Víkverji er á því að frétt um að upplýsingaflæði nútímans sé að útrýma samúð í samfélaginu sé frétt vikunnar. Hann er sannfærður um að þarna séu orð í tíma töluð.

Víkverji er á því að frétt um að upplýsingaflæði nútímans sé að útrýma samúð í samfélaginu sé frétt vikunnar. Hann er sannfærður um að þarna séu orð í tíma töluð. Upplýsingaflæðið er svo gríðarlegt að fólk hefur ekki tíma til að staldra við, hugsa og meta hlutina. Hvað þá að finna til með fólki sem upplýsingarnar snerta. Víkverji fær á hverjum degi fleiri tugi tölvupósta - stundum skipta þeir hundruðum. Hann eyðir því mörgum dýrmætum mínútum (stundum klukkutímum) í starfi sínu við að fara í gegnum þessi ósköp. Flestir póstarnir eru rusl - en inn á milli eru t.d. góðar ábendingar frá lesendum um fréttamál og skemmtilegar uppákomur.

Víkverja finnst stundum að hann sé að leika sér í tölvuleiknum tetris allan daginn. Jafnóðum og hann eyðir póstum út, sendir áfram eða setur í möppur til geymslu hlaðast nýir póstar inn. Og rauði liturinn sem merkir að pósturinn sé ólesinn er stundum æpandi!

Það er ekki nema von að Víkverji sé stundum úrvinda. Og hann saknar þeirra tíma þegar engir farsímar voru og enginn tölvupóstur, þó það sé algjör klisja! Auðvitað auðvelda þessir samskiptamátar margt í starfi Víkverja en þar sem taugarnar eru farnar að þenjast í hvert sinn sem síminn hringir og hjartað að taka kipp í hvert skipti sem tölvupóstur berst, hefur Víkverji nokkrar áhyggjur af ástandinu. Og er sannfærður um að alltof margir tölvupóstar séu sendir. Alltof margir.

Sérstaklega er eftirtektarvert að stundum hringir fólk, stuttu eftir að senda póstinn, og spyr: „Fékkstu tölvupóstinn frá mér?“ Víkverji á stundum bágt með sig þegar hann fær svoleiðis símtöl. Þarna sameinast líka tveir verstu óvinir hans, símtalið og tölvupósturinn. Nógu slæmir eru þeir sitt í hvoru lagi.