Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í Zetunni, umræðuþætti á mbl.is, hinn 23. mars sl.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í Zetunni, umræðuþætti á mbl.is, hinn 23. mars sl. þegar lýst var efasemdum við hann um að Svavar Gestsson væri heppilegasti maðurinn til þess að leiða samningaviðræður við Breta vegna Icesave-deilunnar: „Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi – og hans fólk – glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur.“

Nokkrum dögum síðar dró ráðherrann að vísu aðeins í land um glæsileika niðurstöðunnar, en nú liggur hún fyrir.

Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til þess að greiða 630 milljarða króna vegna Icesave. Vextir verða 5,5% og ekki þarf að greiða af höfuðstól lánsins fyrr en að sjö árum liðnum, en þannig hækkar höfuðstóllinn frá ári til árs og verður að sjö árum liðnum kominn vel yfir 900 milljarða króna, verði ekkert greitt niður af láninu fyrr en að þeim tíma loknum.

Er það eitthvað til þess að hrópa húrra fyrir?

Með öllu er óljóst nú hversu háar fjárhæðir munu fást fyrir eignir Landsbankans, sem til stendur að reyna að selja á næstu sjö árum og láta andvirði þeirra ganga upp í skuldbindingarnar vegna Icesave, og það liggur sömuleiðis ekkert fyrir um það hversu miklum tekjum „heilbrigð lánasöfn“ Landsbankans í Bretlandi munu skila.

Því fer víðs fjarri að niðurstaðan sem nú liggur fyrir geti talist „glæsileg“. Er fjármálaráðherra kannski á annarri skoðun?