Góðar stundir Verja má tímanum í útivist eða garðvinnu, einn eða með fjölskyldunn, og þannig rækta sálina, líkamann og styrkja samböndin við aðra milli starfa. Að liggja í sleni skilar hins vegar litlu. Fólkið á myndinni tengist ekki efni greinarinnar.
Góðar stundir Verja má tímanum í útivist eða garðvinnu, einn eða með fjölskyldunn, og þannig rækta sálina, líkamann og styrkja samböndin við aðra milli starfa. Að liggja í sleni skilar hins vegar litlu. Fólkið á myndinni tengist ekki efni greinarinnar. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AÐ vera án atvinnu getur reynt á taugarnar. Framtíðin virðist óviss og oftar en ekki bætast fjárhagsörðugleikar við. Til að hægt sé að takast á við vandamálin skiptir rétta viðhorfið miklu máli og að hugað sé að því góða og uppbyggilega. 1.

AÐ vera án atvinnu getur reynt á taugarnar. Framtíðin virðist óviss og oftar en ekki bætast fjárhagsörðugleikar við. Til að hægt sé að takast á við vandamálin skiptir rétta viðhorfið miklu máli og að hugað sé að því góða og uppbyggilega.

1. Vinir og ættingjar

Í atvinnuleysi er rétti tíminn til að rækta samböndin við fjölskyldumeðlimi. Einn af kostum þess að vera án atvinnu er að mun meiri tími er aflögu til að verja með þeim sem eru okkur kær og styrkja böndin.

Fjölskylda og vinir geta verið góð uppspretta styrks og ráðgjafar, en umfram allt getur það lyft andanum og sett hlutina í rétt samhengi að verja góðum stundum saman og búa til nýjar minningar með fjölskyldunni.

2. Komast á hreyfingu

Regluleg hreyfing er mikilvæg og nauðsynlegt að fara út úr húsi a.m.k. daglega. Á góðum göngu- eða hjólatúrum má uppgötva fallega náttúru eða skemmtilegar götur í nágrenninu.

Nú má kannski byrja að æfa íþrótt sem lengi hefur freistað: læra nokkur góð glímubrögð, bogfimi eða fara í kendótíma og munda bambus-sverðið eins og alvöru samúræi. Hreyfingin styrkir líkamann og fyllir af orku, lundin léttist, heilsan batnar og auðveldara verður að takast á við atvinnuleitina og önnur verkefni dagsins.

3. Bæta samfélagið

Sjálfboðaliðastörf gefa margfalt til baka. Af hverju að láta starfskraftana fara til spillis þegar hægt er að leggja hönd á plóg hjá góðgerðarstofnunum. Félög eins og Rauði krossinn þurfa alltaf fleiri hendur til góðra verka, en það er ekkert síðra að baka af kappi fyrir kökubasar góðgerðar- eða íþróttafélags, eða hreinlega fara af stað út á götu með ruslapoka og hreinsa til í götunni.

4. Taka til hendinni

Margir fagna því, þegar þeir missa vinnuna, að geta loksins sinnt öllum þessum verkefnum á heimilinu sem hafa fengið að bíða allt of lengi.

Í atvinnuleysi er rétti tíminn til að laga það sem laga þarf, og kannski löngu kominn tími til að gera ærlegan skurk í geymslunni eða garðinum.

Þessi heimilisverk þurfa ekki að kosta mikið: kannski málningarfötu eða rúllu af svörtum ruslapokum. Þau krefjast fyrst og fremst tíma sem núna er nóg af, og eru ákaflega gefandi.

5. Litlu góðu hlutirnir

Ekki síst gefur atvinnuleysi tækifæri til að kunna að meta lífsins einföldu lystisemdir. Hamingjan liggur ekki endilega í utanlandsferðum né leynist undir borðum á dýrum veitingastöðum.

Eru ekki uppi í hillu góðar bækur sem beðið hafa óhreyfðar allt of lengi? Kannski tímabært að halda spilakvöld og dusta rykið af Trivial Pursuit-kassanum, eða ganga til liðs við skemmtilegan kór? Heimalagað poppkorn og skemmtileg kvikmynd í sjónvarpinu getur verið allt sem þarf til að eiga notalega kvöldstund.

6. Meira í dag en í gær

Þegar búið er að taka til í geymslunni, mála þakið, gróðursetja, æfa fyrir skemmtiskokkið og þjappa fjölskyldunni saman er fátt annað eftir en rækta hugann.

Mikið framboð er af alls kyns menntun, skemmri og lengri, á öllum mögulegum sviðum.

Menntunin þarf ekki að vera dýr, og aragrúi af námskeiðum sem greidd eru niður að mestu eða öllu leyti af ríki og/eða stéttarfélögum.

Menntunin getur líka orðið að aðalstarfi, t.d. ef farið er í fullt háskólanám og má þá leita til Lánasjóðsins með framfærslu.

Aðalatriðið er að læra eitthvað nýtt, hvort sem það er að sitja skemmtilega endurmenntunarkúrsa um spennandi borgir eða skemmtilegar bókmenntir, ellegar fikta við nýtt tungumál eða bæta við faglegri menntun.

7. Góða skapið

Rétta viðhorfið ræður úrslitum. Það má velja að líta á atvinnumissi sem heimsendi, og sjá ekkert nema hindranir og erfiðleika, eða koma auga á þau tækifæri sem hafa skapast. Nú er gott að hugsa sinn gang, og jafnvel hægt að marka nýja og betri stefnu í lífinu.