Sykursnúður Afgreiðslustúlka í bakaríi með sætabrauð sem bakað var í tilefni heimsóknar Obama til Þýskalands sl. föstudag.
Sykursnúður Afgreiðslustúlka í bakaríi með sætabrauð sem bakað var í tilefni heimsóknar Obama til Þýskalands sl. föstudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hálfgert Obama-æði virðist hafa gripið Þjóðverja, sem hafa mikið dálæti á hinum nýkjörna forseta Bandaríkjanna.

Hálfgert Obama-æði virðist hafa gripið Þjóðverja, sem hafa mikið dálæti á hinum nýkjörna forseta Bandaríkjanna. Kaupsýslumenn ganga í broddi fylkingar eins og við er að búast, en þeir hafa séð sér leik á borði og framleitt húfur, boli, könnur og flest sem nöfnum tjáir að nefna með myndum af forsetanum. Einnig krúttleg tuskudýr, sem eru nákvæm eftirlíking Bos, portúgalska hvolpsins, sem forsetahjónin gáfu dætrum sínum þegar fjölskyldan hreiðraði um sig í Hvíta húsinu.

Leikfangaframleiðandi í Bad Kösen átti hugmyndina og gengur tuskuhundurinn því undir nafninu Bo frá Kösen. Einkaleyfið er tryggt og segir talsmaður fyrirtækisins að 500 stykki til viðbótar séu væntanleg í hillur verslana á næstu dögum.

Smekksatriði

Æðið náði hæstu hæðum í vikunni þegar Barack Obama steig fæti á þýska grund. Hann staldraði þó svo stutt við að framleiðanda Bo frá Kösen gafst ekki ráðrúm til að hitta forsetann og færa honum tuskudýrið að gjöf.

Myndir og styttur af öllum stærðum og gerðum í líki Obama blasa víða við og eru misjafnlega smekklegar eins og gengur með vörur af þessu tagi. Til að mynda sýnist sitt hverjum um Obama-fingur sem fást tilbúnir á pönnuna með karrý-dýfu. Þessir kjúklingastautar eru sagðir sannkallaður herramannsmatur og fást nokkrir saman, 500 grömm í pakka. Hrifningin á forsetanum endar ekki í verslunum, því í haust verður settur upp í Frankfurt söngleikurinn „Hope – Yes We Can“, sem hverfist um forsetann vinsæla.