Rafn Gíslason
Rafn Gíslason
Eftir Rafn Gíslason: "Það er mér óskiljanlegt að ASÍ skuli ekki óttast þessa þróun eða telja að hana þurfi að taka alvarlega."

SUNNUDAGINN 24. maí síðastliðinn skrifaði ég grein um ASÍ, Samfylkinguna og ESB. Þar kom ég inn á hið svo kallaða Vaxholms-mál í Svíþjóð og afleiðingar þess fyrir launþegahreyfinguna á ESB-svæðinu. Aðdragandi þessa máls var að bæjarfélagið Vaxholm í Svíþjóð ákvað árið 2004 að fara í endurbyggingu á skólahúsnæði í bænum. Gerð voru tilboðsgögn þar sem meðal annars var kveðið á um að þau fyrirtæki sem áhuga hefðu á að gera tilboð í verkið skyldu skrifa undir samning við Byggnads um launakjör og aðbúnað (kollektivavtal) en það var hinn almenna regla á sænskum vinnumarkaði. Lettneska fyrirtækið Laval un Partneris átti lægsta boðið í verkið og fékk það. Laval hafði þegar þetta var þegar starfað á sænskum byggingamarkaði um nokkurt skeið en þá í gegnum dótturfélag sitt sem hét Baltic AB og á árunum 2002/03 hafði það veltu upp á um 20 milljónir sænskra króna. Baltic AB hóf síðan störf við endurbyggingu skólans sem undirverktaki fyrir hönd Laval un Partneri en í júní árið 2004 hefur Byggettan samband við Baltic AB og fer fram á að þeir skrifi undir launasamninga við þá eða svo kallaðan tímabundinn kjara- eða vinnuréttarsamning (hängaftal) en það er vaninn í svona tilfellum. Byggettan komst fljótt að því að Baltic AB hafði ekki áhuga á slíkum samningi þó að þeir hafi áður undirgengist það við tilboðið að slíkt skyldi gert. Í september sama ár slitnar svo upp úr samningaviðæðum við Baltic AB og í nóvember sama ár er fyrirtækið sett í „frost“ (blockad). Útilokunin stóð í einar 7 vikur og um jólin 2004 hættir Baltic AB störfum við skólabygginguna og fer til Lettlands. Þetta mál fór síðan fyrir sænska vinnudómstólinn sem dæmdi Byggnads og LO í fullum rétti í þessum átökum, en þar sem dómurinn var ekki einhuga var ákveðið að sækja eftir áliti frá Evrópudómstólnum og settu fulltrúar LO sig ekki upp á móti því. Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að heimilt var og er að greiða laun samkvæmt lettneskum launasamningum þó svo unnið væri í Svíþjóð. Forsenda dómsins er sú að ESB lítur svo á að þjónusta fyrirtækja og vinnuafls skal geta farið óhindrað um ESB-svæðið án hafta og afskipta stéttarfélaga í viðkomandi landi og án þess að þurfa að gangast undir kjarasamninga viðkomandi lands. Þetta á við öll fyrirtæki og launþega í ESB-löndunum. Í svari sínu 25. maí 2009 við grein minni sem birtist í Mbl. 24 maí 2009 segir Gylfi Arnbjörnsson orðrétt:

ASÍ gerði sérstakan kjarasamning við SA 2004 um málefni erlendra starfsmanna sem auðvelda okkur að koma í veg fyrir undirboð. Einnig höfum við í samstarfi við SA og félagsmálaráðherra staðið fyrir innleiðingu ýmissa reglna sem er ætlað að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti misnotað aðstöðu sína til að ná samkeppnisforskoti með því að grafa undan lögum og kjarasamningum. Að okkar mati hefur skipulag íslensks vinnumarkaðar, þar sem saman fer mikil þátttaka í verkalýðsfélögum, samstarf við samtök atvinnurekanda um trausta kjarasamninga sem eru studdir nauðsynlegri löggjöf, reynst skila bestum árangri í að tryggja hagsmuni bæði launafólks og fyrirtækja. Aðild að ESB ógnar þessu fyrirkomulagi ekki á nokkurn hátt nema síður sé.

Ég get ekki betur séð en að LO og Byggnads í Svíþjóð hafi talið sig vera í svipaðri stöðu á sænskum vinnumarkaði áður en til Vaxholms málsins kom. Sjá grein á heimasíðu LO. http://www.lo.se/home/lo/home.nsf/uni View/4CA5C8558AA549D2C1256

F720060D909

Málalok Vaxhólms málsins hafa sett af stað mikið umrót á meðal sænsku verkalýðshreyfingarinnar sem finnst gróflega vegið að launþegum landsins og að það ógni velferð sænskra launþega. Nú í aðdraganda kosninganna til ESB-þingsins er þróun þessara mála mótmælt harðlega af sænska Sósíaldemókrataflokknum og LO/Byggnads og þess krafist að afstöðu ESB til þessara mála verði breytt eins og má sjá á heimasíðum félaganna. Sjá: http://www.socialdemokraterna.se/Webben-for alla/EU/maritaulvskog/MediaKontakt/Artiklar/EU-kommissionens-ordforande-bor-avga/ og http://www.byggnads.se/Europaparlamentsvalet/Byggnads-argument-for-att-du-ska-rosta/

Í dag 28. maí 2009 fór hópur félagsmanna Byggnads og LO með Maritu Ulvskog í broddi fylkingar út til Vaxholms til að greiða atkvæði til ESB-þingsins utankjörstaðar. Það var gert til að minna á Vaxhólms-málið og þá hættu sem þessir aðilar telja að steðji að sænskum launþegum og sænsku velferðarkerfi. Það er augljóst að Sósíaldemokrataflokknum og aðildarfélögum LO finnst ástæða til að óttast þessa framvindu mála. Það er mér óskiljanlegt að ASÍ skuli ekki óttast þessa þróun eða telja að hana þurfi að taka alvarlega. Hvað gerir okkur betur í stakk búna til að takast á við slík mál innan ESB en önnur aðildarlönd sambandsins?

Höfundur er húsasmiður.