Helena Þ. Karlsdóttir
Helena Þ. Karlsdóttir
Eftir Helenu Þ. Karlsdóttur: "Tilvonandi ferðalangar eru hvattir til að snúa viðskiptum sínum til aðila sem hafa tilskilin leyfi en ekki stuðla að því að ólögleg starfsemi viðgangist."

FRAMUNDAN er mikið ferðasumar á Íslandi, líklega eitt það mesta í langan tíma. Samkvæmt könnun Ferðamálastofu um ferðaáform Íslendinga má búast við að um 90% Íslendinga ætli að ferðast innanlands í sumar, sem er nokkuð hærra hlutfall en fyrri kannanir hafa sýnt, en auk þess bendir margt til þess að vænlega horfi í komum erlendra ferðamanna.

Þegar sumarfrí er skipulagt má gera ráð fyrir að ferðalangar sæki í ýmiss konar afþreyingarferðir. Þá er vert að huga að leyfismálum í ferðaþjónustu og við hverja best er að eiga viðskipti.

Þeir sem skipuleggja og/eða selja ýmiss konar ferðir innan lands sem utan verða að hafa til þess leyfi frá Ferðamálastofu. Þeir sem ekki hafa tilskilin leyfi stunda því ólöglega starfsemi. Til að vita hverjir hafa leyfi og hverjir ekki þá ber söluaðilum ferða að nota og birta auðkenni sem Ferðamálastofa gefur út þannig að fólk getur á auðveldan hátt gengið úr skugga um hvort tilskilin leyfi séu fyrir hendi eða ekki. Ferðaþjónustuaðilunum ber að birta auðkennin á heimasíðum og í auglýsingum sínum.

Auðkenni Ferðamálastofu fá einungis þeir aðilar sem hafa leyfi til að skipuleggja og/eða selja ferðir. Það er því ákveðinn gæðastimpill fyrir viðkomandi aðila og staðfesting á því að viðkomandi sé með lögbundið leyfi. Leyfi eru því ákveðin meðmæli með starfseminni, veita aðhald og með því eru ákveðnir hagsmunir neytenda verndaðir.

Gerður er greinarmunur á ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfum. Hlutverk ferðaskipuleggjenda er að setja saman, bjóða fram og selja í atvinnuskyni eftirfarandi ferðatengda þjónustu fyrir almenning:

Skipulagningu ferða hópa og einstaklinga innan lands og erlendis, skipulagningu funda, sýninga og ráðstefna og hvers kyns þjónustu því tengda, innan lands sem utan, umboðs- og endursölu farmiða með t.d. bifreiðum, skipum og flugvélum, dagsferðir sem fela í sér ýmiss konar afþreyingu og frístundaiðju s.s. hestaferðir, vélsleðaferðir, fljótasiglingar, jeppaferðir, gönguferðir, hlaupaferðir, hvalaskoðunarferðir, veiði í ám og vötnum, veiði villtra dýra, bátaleiga, köfun, seglbrettaleiga, klettaklifur, fallhlífarstökk, teygjustökk o.s.frv., ferðir og veitingar sem hluta af veittri þjónustu. Hlutverk ferðaskrifstofa er að selja alferðir í atvinnuskyni en alferð er fyrirfram ákveðin samsetning tveggja eða fleiri þátta sem seldir eru saman á einu verði, t.d. flug og gisting eða hestaferð með gistingu.

Mikil aukning hefur verið í útgáfu ferðaskipuleggjendaleyfa en það sem af er þessu ári hefur verið sótt um fleiri leyfi en gefin voru út allt árið í fyrra. Um 165 slík leyfi eru í gildi og fer þeim fjölgandi.

Því miður má reikna með að einhverjir bjóði til sölu ferðir án þess að hafa tilskilin leyfi. Ferðamálastofu hafa borist fjölmargar ábendingar um slíkt. Þá er um ólöglega starfsemi að ræða. Tilvonandi ferðalangar eru hvattir til að snúa viðskiptum sínum til aðila sem hafa tilskilin leyfi en ekki stuðla að því að ólögleg starfsemi viðgangist. Á vef Ferðamálastofu, www.ferdamalastofa.is, má finna lista yfir ferðaskrifstofur og -skipuleggjendur sem hafa tilskilin leyfi.

Höfundur er lögfræðingur Ferðamálastofu