Trafford fullyrða enn þann dag í dag.

Hins vegar vakti enn meiri athygli þegar hún veitti sérstaka „andviðurkenningu“ fyrir Antichrist . Þó er ekki hægt að líta fram hjá því að það er minnst á Antí-Krist í ritningunni og líklega stangast Looking for Eric meira á við hina heilögu ritningu en Antichrist , þannig að svo virðist vera það sé aðeins vel séð að kvikmynda valda kafla ritningarinnar núorðið. En skammarverðlaunanefnd kirkjunnar hefur vafalítið verið vandi á höndum enda samkeppnin hörð, enda komu Antí-Kristur, djöfullinn, Hitler, Mussolini og Göbbels allir við sögu auk prests nokkurs sem verður að vampíru. Að ógleymdum passlegum skammti af fjöldamorðingjum, dópsölum, súludönsurum, pedófílum og smáglæpamönnum. Þá er ógetið Agora, reiðilesturs leikstjórans Alejandro Amenabar yfir trúarbrögðum heimsins sem virðast vera rót alls ills í Alexandríu á fjórðu öld eftir Krist.

Þá er hægt og rólega að spyrjast út að kergjan í dómnefndinni hafi verið jafnvel meiri en menn grunaði og sem dæmi fullyrðir sjálft Variety að einn dómnefndarmeðlimur hafi sagt þetta vera verstu dómnefnd sem hann hafi verið meðlimur í og annar mun hafa kallað formann dómnefndar, Isabelle Huppert, stjórnsaman fasista. Það kom ekki fram hverjir þetta voru, en það vakti athygli á blaðamannafundinum eftir afhendinguna að Asia Argento var afskaplega stutt í spuna, James Gray forðaðist að svara spurningum og Hanif Kureishi svaraði öllu með listilegri kaldhæðni, en maður skynjaði ágætlega broddinn sem lá að baki.

En það vantaði svo sannarlega fleiri gamanmyndir hingað á Cannes. Það var vissulega þónokkur húmor í mínum uppáhaldsmyndum í keppninni, Looking for Eric, The Imaginarum of Dr. Parnassus og Enginn veit um persnesku kettina , sem og Inglorious Basterds , Taking Woodstock og hinni mistæku Les herbes folles , en aldrei náði húmorinn að fela ansi myrk og sorgmædd hjörtu algjörlega. Dr. Parnassus gæti misst dóttur sína í hendur djöflinum, póstmaðurinn Eric er haldinn alvarlegu þunglyndi og persnesku kettirnir, neðanjarðartónlistarmenn í Íran, eru útlagar í eigin heimalandi. Jafnvel Up hafði sinn skammt af brostnum draumum, horfnum ástvinum og föllnum hetjum. En sorglegust var þó ákvörðun dómnefndar að hunsa nánast alveg allar myndir sem hægt var að finna einhvern vonarneista í, jafnvel þótt Cannes sé uppfull af von þrátt fyrir að margir segi allt vera á leiðinni til andskotans. Sem þarf ekki endilega að vera svo slæmt, svo framarlega sem Charlotte Gainsbourg eða Tom Waits fá að leika kölska.

asgeirhi@mbl.is

Ásgeir H Ingólfsson